Snæfell – félag smábataeigenda á Snæfellsnesi hélt aðalfund sinn 30. september sl. Snæfell er stærst svæðisfélaga innan LS með 156 báta. Að venju var fjölmenni á aðalfundinum sem haldinn var á Hótel Framnesi í Grundarfirði. Mikil eindrægni ríkti á fundinum um línuívilnun og baráttu fyrir 23ja daga gólfi í sóknardagakerfið. Þá samþykkti fundurinn almenna ályktun þar sem traust og þakklæti var sent til Guðmundar Halldórssonar.
Ályktunin er eftirfarandi:
„Aðalfundur smábátafélagsins Snæfells 2003 harmar að umræðan um línuívilnun skuli dregin niður í svað persónuárása á borð við þær sem Guðmundur Halldórsson í Bolungarvík hefur nú orðið að þola. Slík vinnubrögð eru ekki til neins annars fallin en að eyðileggja málefnalega umfjöllun og lýsir rökþroti þeirra er þau stunda.
Fundurinn sendir Guðmundi Halldórssyni baráttukveðjur og fagnar því að hann hyggst halda ótrauður áfram sinni baráttu.“
Meðal tillagna til aðalfundar LS er ósk um að heimilt verði að hefja grásleppuveiðar á utnanverðum Breiðafirði 1. apríl í stað 20. eins og verið hefur.
Stjórn Snæfells var endurkjörin, en hana skipa:
Bergur Garðarsson formaður, Jóhann R. Kristinsson meðstjórnandi, Lúðvík Smárason gjaldkeri, Símon Sturluson ritari og Valur Gunnarsson meðstjórnandi.