Dáindismenn eða loddarar? Grein í Morgunblaðinu 5.10.2003

Dáindismenn eða loddarar?

Framtíð stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins er skuggaleg, sé að marka útreikninga þeirra á hversu miklar veiðiheimildir munu lenda í gini svokallaðrar línuívilnunar. Helst er að skilja að sviðnir sandar bíði þeirra, gangi ætlan stjórnvalda eftir. Þessum útreikningum hafa fylgt harmþrungnar greinargerðir um það mikla “glappaskot” sem löggjafarsamkoman hyggst fremja á komandi misseri. Ætlun löggjafans er – og trúi nú hver sem getur – að efna kosningaloforð, samþykktir landsfunda stjórnarflokkanna og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, um ívilnandi ákvæði fyrir þá sem róa með fiskilínu og landa afla daglega.
Í kynningu LÍÚ og þeirra meðhjálpara á þessari fáheyrðu ósvífni hafa nokkrar staðreyndir hrokkið fyrir borð, eins og verða vill þegar at er á dekkinu.

Klifað hefur verið á því að línuívilnun eigi eingöngu við um smábáta. Hið rétta er að hún þjónar þeim er róa með fiskilínu og landa afla daglega. Umbjóðendur stórútgerðarforystunnar geta því nýtt sér hlunnindin, að uppfylltum þeim skilyrðum.

Þrír byggðakjarnar, Eyjafjörður, Vestmannaeyjar og Hnífsdalur, hafa sent frá sér útreikninga á tapi aflaheimilda í kjölfar línuívilnunar. Í þessum tilfellum hefur sennilega verið notað gamalt þýskt reiknilíkan, hannað af barón Munchausen, þeim sama og dró sjálfan sig upp á hárinu.

Séu lagðar saman tölurnar frá bæjarstjóranum á Akureyri og Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja eru 5000 tonn af bolfiski að hverfa þeim með tilheyrandi verðmætatapi og atvinnuleysi.
Samkvæmt úthlutun fyrir fiskveiðiárið 2003/2004 ráða Eyjafjarðarsvæðið og Vestmannaeyjar rúmum 54 þúsundum tonna af þeim tegundum sem helst veiðast á línu, þ.e. þorski, ýsu og steinbít. Heildarúthlutun þessara tegunda eru tæp 240 þús. tonn. Samkvæmt þýska reiknilíkaninu hirðir línuívilnunin 5 þús. tonn af 54 þúsundum og ætti því á landsvísu að kosta ríflega 22 þús. tonn.
Á fiskveiðiárinu 2002/2003 veiddust á fiskilínu rúm 55 þús. tonn af þorski, ýsu og steinbít. Þar af voru tæp 34 þús. tonn af þorski, rúm 13 þús. af ýsu og 8 þús. af steinbít. Sá hluti flotans sem líklegur er til að nýta sér línuívilnun veiddi innan við helming af þessu magni. Nú getur hver og einn reiknað, en frá því hugmyndinni um línuívilnun var ýtt á flot hafa fylgismenn hennar talað fyrir 20% ívilnun í þorski og frá 20% – 50% í öðrum tegundum (tölur eru miðaðar við slægðan fisk).

Sérstök ástæða er til að geta yfirlýsingar Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf í Hnífsdal. Framkvæmdastjórinn heldur því fram að tæp 1000 tonn yrðu tekin af fyrirtækinu og afhent öðrum á sama svæði. Hraðfrystihúsið – Gunnvör ræður yfir 7400 tonnum af áðurnefndum tegundum, 5400 tonnum af þorski, 1500 af ýsu og 500 af steinbít. Ég skora á framkvæmdastjórann að birta reikniformúluna sem hann notaði til að fá þá dæmalausu útkomu að 1000 tonn verði frá honum færð. Í yfirlýsingunni sagði að þessi tonn yrðu “öðrum afhent á sama svæði”. Línuívilnun er ekki svæðisbundin aðgerð svo ætla má af orðalaginu að þessi 1000 tonn séu aðeins hluti þess sem línuívilnun kosti fyrirtækið á landsvísu.

Þessi blekkingaleikur andstæðinga línuívilnunar mun vitaskuld koma þeim sjálfum í koll. Það vita þeir og hafa því gripið til gamalkunnra vopna sem láta lipurlega í höndum þeirra. Í stað þess að fjalla um málefnið er ráðist á einstaklinga og reynt að gera þá tortryggilega. Guðmundur Halldórsson, sem staðið hefur í eldlínu umfjöllunar um línuívilnunina, á hálfa öld að baki sem sjómaður. Guðmundur er kominn á áttræðisaldur og seldi af þeim sökum bát sinn fyrir stuttu. Stórútgerðarmenn höfðu smekk til þess að reyna að gera þetta tortryggilegt í augum þjóðarinnar. Fróðlegt verður að fylgjast með þeim sem þar göluðu, þá þeir láta af störfum fyrir aldurssakir. Ætli þeir hyggist gefa atvinnutæki sín til líknarmála?

Örstutt upprifjun
Frá upphafi kvótakerfisins 1984 og allt til fiskveiðiáramótanna 1996/1997 var svokölluð línutvöföldun hluti af fiskveiðikerfinu (lengst af 50% ívilnun fjóra mánuði á ári). Hún stóð öllum opin, litlum bátum sem stórum skipum. Á það hefur verið réttilega bent, að þeir sem nýttu sér þetta fyrirkomulag fengu, þá það var afnumið, að hluta til úthlutað aflaheimildum samkvæmt veiðireynslu. Því fór þó fjarri að sú sárabót bætti skaðann sem flestir urðu fyrir við afnám þessara réttinda.
Á árabilinu 1995 – 2001 höfðu aflahámarksbátar (smábátar, minni en 6 tonn) frjálsræði til línuveiða í aðrar tegundir en þorsk.
Þessi dýrmætu réttindi voru einnig afnumin með lögum frá Alþingi. Árum saman lagði stórútgerðarforystan hart að sér að svo mætti verða og uppskar að lokum árangur.

Á alþjóðavettvangi er vaxandi krafa um að stjórn fiskveiða taki mið af áhrifum veiðarfæra á umhverfið í hafinu. Það er Íslendingum hollast að átta sig á þessari staðreynd sem fyrst. Í fáum orðum: Kyrrstæð veiðarfæri á landgrunnum strandríkja eru veiðarfæri framtíðar. Dregin veiðarfæri eiga á brattann að sækja og flest þeirra verða færð fjær fastalöndum.
Fyrir skömmu skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd sem gera á tillögur um “líffræðilega fiskveiðistjórnun”. Er ekki hluti “líffræðilegrar fiskveiðistjórnunar” að hvetja til notkunar veiðarfæra sem valda lágmarksröskun á heimkynnum fiskanna?

Flotvörpuívilnanir
Af fleiru er að taka. Stórútgerðarmenn forðast að nefna ívilnanir, gamlar og nýjar, sem þeim finnast jafn sjálfsagðar og vatnið úr krananum.
Það er stutt síðan veiðar með flotvörpu hófust á uppsjávartegundum innan lögsögunnar. Frá upphafi hefur borið við að fleira veiðist en sóst er eftir, bæði fiskseiði og fullvaxinn bolfiskur þeirra tegunda sem kvótakerfið nær til. Þessum aukaafla hefur verið landað án frádráttar í aflaheimildum í bolfiski, hvað þá sekta eða annarra aðgerða hins opinbera.
Hér er um að ræða ívilnandi ákvæði – flotvörpuívilnun. Þeir sem harðast tala gegn línuívilnun finnst sjálfsagt að stunda þetta framferði.
Munurinn er þó mikill. Línuívilnun mun færa afbrags hráefni að landi en flotvörpuívilnun fiskseiði og fullvaxta bolfisk til mjölfóðursframleiðslu.

Í nýlegu viðtali við formann Útvegsbændafélags Austfirðinga rakti hann úttekt Fiskistofu/Hafrannsóknastofnunar á meðafla flotvörpuskipa. Á honum var að heyra að þetta væri lítilræði og viðbragða ekki þörf. Sérstaka athygli vekur hvernig hið opinbera höndlar þessar upplýsingar. Engar sektir né veiðileyfissviptingar – ekkert – þrátt fyrir að hátt í tvö hundruð tonn af bolfiski mældust í úttektinni.
Meðafli er oftast til ama. Við grásleppuveiðar hendir að hann valdi vandræðum og miklu veiðarfæratjóni. Sá meðafli hlýtur ekki sömu silkihanskameðferð og sá er slæðist í flotvörpurnar, þar er engin ívilnun. Hann skal að fullu dregin frá aflaheimildum, ella dynja yfir veiðileyfissviftingar og háar sektir.
Þá má rifja upp að fyrir stuttu var gripið til aðgerða gagnvart trillukörlum á Ströndum sem eftir fornri venju öfluðu sér síldar til beitu.

Flotvörpuskipin njóta fleiri ívilnana. Síldveiðar í þessi gríðarlegu veiðarfæri eru miklar, á síðasta ári um 65% af heildarveiðinni. Erlendar rannsóknir sýna að sú síld sem smýgur möskva á sér enga lífsvon. Þannig drepa þessi verkfæri meira en um borð kemur, hversu mikið er ráðgáta. Meðan Hafrannsóknastofnunin gefur ekki frá sér viðmiðunartölur til að reikna aukadrápið til frádráttar aflaheimilda er þetta flotvörpuívilnun.

Sértækar aðgerðir / gengisívilnun
Andstæðingar línuívilnunar heitast nú gegn “sértækum aðgerðum” í sjávarútvegi. Síðasta öld er löðrandi í sértækum aðgerðum (efnahagsívilnunum) til handa stórútgerðinni, sem flest annað atvinnulíf og almenningur varð fyrir barðinu á. Látlausar gengisfellingar íslensku krónunnar áttu oftast rætur að rekja í kröfur frá forystu stórútgerðarinnar.
Með bölmóði gegn “sértækum aðgerðum” ófu þeir orðinu fáránleiki nýja vídd er framkvæmdastjóri þeirra stóð nýverið frammi fyrir þjóðinni og krafðist þess – að gengið yrði fellt! Sá hinn sami vogar sér nú að kalla þá loddara sem ekki eru honum samstíga.

LÍÚ heimtar að loforð séu svikin
Hagsmunasamtök stórútgerðarinnar eru voldug og hafa víða markað djúp spor. En tvennt er það sem þeim illa skilst: Þau hvorki eiga fiskistofnana, né stjórna landinu. Til marks um skilningsleysi þeirra á hinu fyrrnefnda halda samtökin því fram af djúpri sannfæringu að handfærabátar minni en 6 tonn og leyfi hafa til fiskveiða 19 sólarhringa á ári, stundi frjálsa sjósókn á Íslandsmiðum.
Skilningsleysið á hinu síðarnefnda sést vel þessa dagana er þau heimta fortakslaust að ríkisstjórn og stjórnmálaflokkarnir sem mynda hana svíki loforð sín og stjórnarsáttmálann.
Í aðdraganda alþingiskosninganna í vor var þessum hagsmunasamtökum fullljóst að báðir stjórnmálaflokkarnir höfðu línuívilnun á stefnuskrá sinni. Ekki rekur mig minni til að samtökin hafi þá séð ástæðu til að vara kjósendur við þessum flokkum. Í ljósi vinnubragða LÍÚ og meðreiðarsveinanna síðustu vikur er ljóst að ætlunin hefur verið að hanna atburðarásina eftirá.
Lengra verður tæpast gengið í hroka og fyrirlitningu gagnvart kjósendum og kjörnum stjórnvöldum.

Arthur Bogason
formaður Landssambands smábátaeigenda