Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt undir yfirskriftinni ‘Árni ræðir afnám byggðakvótans’. Þar kemur fram að samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hyggist sjávarútvegsráðherra afnema byggðakvóta og nota þá í línuívilnun.
Í þessu sambandi er vert að rifja upp hvað stendur í sáttmála núverandi ríkisstjórnar, sem undirritaður var 23. maí s.l.
Um sjávarútveginn segir orðrétt:
‘Leitast verður við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða, til dæmis með því að kanna kosti þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila, að nýta tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar þeirra, takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins, auka byggðakvóta og taka upp ívilnun fyrir dagróðrarbáta með línu.’
Það er með öllu útilokað að lesa af þessu orðalagi að byggðakvótar skuli aflagðir. Slíkt kom enda hvergi fram, hvorki í auglýsingaharki kosningabaráttunnar, kosningafundum né neinum fréttum eða efni sem stjórnmálaflokkarnir sendu frá sér um markmið og áherslur fyrir kosningarnar 10. maí s.l. Þar kom hins vegar skýrt fram og margsinnis auglýst sérstaklega, að sett skyldi í framkvæmd línuívilnun fyrir dagróðrarbáta.
Þá fylgdi þessi röksemdafærsla síður en svo sem viðhengi hjá flutningsmanni tillögunnar, Guðmundi Halldórssyni frá Bolungarvík, um línuívilnunina sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það verður enda að teljast harla einkennilegt í ljósi þess að LÍÚ menn á landsfundinum gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að fella tillögu Guðmundar Halldórssonar, án árangurs. Til hvers hefðu LÍÚ menn átt að berjast gegn tillögunni ef hún miðaði að því einu að færa aflaheimildir frá smábátaflotanum til þess eins að afhenda honum þær aftur? Og hefðu þeir ekki átt að fagna tillögunni og styðja hana heilshugar ef hún miðaði að auki að því að afnema byggðakvótana sem þeir hafa barist hatrammlega gegn?
Hugmyndafræðin á bak við byggðakvóta annarsvegar og línuívilnun hinsvegar er af tvennum toga. Byggðakvótar eru sértækar aðgerðir til að aðstoða þær strandbyggðir sem farið hafa illa út úr þróun síðustu ára varðandi aflaheimildir eða eru mjög háðar útgerð krókaaflamarksbáta. Þetta kemur glöggt fram í lögunum um stjórn fiskveiða og ekki nokkur leið að snúa út úr því orðalagi. Línuívilnun er hinsvegar almenn aðgerð sem lýtur að því að stuðla að notkun veiðarfæris sem er í senn umhverfisvænt og atvinnuskapandi.
Svo öllu sé til haga haldið fylgir hér 9. grein laganna um stjórn fiskveiða, en hún fjallar um hina svokölluðu byggðakvóta:
9. gr. ‘Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir er nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga í aflamarki einstakra tegunda. Af þeim 12.000 lestum sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 1. málsl. er ráðherra heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að ráðstafa allt að 1.500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til stuðnings byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
Ráðherra skal í reglugerð kveða á um ráðstöfun aflaheimilda skv. 1. mgr. og kveða þar á um hvaða botnfisktegundir komi til úthlutunar.
Á hverju fiskveiðiári er sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta til árs í senn samtals allt að 1.000 lestum af ýsu, 1.000 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa miðað við óslægðan fisk til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Getur ráðherra þar á meðal ákveðið skilyrði fyrir framsali aflamarks sem úthlutað er á grundvelli þessa ákvæðis og um ráðstöfun afla sem svarar til þess sem úthlutað er samkvæmt því.’