Stóra spurningin varðandi grásleppuvertíð yfirstandandi árs hefur verið hvernig veiðarnar myndu þróast á Nýfundnalandi. Samkvæmt upplýsingum frá samtökum fiskimanna (FFAW) sem bárust á skrifstofu LS í gærkveldi eru mál þar að skýrast.
Heildarveiðin verður að öllum líkindum nálægt 5000 tunnum, en það er næst slakasta veiði Nýfundnalendinga frá árinu 1980. Enn liggja veiðisvæðin við Norð- Austurströndina undir ís og hugsanlegt að eitthvað bætist þar við ef þau opnast. Heildartalan mun þó ekki breytast að neinu gagni.
Það sér því fyrir lok grásleppuvertíðarinnar 2003. Skiptingin milli landanna er u.þ.b. þessi, samkvæmt bestu fáanlegu heimildum:
Nýfundnaland 5000 tunnur
Grænland 8000 tunnur
Ísland 10500 tunnur
Noregur 5000 tunnur
Danmörk 1800 tunnur
Samtals eru þetta rúmar 30 þúsund tunnur, en framleiðendur grásleppukavíars hafa haldið því fram undanfarin ár að markaðurinn þoli á bilinu 30 – 33 þúsund tunnur. Birgðastaða í upphafi vertíðarinnar var ein sú lægsta í áratugi og nú er nokkuð ljóst að sú staða breytist lítið. Þá er að auki fokið í öll skjól fyrir þá sem vilja ná niður verðinu til íslenskra veiðimanna með tröllasögum af veiðum og verðþróun annars staðar.