Kóngakrabbar við Kamchatca

Þrátt fyrir að fjölmargar tegundir krabba séu veiddar í miklu magni út um allan heim hafa Íslendingar ekki hafið slíkar veiðar svo orð sé á gerandi. Vitað er að nokkrar krabbategundir eiga búsvæði við landið og ekki vafi á því að hægt yrði nýta einhverjar þeirra í atvinnuskyni. Þrátt fyrir niðurskurð í veiðiheimildum undanfarna tvo áratugi hefur það enn ekki gerst, hvernig sem á því stendur. Engir kvótar eru að flækjast fyrir slíkum veiðiskap og veiðileyfi í atvinnuskyni því nægjanlegt.

Sjá mynd.

Hugsanlega er helsta skýringin á þessu krabbaveiðileysi Íslendinga sú staðreynd að þessar veiðar eru fyrst og fremst stundaðar með gildrum, en þær eru nánast óþekkt fyrirbrigði hérlendis. Allar tilraunir sem gerðar hafa verið með slík tól hafa endað á hafsbotni eða í geymslunni með fótanuddtækjunum. Margir útlendingar furða sig á þessu og finnst sérkennilegt að t.d. humarinn skuli ekki veiddur í gildrur en þess í stað notuð botntroll til að ná í þetta einstæða sælgæti úr hafinu.

Það er athyglisvert að við austurströnd Bandaríkjanna og Kanada hafa gildruveiðar á humri verið stundaðar af miklum móð í á annað hundrað ár. Stýring veiðanna er með tímabilum,svæðaskiptingum, fjölda gildra og reglum um hvaða humrum skuli sleppt. Kvótakerfi hefur aldrei verið notað við þessar veiðar og það hlýtur að vera einnar messu virði að líta til þeirrar staðreyndar að afrakstur humarstofnsins við austurströnd Bandaríkjanna hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári.

En hvað sem öllu þessu líður er það til fróðleiks og skemmtunar að skoða myndirnar sem hér fylgja en þær eru af kóngakröbbum sem finnast við Kamchatca skagann. ‘Innimyndin’ er tekin á veitingastað í Kongsfjord, sem er 50 manna strandbyggð við nyrstu strendur Noregs en hin á hafsbotni við Kamchatca. Þessir krabbar eru ótrúlega stórir og var sá stærsti sem myndaður var í leiðangri Kurt Salo, sem er kvikmyndagerðamaður búsettur í Tromsö, 2.08 metrar frá klóenda í klóenda.

Sjá mynd.