Þorvaldur Garðarsson endurkjörinn formaður Árborgar

Aðalfundur Árborgar var haldinn á Hótel Selfossi 22. september. Helmingur félagsmanna var mættur á fundinn og voru umræður hinar fjörlegustu. Formaður Árborgar fór yfir starfsemi félagsins á árinu og kom víða við. M.a. rifjaði hann upp viðræður sem hann átti við Ísfélagið í Þorlákshöfn þar sem kvartað var yfir hækkun þjónustugjalda. Rætt var við Fiskmarkað Þorlákshafnar og hann hvattur til að taka þjónustuna að sér. Í kjölfarið varð breyting á hjá Ísfélaginu, kröfur Árborgar voru uppfylltar til hagsbóta fyrir félagsmenn.
Fjölmargar ályktanir voru samþykktar til aðalfundar LS og má þar nefna eftirfarandi:
Áskorun til alþingismanna að standa við gefin loforð um línuívilnun strax í haust.
Tilmælum beint til ráðherra að ekki verði gengið of langt í að banna notkun stórra möskva við þorskveiðar.
Að sóknardagabátar fái að hefja veiðar 1. mars í stað 1. apríl.
Stuðningur við kröfu LS um viðunandi gólf hjá sóknardagabátum.
Áskorun til sjávarútvegsráðherra að langa og keila verði teknar úr kvóta hjá smábátum.
Stjórn Árborgar var endurkjörin en hana skipa: Þorvaldur Garðarsson formaður, Haukur Jónsson varaformaður, Stefán Hauksson gjaldkeri, Ragnar Jónsson ritari og Ólafur Ingi Sigurmundsson meðstjórnandi.