Ráðstefna felld niður vegna verkfalla

Fyrir hálfu öðru ári var ákveðið á aðalfundi Samtaka strandveiðimanna í Norður – Atlantshafi (ACFNA) að standa að ráðstefnu um öryggismál sjómanna á svæðinu og fiskveiðistjórnun. Til stóð að halda hana í St. John´s á Nýfundnalandi og var skipulagning vel á veg komin.
Aðildarfélag ACFNA á Nýfundnalandi hefur í nokkurn tíma staðið í verkfallsátökum fyrir hluta sinna félagsmanna en lengst af var vonað að mál leystust í tíma. Nú er ljóst að svo verður ekki og hefur því fjölmiðlum á Nýfundnalandi og víðar á Austurströnd Kanada verið send eftirfarandi fréttatilkynning frá ACFNA, Samtökum strandveiðimanna í Norður – Atlantshafi:

‘Það er með mikilli eftirsjá sem Samtök strandveiðimanna í Norður-Atlantshafi (ACFNA, Alliance of Coastal Fishers in the North-Atlantic) tilkynna að ráðstefna samtakanna sem halda átti í St. John´s á Nýfundnalandi hefur verið felld niður.

Ástæðan er sú að aðildarfélag ACFNA á Nýfundnalandi (FFAW, Fish, Food & Allied Workers) á í verkföllum á flugvöllunum í St. John´s og Gander á Nýfundnalandi. Meðan svo er munu aðildarfélög ACFNA ekki nota viðkomandi flugvelli. FFAW er ekki einungis félag fiskimanna heldur einnig verkamanna í ýmsum stéttum. Hefur einingin innan félagsins ætíð verið mesti styrkur þess og gert það að öflugustu hagsmunasamtökum fiskimanna og verkamanna í Kanada.

Þátttakendur í ráðstefnunni hefðu komið frá öllum aðildarlöndum ACFNA, þ.e. Noregi, Færeyjum, Íslandi, Grænlandi og Kanada. Búist var við yfir 100 þátttakendum frá löndunum utan Nýfundnalands og Labrador.

Ráðstefnan var tímasett um miðjan ágúst og átti að fjalla um öryggismál sjómanna í Norður-Atlantshafi og fiskveiðistjórnun á svæðinu.

ACFNA sendir baráttukveðjur til þeirra verkamanna sem í þessum vinnudeilum standa með von um skjóta úrlausn’.

f.h. ACFNA

Arthur Bogason
formaður