Grein í Fiskifréttum, Litlu verður Vöggur feginn

Föstudaginn 27. júní birtist í Fiskifréttum eftirfarandi skoðunargrein eftir Arthur Bogason, undir fyrirsögninni ‘Litlu verður Vöggur feginn’.

Það er með ólíkindum að heyra viðbrögð ýmissa forsvarsmanna í sjávarútvegi við þeim tíðindum að þorskveiðiheimildir verði auknar í 209 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Helst mætti halda að langþráðu takmarki sé náð, vegferð lokið um dimman táradal og uppskeruhátíð hafin eftir fórnir og þrengingar. Staðreyndin er sú að 209 þúsund tonna ársafli af þorski verður sá sjöundi minnsti frá því að við færðum út efnahagslögsöguna í 200 mílur eða í 28 ár.Í þessu sambandi er vert að halda því til haga að öll þau skipti sem veiðin hefur verið minni eru EFTIR að farið var að stýra veiðum hér við land með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi.

Örbylgjuminni

Það er oft á tíðum talað um skammtímaminni kjósenda. Mér sýnist hinsvegar að innan sjávarútvegsins hrjái menn svokallað örbylgjuminni þegar meta skal stöðu mála. Ábending Jónasar Bjarnasonar efnaverkfræðings um að samanburður vísindamanna (og fleiri) taki sífellt mið af lægri samantekt úr fortíð er alsendis laukrétt. Ekkert endurspeglar þetta betur en sú fullyrðing að ‘uppsveiflan’ nú, úr 179 þúsund tonnum í 209 þúsund sé ‘sönnun þess að við séum á réttri braut í fiskveiðistjórnunarmálum’. Trúin flytur ekki einungis fjöll, hún getur ekki síður steingert gagnrýna hugsun: Eða hefur heyrst stuna úr sömu átt á undanförnum 20 árum, í endalausum niðurskurði veiðiheimilda, að merki væru á lofti um að við værum á RANGRI braut?

Föst í forarpytti

209 þúsund tonna tillagan er síst sönnun þess að við séum ‘á réttri leið’. Hún er sönnun þess að við erum föst í hyldjúpum forarpytti með fiskveiðarnar. Hefði einhver trúað því í ársbyrjun 1984, þegar besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi var innleitt og heildaraflinn stilltur á 247 þúsund tonn, að 20 árum síðar myndu brjótast út fagnaðarlæti við tillögu um hátt í fimmtungi minni þorskafla? Og rökin í þokkabót þau að nú væru menn að uppskera árangur síns erfiðis?! Hliðstæð framtíðarsýn er þá eitthvað á þessa leið: Á árinu 2022 verður gefinn út heildarafli í þorski upp á 170 þúsund tonn og af tilefninu verður töppum skotið úr kampavínsflöskum – árangur ‘fórnanna’ að skila sér!

Grunnurinn að öllu þessu dellumaki er aðferðafræði Hafrannsóknastofnunarinnar við stofnstærðarmælingar. Líkt og besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi er togararallið nær 20 ára og aðferðin er enn notuð, sama og óbreytt, þrátt fyrir gerbreyttar umhverfisaðstæður, gerbreytt mynstur fiskigangna og gerbreyttan fiskveiðiflota (ergo – fiskveiðimynstur). Þrátt fyrir þetta er gagnrýni á togararallið mætt af svipuðum skilningi og í tilvitnunni hér að framan um trúna, fjöllin og steingervingana.

Verndarenglar Hafró

En Hafrannsóknastofnun stendur ekki ein með storminn í fangið með togararallið sitt. Og hvað sem öllu hlutleysi Hafró líður hikaði núverandi framkvæmdastjóri LÍÚ ekkert við að segja opinberlega að nauðsynlegt væri að samtökin væru með menn í stjórn stofnunarinnar til að ‘allt væri í góðu lagi’ þar á bæ. Þessu hefur ekki verið andmælt af forsvarsmönnum Hafró, svo ég viti til. Til marks um það hversu áhugasamir þessir ‘verndarenglar’ Hafró eru um gagnrýna umræðu um sjávarútvegsmálin ætla ég að tiltaka dæmi þar um.
Í apríl s.l. var mér boðið að halda erindi á ráðstefnu í Glasgow sem var í tengslum við hina árlegu sjávarútvegssýningu sem þar er haldin. Yfirskrift ráðstefnunnar var ‘Veiðarfæri 2003, tæki og tækni til sjálfbærra fiskveiða’. Í erindinu kom ég víða við, en á einum stað sagði ég eftirfarandi:

‘Við Ísland, Noreg, Færeyjar og Grænland yfirsást okkur sá möguleiki að öflugir togarar kynnu að skemma viðkvæm svæði og umturna svo búsvæðum að viðkomandi svæði væru varanlega ónýt. Í dag höfum við upplýsingar hvað þetta varðar. Við höfum vísindalega sönnun fyrir því að þung botntroll skemma botninn að því marki að við þurfum að hugsa málið upp á nýtt’. Þessi ummæli voru meira en taugakerfi LÍÚ forystunnar þoldi og flokkaði ræðumanninn umsvifalaust í hóp öfgasinna í umhverfismálum. Það kom ekki beinlínis á óvart. Það eru u.þ.b. tvö ár síðan Landssamband smábátaeigenda birti auglýsingar í dagblöðum og sjónvarpi sem sýndu eyðileggingu á kórallarifum innan norskrar lögsögu af völdum botntrolla. Viðbrögð ?verndarenglanna? voru þau að þetta væri (orðrétt) ‘Ómerkilegur áróður’.

Allt í góðu lagi?

Hafrannsóknastofnunin fer ekkert varhluta af þessum sjónarmiðum. Sú yfirlýsing núverandi framkvæmdastjóra LÍÚ að nauðsyn krefji að samtökin hafi stjórnarmenn í stofnuninni til að ‘allt sé í góðu lagi’ er ekki orðagjálfur eitt. Aðferðafræði og verkefnaval Hafrannsóknastofnunarinnar er studd í bak og fyrir af LÍÚ. Þaðan hefur aldrei heyrst bofs þess eðlis að endurskoðunar sé þörf. Meðan þessi staða er uppi eru hreinar grillur að ímynda sér að breytinga sé að vænta. Eftir tvo áratugi verður Vöggur litlu feginn.

Arthur Bogason