Sjómannadagurinn á Suðureyri og Patreksfirði – metnaðarfull dagskrá

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ekki verður efnt til hátíðarhalda á Ísafirði í tilefni sjómannadagsins. Menningarvitar á Súganda gátu ekki heyrt á slíkt minnst og hafa ákveðið að bjóða Ísfirðingum yfir og gleðjast með þeim í tilefni dagsins. Á öðrum stöðum á Vestfjörðum verður einnig mikið um að vera á sjómannadaginn t.d. verða Patreksfirðingar með mjög metnaðarfulla dagskrá. Hátíðarhöldin byrja á föstudag þar sem opnuð verður í grunnskólanum málverka- og ljósmyndasýning og sýning á handverki patreksfirskra kvenna. Um kvöldið mun Bubbi Morthens mæta með kassagítarinn og skemmta af sinni alkunnu snilld. Á laugardaginn verða allar hefðbundnar skemmtanir sjómadagsins í boði þar sem endað verður á siglingu og útidansleik að henni lokinni á torgi bæjarins. Þétt dagskrá er á sunnudaginn sem byrjar með sjómannamessu og um kvöldið lýkur formlegri dagskrá með stórdansleik í félagsheimili þar sem hljómsveitin Papar leika fyrir dansi.
Að sögn tíðindamanns er búist við miklum fjölda aðkomufólks þar sem það hefur myndast sú venja að fermingarárgangar nota sjómannadaginn til samfagnaðar.

Snæfell mótmælir rækjuveiðum í innanverðum Breiðafirði