Það er ekki laust við að grásleppuveiðimenn hafi beðið spenntir eftir fréttum af vertíðinni á Nýfundnalandi. Þar hefja menn veiðar langt á eftir öðrum og í ár keyrði um þverbak í þeim efnum. Hafís hefur legið yfir veiðislóðum með Austur- og N-Austur ströndinni, ásamt því að sjávarkuldi hefur verið mikill. Til marks um það síðarnefnda gerðist það fyrir nokkrum vikum að þúsundir tonna að þorski rak á fjörur í Trinity flóa, norður af St. John´s, ýmist dauður eða svo gott sem. Orsökin var sjaldgæf blöndun ferskvatns og saltvatns sem hreinlega frysti þann gula til bana.
Vertíðin hófst í síðustu viku, eftir að hafa verið frestað aftur og aftur. Byrjunin var mjög róleg og ekki ósvipuð því sem var í fyrra, en þá hrundu veiðarnar í nánast ekki neitt, eða 1200 tunnur. Var það mikill viðsnúningur því Nýfundnaland hefur síðastliðin hálfan annan áratug verið aflahæsta þjóðin í grásleppuveiðunum.
Um helgina birti ögn til hjá veiðimönnum vestra en þá gerði svolítið ‘skot’ við Suð-Vestur ströndina. Menn eru þó mjög varkárir með spádóma og almennt sammála því að framundan sé ekkert ævintýri. Enn liggur hafís yfir nokkrum veiðisvæðum og vart verður við breytta hegðun sleppunnar, t.d. hefur hún verið á dýpra vatni en áður.
Verðlagning á hrognum er mjög ólík því sem annars staðar gerist, en svokallað grunnverð, sem fyrir vertíð er ákveðið er í samningum milli samtaka fiskimanna og verkenda hefur aðeins einu sinni verið hærra en nú. Verðþróun skýrist ekki fyrr en að einhverjum dögum liðnum.