Línuívilnun – orð skulu standa

Elding félag smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum í samvinnu við önnur smábátafélög á Vestfjörðum, Krók og Strandir og bæjar- og sveitarstjórnir og verkalýðsfélög, efnir til stórfundar á Ísafirði sunnudaginn 14. september nk. Fundurinn verður haldinn í íþróttahúsinu og hefst kl. 14:00.
Yfirskrift fundarins verður:

Línuívilnun – orð skulu standa

Þrátt fyrir að ekki sé byrjað að auglýsa fundinn er ljóst að á honum er mikill áhugi. Fólk alls staðar að af landinu hefur hringt á skrifstofu LS og spurst fyrir um hann.

Ef marka má yfirlýsingar ýmissa stjórnarþingmanna fyrir kosningar og nokkurra þeirra eftir kosningar má búast við að fundurinn geti leitt af sér nokkur pólitísk tíðindi. Það verður því örugglega rafmagnað andrúmsloftið í Íþróttahúsinu á Ísafirði þ. 14. september.

Að sögn Guðmundar Halldórssonar formanns Eldingar er „markmið fundarins að veita þingmönnum öflugt veganesti í því verkefni sem þeir eiga fyrir höndum á Alþingi, að efna loforð um línuívilnun og festa sóknardagakerfi handfærabáta í sessi. Á fundinum þurfa þingmenn að finna að kjósendur standa þétt við bakið á þeim ekki síst þegar þeirra bíður jafnvel ákvarðanataka sem er andstæð sjónarmiðum einstakra ráðherra.
Fundurinn þarf að fá skýr skilaboð frá þingmönnum kjördæmisins um að þeir muni stuðla að því að línuívilnun komi til framkvæmda strax í haust eins og loforð hafa verið gefin um, ásamt því að fyrirhugaðar lagabreytingar nái til handfærabáta í sóknardagakerfi og þeim þar með tryggður lágmarksfjöldi sóknardaga.“