Smábátum fjölgar á Eyjafjarðarsvæðinu

Það orð hefur ekki legið á Eyjafjarðarsvæðinu að smábátaútgerð hefði þar mikinn forgang. Öflugasta togaraútgerð landsins hefur til áratuga verið burðarás atvinnu- og efnahagslífsins og er enn.

Sú þróun er hinsvegar að eiga sér stað að smábátum er að fjölga á svæðinu, t.d. í Hrísey, Árskógssandi og á Dalvík. Af þessum bátum eru nokkrir dagabátar.

Pétur Sigurðsson er formaður smábátafélagsins Kletts sem nær frá Ólafsfirði í vestri til Tjörness í austri. Spurður eftir gangi mála hjá smábátaeigendum á svæðinu sagði hann hljóðið almennt nokkuð gott í mönnum, nema hvað þrálátar austanáttir væru að hrella menn, sérstaklega fram í Grímsey. Grásleppuvertíð er nýlokið og miðað við undanfarin ár varð mikil breyting til batnaðar, bæði hvað varðar magn og verð. Hann sagði menn sammála því að flýta þyrfti byrjunartíma næsta árs. Greinilegt væri að klukka náttúrunnar væri að breytast og engin goðgá að byrja 2 – 3 vikum fyrr en gert hefur verið undanfarin ár – þ.e. 20. mars.

Síðasti báturinn á netum tók upp fyrir sjómannadag og fékk mjög góðan afla í örfá net. Línuveiðar ganga vel og algengur afli á balann er 200 – 250 kg. Mestmegnis er þetta þorskur, en þó er umtalsvert af ýsu og steinbít á blettum. Pétur nefndi sem dæmi bát sem fór með 10 bala og kom með hátt í 3 tonn, þar af var tonn af ýsu og steinbít.

Pétur sagði einnig að fiskurinn væri ekki í góðu holdafari. Ástandið á Eyjafjarðarsvæðinu væri kannski ekki svo slæmt, en hann hefði séð fisk sem kom austar frá og sá fiskur hefði verið mjög illa á sig kominn. Þetta stingur furðulega í stúf við niðurstöður Hafró á ástandi sjávar og hlýtur að vera rannefni. Handfærabátar hafa fengið góðan afla og á Gjögursvæðinu hefur hann gefið sig til, jafnvel svo um munar. Meðalþyngdin hefði verið óvanalega góð hjá handfærabátunum, 2,5 – 2,8 kg. miðað við slægðan fisk.