Ágæt veiði hefur verið undanfarið hjá handfærabátum sem gera út frá Neskaupstað. Fiskurinn hefur þó verið smár og meðalþyngd jafnvel farið undir tvö kíló af óslægðu. Veiðisvæði bátanna er frá Gerpi og norður undir Dalatanga. Það vekur athygli manna að lítið annað en krabbi finnst í maga þorsksins og algengt að ekkert sé í honum. Fiskurinn er þó ekki enn tiltakanlega illa á sig kominn, sem eru skárri fréttir en undanfarið af svæðinu þar norður af. Eitthvað æti er að renna þar inn á slóína sem glæðir vonir manna um betri aflabrögð og batnandi ástand á þeim gula.
Sé litið til nýliðinna ára fer ekki milli mála að umtalsverðar breytingar hafa nýverið átt sér stað hvað fiskigengd og göngumunstur varðar á grunnslóðinni. Frá því að fjöldi daga í dagakerfi hrapaði niður úr öllu valdi hefur það verið haldreipi þeirra báta hversu þétt fiskurinn hefur staðið á stórum svæðum nálægt landi. Ýmislegt bendir til að framundan kunni að vera á þessu breytingar en allir þeir sem hafa langa reynslu af handfæraveiðum vita að dagsaflinn var svo árum skiptir talinn viðunandi ef hann hékk í hálfa tonninu og þótti frábært ef náðist í það fullt.
Meðalafli rúmlega 300 dagabáta á síðasta ári var hinsvegar rúm 1700 kg.