Föstudaginn 8. ágúst sl. birtist í Fiskifréttum eftirfarandi skoðunargrein eftir Örn Pálsson, undir fyrirsögninni „Breytt fiskveiðistjórnun“.
Undanfarna mánuði hefur verð á sjávarfangi farið lækkandi. Að vonum eru menn uggandi vegna þessa og ekki síst vegna þess hversu erfiðlega gengur að selja. Margar kenningar eru á lofti um hvað valdi þessari niðursveiflu, flestir kenna um of háu gengi og vægðarlausri samkeppni á mörkuðum. Einkum er þar bent á fisk sem fullunninn er í kínverskum fiskvinnsluhúsum.
Minni útflutningstekjur
Nýjar tölur frá Hagstofu Íslands staðfesta lægri tekjur af sjávarútveginum. Á fyrstu 6 mánuðum þessa árs voru sjávarafurðir 61% alls útflutnings landsmanna. Verðmæti þeirra var 9% minna en á sama tíma sl. árs or munar þar 11 milljörðum króna. Mestur samdráttur varð í verðmæti fiskimjöls, saltfisks og frystra flaka. Þá kemur og fram að aflaverðmæti á föstu verðlagi ársins 2001 hafi lækkað um 5,8%.
Það liggur því á borðinu að sveiflan er ekki af minni gerðinni og hefur þar af leiðandi mikil áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Sökum þess hvað verðmæti sjávarvöruútflutnings er hátt hlutfall af heildarútflutningsverðmætinu mun þjóðarbúið í heild verða áþreifanlega vart við samdráttinn. Málið er því grafalvarlegt og brýnt að finna leiðir til varna.
Samkvæmt upplýsingum frá söluaðilum er ekki að vænta mikilla breytinga á mörkuðum á næstu mánuðum. Sölutregða hefur leitt af sér birgðasöfnun í ákveðnum verkunartegundum flestra bolfisktegunda. Þá eru til ársbirgðir af rækju og ólíklegt að verð fari þar hækkandi næstu misserin. Við verðum því að treysta á aðrar leiðir.
Flestir benda á gengið, en af viðbrögðum stjórnvalda að dæma verður handafli ekki beitt.
Línuívilnun til dagróðrabáta
Undirritaður er einn þeirra sem bent hafa á að aukning á veiðiheimildum í ýsu mundi ekki skila þeim verðmætum sem til væri ætlast. Farsælla væri að gefa út sama kvóta og í fyrra sem væri hlutdeildartengdur og hafa 50% ívilnun á ýsu hjá dagróðrabátum á línu. Þannig væri aukið framboð á ýsu til vinnslu sem gæfi fiskverkendum alla möguleika á að stíla inn á þá markaði sem gæfu hæstu verðin. Fersk flök hafa til þessa skipað þann sess, en með þessari aðferð ætti framboð á þann markað að vera nægilegt og gefa okkur aukin sóknarfæri. Flestir söluaðilar eru einnig þeirrar skoðunar að í ferska fiskinum séu möguleikar okkar mestir þar sem sívaxandi eftirspurn er eftir honum. Á þennan hátt gæti ívilnunin skilað okkur meiri tekjum heldur en ef farin yrði sú leið sem sjávarútvegsráðherra hefur boðað að hlutdeildarkvóti í ýsu verði aukinn um 20 þúsund tonn, þar sem markaðurinn gæti gengið að því sem vísu og verðlagt eftir því.
Bætt ímynd
Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ávinningur þeirrar aðferðar sem hér er kynnt skili okkur ekki eingöngu meiri verðmætum, heldur tryggir hún að ekki eigi sér stað ofveiði. Línuveiðar gefa arð ef mok er á hverja línu og þá eru veiðarnar stundaðar af kappi, en að sama skapi er gert hlé á veiðunum ef verðmæti á hverja línu nálgast kostnaðinn við veiðarnar.
Fjölmargt fleira væri hægt að telja ívilnunarstjórnuninni til tekna. Má þar nefna að sölufyrirtæki gætu bætt góða ímynd sjávarútvegs Íslendinga. Hér væru lög sem beinlínis kvæðu á um aukið vægi umhverfisvænna veiða. Þá mundu fylgismenn kvótakerfisins fá sína dúsu þar sem breytingin mundi ekki hrófla við núverandi kerfi, menn héldu sínum hlutdeildum áfram, en verið væri að laga kerfið í þeim tilgangi að ná auknum verðmætum við nýtingu auðlindarinnar.
Þá er ég ekki í vafa um að breytingin mundi færa okkur í fremstu röð á heimsvísu í stjórnun fiskveiða þar sem hún eykur vægi vistvænni veiðiaðferða, eykur framboð á villtum ferskum fiski sem gæti verið kominn á borð neytenda innan sólarhrings frá því hann var veiddur og síðast en ekki síst myndi hún stuðla að því að aðeins sé veiddur fiskur í ætisleit.
Engin áhætta – mikill ávinningur
Ég hvet sjávarútvegsráðherra til að gera þessa tilraun í stað þess að úthluta allri aukningunni eftir hlutdeild hvers og eins, aðferð sem ég tel vera mun torsóttari til aukinnar markaðshlutdeildar. Áhættan er engin af ívilnunaraðferðinni en ávinningurinn mikill eins og rakið hefur verið hér að framan.
Að lokum skal bent á að líkur eru á að aðferðin mundi færa okkur nokkur skref fram fyrir áróðursmaskínu öfgasamtaka umhverfisiðnaðarins. Þannig næðum við öflugu forskoti á aðrar þjóðir varðandi það markmið að nýta auðlindina með sjálfbærum hætti, sem yrði sjálfkrafa okkar umhverfismerki,
nokkuð sem ekki yrði náð með núverandi stjórnun.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Mig langar til að spyrja hvað sé í gangi varðandi sóknardagabátana. Það eina sem heyrist frá landsambandinu er Línuívilnun,Línuívilnun og aftur línuívilnun. Það er gott og gilt að berjast fyrir henni en dagabátarnir verða að fá að vera með í umræðunni. Eigum við von á einhverjum breytingum eða verða þetta bara 19 dagar á næsta ári.
Heimsmet í ófrelsi”