Skýrsla Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna sjávar 2002/2003 og aflahorfur fiskveiðiárið 2003/2004 er komin út. Tillögur stofnunarinnar í þorski eru í samræmi við það sem sagt var hér á síðunni 5.júní sl., hækkun um 30 þús. tonn. Í skýrslunni kemur fram að ekki má búast við að árlega verði bætt við 30 þús. tonnum, þ.s. spá stofnunarinnar fyrir árið 2004/2005 er 223 þús. tonn en var fyrir ári síðan 231 þús. tonn.
Ýsan tekur enn eitt stökkið fer úr 55 þús tonnum í 75 og hefur því hækkað um 45 þúsund tonn á sl. 2 árum, er þetta hækkun um 150%. Þetta er sérstaklega athyglisvert í því ljósi að á fiskveiðiárunum fjórum ´98/´99 til og með 2001/2002 var veitt tæpum 30% meira en tillögur Hafró gerðu ráð fyrir.
Ufsinn hækkar einnig mikið, fer úr 35 þús. í 50 þús. tonn. Tillögur Hafró 2001/2002 voru 25 þús. tonn, er því hækkunin 100% á tveimur árum.
Í steinbít er tillaga Hafró óbreytt frá sl. ári 15 þús. tonn. Ráðherra ákvað hins vegar að heildarafli yrði 16 þús. tonn.