Samþykktir
1. gr.
Nafn sambandsins er Landssamband smábátaeigenda (LS). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
LS er samband félaga og svæðisfélaga smábátaeigenda. Tilgangur þess er að tryggja sameiginlega hagsmuni smábátaeigenda á öllum sviðum, vera opinber málsvari þeirra og stuðla að framförum á sviði fiskveiða, vöruvöndunar, öryggis- og tryggingamála og annarra mála er þá varða.
Þá skal félagið sérstaklega vera málsvari félagsmanna, svæðisfélaga og undirfélaga þeirra gagnvart stjórnvöldum og stjórnvaldsaðgerðum er lúta að fiskveiðum, öryggismálum, tryggingamálum, málefnum vöruvöndunar og eftirlits og félagslegum réttindum.
Til að tryggt sé að LS geti fylgt eftir þessum markmiðum er formanni og framkvæmdastjóra heimilt, að fengnu samþykki stjórnar, að höfða hvers konar dómsmál á framangreindum sviðum í nafni LS til þess að gæta hagsmuna svæðisfélaga, undirfélaga innan svæðisfélaga, félagsmanna og einstakra félagsmanna.
Heimild þessi nær einnig til að áfrýja dómi til Hæstaréttar Íslands og þeirra dómstóla erlendis er fjalla um mannréttindamál.
3. gr.
Sérhver félagsmaður / lögaðili í Landssambandi smábátaeigenda skal greiða árlegt félagsgjald. Upphæð félagsgjalds skal vera 0,5% af aflaverðmæti hvers báts. Stjórn er heimilt að leggja fyrir aðalfund tillögu að hámarks- og lágmarksgjaldi.
4. gr.
Stjórnir félaga og svæðisfélaga smábátaeigenda skulu senda stjórn LS skrá um félaga sína. Félög og svæðisfélög smábátaeigenda skulu sjálf setja sér samþykktir en skulu leitast við að þær brjóti ekki í bága við samþykktir LS. Til þess að félag geti verið aðili að LS þarf það að hafa fulla heimild til að fara með mál félaga sinna og undirrita samþykktir um þau með fyrirvara um samþykki eigin funda. Hverju félagi er heimilt að fela LS sín baráttumál og samninga um einstök mál.
5. gr.
Komi til þess að félag ákveði að segja sig úr LS skal úrsögnin vera skrifleg og undirrituð af stjórnendum félagsins. Úrsögnin miðast við áramót með minnst 6 mánaða fyrirvara.
6. gr.
Stjórn LS boðar fundi í sambandinu í samræmi við lög þessi. Lögmætir fundir LS hafa æðsta vald í öllum málefnum þess innan þeirra takmarkana sem samþykktir setja. Afl atkvæða ræður úrslitum.
7. gr.
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. nóvember eftir nánari ákvörðun sambandsstjórnar. Stjórn LS getur boðað aukafund þegar hún telur ástæðu til. Félögin geta krafist aukafundar en til þess þarf minnst 1/4 atkvæða innan sambandsins.
8. gr.
Til aðalfundar skal boða með 4-5 vikna fyrirvara. Aukafundi skal boða með eigi skemmri fyrirvara en 10 daga á skilmerkilegan hátt. Ef formanni eða stjórn LS sýnist brýn nauðsyn bera til er heimilt að boða til fundar með skemmri fyrirvara. Fundarboð skal senda stjórnum félaganna með fyrirvara. Í fundarboði skal getið helstu mála sem koma eiga fyrir fundinn.
9. gr.
Aðalfundur og aðrir fundir eru löglegir ef löglega er til þeirra boðað.
10. gr.
Tillögur um breytingar á lögum skulu hafa borist stjórn LS það tímanlega að hægt sé að senda þær stjórnum félaganna með fundarboði. Æskilegt er að framboð til formanns verði tilkynnt á sama tíma.
11. gr.
Rétt til að sækja aðalfund LS hafa:
- 36 kjörnir fulltrúar svæðisfélaga, skipt í hlutfalli við fjölda báta í eigu aðila innan hvers svæðisfélags og greitt hefur verið félagsgjald næstliðins árs.
- Stjórn LS og framkvæmdastjóri.
- Útgerðarmenn smábáta innan vébanda LS, sem áheyrnarfulltrúar með tillögurétt og málfrelsi.
12. gr.
Formaður LS setur fundi sambandsins og stjórnar kosningu fundarstjóra og fundarritara. Fundarstjóri skal strax rannsaka hvort löglega sé til hans boðað. Lýsir hann því síðan yfir hvort fundurinn sé lögmætur. Atkvæðagreiðsla og önnur meðferð mála fer eftir almennum fundarsköpum sem fundarstjóri kveður nánar á um. Sé skriflegrar atkvæðagreiðslu óskað skal hún fara fram.
13. gr.
Á aðalfundi skal tekið fyrir eftirfarandi:
- Skýrsla stjórnar um starfsemi og rekstur félagsins á liðnu starfsári.
- Ársreikningur félagsins fyrir síðasta reikningsár skal lagður fram til samþykktar, ásamt athugasemdur skoðunarmanna.
- Kosning stjórnar að fengnum tillögum frá hverju svæðisfélagi.
- Kosning formanns.
- Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna.
- Ákvörðun þóknunar til formanns og stjórnar fyrir störf þeirra á kjörtímabilinu.
- Tillögur um lagabreytingar sem löglega eru bornar fyrir sbr. 10. gr.
- Önnur mál.
14. gr.
Rita skal fundagerðir aðalfunda, aukafunda og stjórnarfunda. Fundargerðir verði aðgengilegar á rafrænu formi.
15. gr.
Stjórn LS skal skipuð einum fulltrúa frá hverju aðildarfélagi auk formanns. Stjórnin skipti með sér verkum, að öðru leyti en getur um í 13. grein. Kjörtímabil stjórnar er á milli aðalfunda, það er um það bil eitt ár.
Fyrir hvern aðalfund LS skal endurskoða fulltrúafjölda svæðisfélaganna, sem tekur mið af fjölda báta sem greitt hefur verið félagsgjald fyrir næstliðið almanaksár. Þrátt fyrir framangreint skulu öll svæðisfélög LS hafa að lágmarki 1 fulltrúa á aðalfundi.
16. gr.
Er þrír stjórnarmenn óska fundar um ákveðið mál skal formaður boða stjórnina á fund svo skjótt sem kostur er. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum en falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns.
17. gr.
Stjórnin ræður öllum málum LS milli funda og getur innan takmarkana þessara laga skuldbundið sambandið með ályktunum sínum og samþykktum með fyrirvara um samþykki hvers félags. Stjórninni er óheimilt að takast á hendur fjárhagsskuldbindingar umfram eðlilegan rekstur.
18. gr.
Stjórn LS skal ráða sér framkvæmdastjóra sem hefur með höndum afgreiðslu þeirra mála sem upp koma á milli stjórnarfunda. Starfsmaður sambandsins skal hafa það starf með höndum að fylgjast með starfsemi félaganna, kynna smábátaeigendum helstu mál sem uppi eru hverju sinni, vinna að framgangi í tryggingamálum, öryggismálum og öðrum þeim málum er hagsmuni þeirra varða. Hann skal vera opinber málsvari þeirra og kynna málefni þeirra í fjölmiðlum og vinna að öðru leyti í samræmi við lög þessi og samþykktir stjórnar LS og aðalfundar. Framkvæmdastjóri hefur heimild til að undirrita skjöl fyrir sambandið, þó í samráði við stjórn LS ef um miklar skuldbindingar er að ræða. Framkvæmdastjóri skal stjórna skrifstofu LS, hafa á hendi allar daglegar framkvæmdir, allt reikningshald, undirbúning og afgreiðslu mála í samráði við stjórnina. Stjórn LS skal ákveða kjör framkvæmdastjóra.
19. gr.
Félagar í LS sem taka að sér störf fyrir sambandið skulu fá greiðslu fyrir það samkvæmt reikningi sem stjórn LS úrskurðar.
20. gr.
Reikningsár LS skal vera almanaksárið.
21. gr.
Þyki ráðlegt eða nauðsynlegt að leysa LS upp skulu tillögur þar að lútandi fara sama veg og tillögur til lagabreytinga. Verði sambandið leyst upp skulu eignir þess varðveitast þar til annar félagsskapur rís í sama formi með sömu markmið og renna þá til hans. Stjórn sú sem síðast var kosin skal fjalla um það atriði ef til kemur.
22. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi og má aðeins breyta á löglegum aðalfundi ef 2/3 hlutar fulltrúa samþykkja breytingarnar.