Aðalfundur Kletts – smábátaeigendur Ólafsfjörður – Tjörnes – var haldinn á Akureyri 28. september. Auk ályktana til aðalfundar LS var eftirfarandi samþykkt:
„Aðalfundur KLETTS – smábátaeigendur Ólafsfjörður – Tjörnes
lýsir fullum stuðningi við samþykktir stjórnarflokkanna, yfirlýsingu í stjórnarsáttmála og velvilja stjórnarandstöðunnar um línuívilnun, einnig við baráttu alþingismanna um línuívilnun í haust, sem ekki ætti að þurfa að berjast fyrir þegar í heiðri eru höfð, orð skulu standa. Aðgerðin mundi styrkja hinar dreifðu byggðir og er skref í átt til umhverfisvænni fiskveiðistjórnunar.
Fundurinn lýsir furðu sinni á málflutningi þeirra aðila sem krefjast þess að loforð skulu svikin. Aðilar sem telja sig ábyrga ættu að skammast sín fyrir slíkan málflutning og hvetur þá til að láta af slíkri innrætingu í íslenskt samfélag.“
Stjórn Kletts var endurkjörin. Hana skipa Pétur Sigurðsson formaður, Júlíus Bessason ritari, Sæmundur Ólason meðstjórnandi, Þórður Ólafsson varaformaður og Þröstur Jóhannsson gjaldkeri.