Ályktun frá Ísafirði

Á fjölmennum fundi með yfirskriftinni „Orð skulu standa“ sem haldinn var á Ísafirði í gær var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Ályktun fundarins „Orð skulu standa“
á Ísafirði 14. september 2003

Hvergi hefur fiskistofnum verið eytt með línu eða handfærum.
Fiskistofnar fóru fyrst að láta undan síga þegar stórvirk veiðarfæri komu til sögunnar.

Krafa strandbyggðanna er að endurheimta þann aldagamla rétt að nýta nálæg fiskimið með vistvænum veiðarfærum. Með afnámi þessa réttar er vegið að sjálfum tilverugrundvelli byggðanna.
Ennfremur að lögfest verði lágmarksfjöldi sóknardaga.

Fundurinn skorar því á Alþingi að lögfesta án tafar landsfundarsamþykktir stjórnarflokkanna um línuívilnun og tryggja þar með að ákvæðið í sáttmála ríkisstjórnarinnar komi til framkvæmda eigi síðar en 1. nóvember nk.

Það er skoðun fundarins að orðheldni alþingismanna megi aldrei bíða hnekki, skipbrot á – orð skulu standa – yrðu dapurleg skilaboð til þjóðarinnar sem mundi grafa undan hinu virðulega Alþingi.
Höfum því ávallt í heiðri – orð skulu standa.