Setningarræða formanns á aðalfundi LS

Ágætu aðalfundarfulltrúar, hæstvirtur sjávarútvegsráðherra og góðir gestir!
Ég býð ykkur velkomin á þennan 19. aðalfund Landssambands smábátaeigenda.
Síðasta fiskveiðiár var í mörgu gott smábátaflotanum. Samtals veiddi hann um 70 þúsund tonn af fiski út sjó að verðmæti um 8 milljarðar króna sem staðfestir að smábátaútgerðin er ein af burðarásum minni sjávarbyggða. Síðasta fiskveiðiár var í heildina gjöfult sjávarútveginum en eins og undanfarin ár helgast það af miklum uppsjávarafla.
Þrátt fyrir að atvinnulíf landsmanna sé sífellt að verða fjölbreyttara er sjávarútvegurinn enn lang mikilvægasti þáttur þess. Það er ótrúleg staðreynd, að Íslendingar skulu vera u.þ.b. 12 mesta fiskveiðiþjóð veraldar, með milli 1,5% – 2% heimsaflans, ekki síst í ljósi smæðar þjóðarinnar, en mannkyninu fjölgar sem samsvarar íslensku þjóðinni á u.þ.b. 30 klukkustunda fresti.
Þetta mikilvægi sjávarútvegsins má rekja til frjósemi fiskimiðanna sem að flatarmáli eru sjö sinnum stærri en þessi verðursorfni klettur sem við köllum heimilið okkar. Án þessarar frjósemi væri hér trúlega engin byggð. Þessi frjósemi lagði enda grundvöllinn að strandbyggðunum, gerði Íslendingum kleift að brjótast úr fátækt til álna, hún hefur gert okkur að einni ríkustu þjóð veraldar. Svo sannarlega er það margt sem við getum verið stoltir af og eigum að vera það.

Þannig geta smábátaeigendur verið stoltir af því að hafa staðið upp gegn því óréttlæti sem átti að skenkja þeim í upphafi kvótakerfisins, 1984. Þeir tæpu 900 smábátar sem þá voru til áttu að gera sér að góðu að veiða 8300 tonn af þorski á ári og lítið sem ekkert af öðrum tegundum. Þetta voru rúm 9 tonn á bát. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að rifja upp þessar staðreyndir. Þær sýndu grímulaust að smábátaflotanum skyldi fyrirkomið og andúð þeirra hagsmunasamtaka sem þar réðu för hefur elnað, frekar en hitt. Þetta má glöggt sjá af nýlegu viðtali við formann Landssambands útvegsmanna, undir fyrirsögninni: “Reginmistök að smábátar voru ekki með frá upphafi”. Þeim svíður enn að hafa mistekist ætlunarverk sitt.
Hvernig hefði smábátaflotanum reitt af, ef smábátaeigendur hefðu ekkert aðhafst? Svarið er augljóst: Hann hefði horfið úr höfnum landsins á örfáum árum og þessar hafnir hefðu ekki þess í stað skipast svokölluðum vertíðarbátum. Sá floti er orðinn svipur hjá sjón.

En þrátt fyrir að smábátaeigendur geti verið stoltir af baráttu sinni er annað mál hvort hlutirnar hafi alltaf skipast á þann veg sem við hefðum kosið. Því fer vitaskuld fjarri. Margsinnis á okkar vegferð hafa okkur verið réttir beyskir bikarar og okkar bíður vafalaust meira af slíkum drykkjarföngum í framtíðinni. Slíkt látum við ekki hagga okkur. Við höldum ótrauðir áfram.

Þá við gengum af aðalfundi okkar á síðasta ári, hafði fundurinn falið forystu félagsins tvö stór mál. Annars vegar var það að ná fram lífsnauðsynlegum breytingum á lögum um sóknardagabáta – þ.e. að lögfestur yrði lágmarksfjöldi sóknareininga í því veiðikerfi. Hinsvegar línuívilnun fyrir dagróðrarbáta sem vart þarfnast frekari kynningar.

Fyrir þann sem hér stendur var og er algert forgangsmál að ná fram hinu fyrrnefnda. Að loknum aðalfundinum 2002 hófust viðræður við sjávarútvegsráðuneytið sem stóðu með stuttum hléum þar til skömmu áður en Alþingi fór heim fyrir kosningarnar í vor. Þróun þessara viðræðna jók mér jafnt og þétt bjartsýni á að niðurstaða fengist. Í mínum huga var krafan vægast sagt hógvær af hendi Landssambandsins. 23 sóknardaga á ári að lágmarki og það fyrir báta sem eru undir 6 tonnum, á handfæraveiðum. Í staðin fyrir þennan lágmarksfjölda sóknardaga var boðið að samþykkja skorður við afkastaaukingu sóknardagaflotans, þar sem auking á vélarafli myndi kosta fækkun sóknardaga.
Ég hef orðið var við það hjá einstaka eigendum sóknardagabáta að þeim finnst um afleik að ræða af okkar hendi í viðræðum við stjórnvöld. Nú er það svo að þegar lagt er á forystu félags að ná fram tilteknum málum þá þarf hún að hafa úr einhverju að spila. Þessi hugmyndafræði, að tengja fjölda sóknareininga við vélorku er síður en svo fædd s.l. vetur í framangreindum viðræðum. Hún er þekkt og notuð annarsstaðar. T.d. tóku Færeyingar upp sóknardagakerfi á árinu 1996 og byggja kerfið m.a. á slíkri tengingu.
Þeim sem finnst við forystumennirnir hafi spilað djarft bendi ég á eftirfarandi staðreynd: Sjávarútvegsráðherra og Alþingi þarf ekkert að spyrja Landssamband smábátaeigenda að því hvort það lögleiðir slíkt fyrirkomulag – og það án þess að nokkuð komi í staðin. Og ég spyr: Ætlaðist síðasti aðalfundur til þess af forystu félagsins að ná fram slíku máli án þess að tefla neinu á móti? Ég geri fastlega ráð fyrir því að svarið sé nei og ég spyr, hvað annað átti að leggja á móti?

Hæstvirtur sjávarútvegsráðherra ákvað að slíta viðræðunum við LS um þetta mikilvæga mál. Það voru mér gífurleg vonbrigði, raunar ein þau mestu sem ég hef upplifað frá því á árdögum Landsambandsins.
Þversagnirnar eru hrópandi. Á sama tíma og þorskveiðiheimildir voru auknar um 17% á milli fiskveiðiára og á sama tíma og afli þessara báta dróst saman um 9% var sóknardögum þeirra fækkað um 10%.
Kaldhæðnin er skammt undan og þó ég sé mikill vinur Færeyinga ætla ég að benda á að samkvæmt samningi við þá hafa þeir þrefalt meiri heimildir til botnfiskveiða við Íslandsstrendur en sóknardagabátarnir eða 5600 tonn og þar af 1200 tonn af þorski. Séu aflaheimildir Evrópusambandsins í botnfiski innan lögsögunnar lagðar við, 3 þúsund tonn af karfa, er þetta hátt í fjórfalt það sem íslenskum trillukörlum á handfærabátum er skammtað. Er réttarstaða þessa manna lítilsgild í samanburði við þessa erlendu aðila?
Ég vil nota þetta tækifæri til að skora á hæstvirtan sjávarútvegsráðherra að ljúka þessu máli. Um það verður enginn friður að óbreyttu og farsælast að ganga til þess verks sem allra fyrst.

Og þá er það línuívilnun, málið sem skekið hefur sjávarútveginn í langan tíma og valdið gauragangi langt umfram tilefni, út um allt þjóðfélagið. Ferill línuívilnunar er óvanalegur. Frá því að vera einungis samþykkt Aðalfundar LS til þess að vera færð til bókar í ríkisstjórnarsáttmála liðu aðeins um 8 mánuðir. Vendipunktur málsins var þá Guðmundur Halldórsson, formaður Eldingar á Vestfjörðum norður hélt á landsþing Sjálfstæðisflokksins og náði, með einörðum málflutningi og sköruglegri framgöngu, samþykki landsþingsins um línuívilnun. Framganga Guðmundar er einsdæmi. Þessi aldna kempa úr Bolungavík, með nánast mannsaldur að baki sem sjómaður á heiður skilinn og ég vil þakka honum sérstaklega hans vasklegu framgöngu.
Ekki er síður ástæða til að geta þess að Framsóknarflokkurinn samþykkti línuívilnun samhljóða á sínu landsþingi fyrir kosningarnar. Það er fróðlegt, eftir á að hyggja hvernig umræðan þróaðist. Fyrir kosningarnar lá ljóst fyrir að báðir þáverandi og nú núverandi stjórnarflokkar höfðu samþykkt fyrirkomulagið og höfðu það á stefnuskrá sinni. Auglýsingar buldu á landsmönnum þarsem þessu var hampað og hvergi dregið undan í greinarskrifum í dagblöðin. Ekki þarf nána skoðun til að sjá að þetta gerði báðum stjórnarflokkunum gott, sérstaklega þar sem línuútgerð er umsvifamikil. Þeir héldu meirihluta á Alþingi.
Sáttmáli hinnar nýju ríkisstjórnar endurspeglar þessa staðreynd, þar var línuívilnun færð til bókar.

Það var ekki fyrr en uppúr því sem stórútgerðarforystan birtist í allri sinni dýrð og andstöðu við málið. Þá skyndilega var sem hún hrykki upp úr værum blundi og hentist heldur betur öfugu megin framúr. Ég ætla mér ekki þá ósvinnu að elta allt sem þaðan hefur komið, en kýs að víkja að því sem hefur verið uppistaða þeirra málflutnings. En af hegðan stórútgerðarforystunnar fyrir kosningar má ráða að hún hafi sofið vært og rétt rumskað til að vara kjósendur við fyrningarleið og skeggfúlum forystumönnum stjórnarandstöðunnar.

Frá því hugmyndinni um línuívilnun var ýtt á flot hefur hún alltaf verið kynnt þannig til sögunnar að hún kæmi ekki til skerðingar við úthlutun aflaheimilda, heldur væri aukastærð sem gerð væri upp í lok fiskveiðiárs. Þetta hafa stórútgerðarmenn kosið að reyna að gera svo tortryggilegt sem kostur er og haldið því fram fullum fetum að hana verði að “taka af öðrum”. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að skoða hvort fiskveiðikerfið sé svo pottþétt að það standist þennan málflutning.
Eru einhverjar stærðir fljótandi innan kerfisins, sem gerðar eru upp í lok fiskveiðiársins og hverjar eru þær ef svo er? Ef þær koma til skerðinga, með hvaða hætti er það þá gert og er það í einhverju samræmi við það sem fullyrt er af hendi andstæðinga málsins?
Ég gerði á þessu all nokkra úttekt og það skal ég fúslega játa að ég átti ekki von á þeim tölum sem söfnuðust saman. Og hefst nú lesturinn á aflatölum í bolfiski sem gerðar voru upp að loknu síðasta fiskveiðiári.

Svokallaður “Hafró afli” var 1340 tonn af þorski og 2140 tonn í heildina.
Rannsóknir Hafró eru utan aflaheimilda, þ.m.t. togara- og netaröll. Samtals 860 tonn af þorski og 990 tonn í allt.
Heimilt er að landa 5% af undirmáli utan kvóta. Á fiskveiðiárinu nýliðna voru þetta 3200 tonn af þorski, 4960 tonn í það heila.
Svokölluð “umframkeyrsla” sóknardagabáta” var 9200 tonn af þorski, 9893 tonn í það heila.
Færeyjingar mega veiða 1200 tonn af þorski innan lögsögunnar og samtals 5600 tonn af bolfiski.
Kvótar til áframeldis eru 500 tonn.
Umframafli, sem eingöngu er sektað fyrir en ekki tekið af aflaheimildum var 80 tonn af þorski á síðasta ári og 100 tonn í það heila.
Síðast í þessari upptalningu er samlagning nokkurra þátta, s.s. sjóstangaveiðimóta, sjóstangaveiði og það sem hirt er af sjómönnum beint til neyslu, hvort heldur um borð eða það sem tekið er frá borði. Ég aflaði mér góðra upplýsinga um þetta og dró síðan nokkuð af tölunni sem út kom. Þar eru 900 tonn af þorski og 2600 tonn í það heila. Þessi tala er raunar aðeins að hluta til í nokkrum gögnum yfirleitt.

Hér er ekki allt upp talið en þegar augljóst hversu fráleitur málflutningur er að halda því fram að línuívilnun verði ekki framkvæmd nema “taka frá öðrum” í þeim skilningi sem andstæðingar málsins halda fram.

Hér eru, hvorki meira né minna en tæp 17300 tonn af þorski og tæp 26 þúsund tonn af botnfiski í það heila – gerð upp eftirá. Línuívilnun, jafnvel þó farið yrði að ítrustu kröfum er aðeins brot af þessu. Þá er rétt að benda á að hlutur smábátanna í þessum tölum er innan við helmingur af heildartölunni. Fróðlegt væri að heyra útskýringar stórútgerðarmanna á því hvar þeir “taka af öðrum” upp í hinn helminginn.

Samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunarinnar er tekið tillit til þessa umframafla við stofnstærðarmat – en þar hangir fleira á spítunni. Afli sem flutttur er af síðasta fiskveiðiári dregur mikið úr þeim áhrifum. Á síðasta fiskveiðiári voru á fimmta þúsund tonn af þorski og yfir 20 þúsund tonn af botnfiski flutt af fiskveiðiárinu á undan. Áhrifin eru því hverfandi og þurfa engin að vera í ákvarðanatöku stjórnvalda við úthlutanir. Hér er því um pólitíska ákvörðun að ræða, þegar upp er staðið.

Fleira er hægt að nefna. Sá fiskur sem kastað er fyrir borð dregst vitanlega hvergi frá og það sem merkilegra er – ef brottkastið í þorski er stöðugt innan við 30 þúsund tonn á ári reiknar Hafró það ekki sem breytu í sínum útreikningum. Með öðrum orðum, brottkast reiknast ekki inní stofnstærðarmat eða ráðgjöf. Hafró áætlar að samtals hafi verið fleygt 4000 tonnum á árinu 2002 af þorski og ýsu, 6000 tonnum árið á undan, en skoðanakannanir Gallup og Skáíss um þetta sýna tölur sem skipta tugum þúsunda tonna. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir möskvasmugi við stofnstærðarmat eða ráðgjöf, en vitað er að þar geta verið umtalsverðar stærðir á ferðinni. Um þetta þegja andstæðingar okkar eins og gröfin.

Mikil umræða hefur verið um meðafla flotvörpuskipa og nýleg úttekt Fiskistofu bendir til að hann sé um 2000 tonn á ári. Sá fiskur er hvergi dreginn frá aflamarki, ekki einu sinni sá sem sannarlega er mældur og veginn af sjálfu Veiðieftirlitinu. Það er ögn annað viðmót en trillukarlar hafa orðið að þola þegar jafnvel einn fiskur framyfir kvóta hefur orðið tilefni aðgerða hins opinbera.
Andstæðingar línuívilnunar hafa dregið margt úr höttum sínum, en sjálfum sér slá þeir við þegar þeir bergmála hvorn annan um að þeir séu alfarið á móti “sértækum aðgerðum í sjávarútvegi”. Þetta eru sömu aðilarnir og hafa í áratugi heimtað gengisfellingar íslensku krónunnar sem vitaskuld bitnaði á flestum nema þeim sjálfum, stýrðu Fiskveiðasjóði og bönnuðu þar lán til smábáta og hafa þegið stærstu sértæku aðgerðirnar sem framkvæmdar hafa verið í sögu sjávarútvegsins – í formi kvótatilfærslna.
Mannlífið er oftast skemmtilegt, en stundum skemmtilegra en að meðaltali. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa farið hamförum gegn línuívilnun, m.a. með rökunum um “sértæku aðgerðirnar”. Engu að síður samþykktu þau tillögu um “fiskmarkaðsívilnun”, mitt í réttlætis- og jafnréttiskastinu.
Þetta minnir helst á einhvern sem verðlaunar sjálfan sig fyrir að hafa staðið sig í bindindinu með því að skella í sig tvöföldum wiský.
Ég skil ekki við þetta mál án þess að nefna Byggðakvóta í þessu sambandi. Ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni að sú aðferðafræði sé afspyrnuslæm til að rétta hlut, en nú er málum svo háttað að ég tel ekki viðeigandi að fara með þá rullu. Það er enda heldur ótrúverðugur málflutningur að krefjast þess í einu orðinu að staðið verði við gefin loforð og vísa í því sambandi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um línuívilnun en krefjast þess síðan í hinu orðinu að byggðarkvótar verði aflagðir en um aukningu þeirra er jú einnig fjallað í sama ríkisstjórnarsáttmála og það í sömu setningunni.

Línuívilnun og afli sóknardagabáta eru ekki vandamál. Það voru hvorki veiðarfærin sem þessir menn nota, né smábátaflotinn, sem leiddi til þess að kvótakerfið var innleitt 1984. Orsökin var látlaus stórsókn öflugra togaraflota, fyrst erlendra sem við kölluðum öllum illum nöfnum og rákum síðan út fyrir 200 mílur með harðri hendi og síðan þess íslenska sem féll af himnum ofan.
Efling smábátaflotans er ekki vandamál. Hún er viðspyrna gegn ofnotkun auðlindarinnar og heilbrigð nálgun þess að nýta með sjálfbærum hætti þau náttúrugæði sem miðin eru.

Og efling smábátaflotans mun verða, hversu illa sem það sker einhverja í eyrun. Það hefur vart farið fram hjá mörgum innan sjávarútvegsins að miklar breytingar eru innan seilingar í markaðsmálum sjávarafurða. Svo ótrúlega sem það hljómar er það ódýrara að senda heilfrosinn fisk frá Norðurlöndunum til Kína, vinna hann þar í fullgerða rétti og senda hann til baka á Evrópumarkað, en að vinna fiskinn á svæðinu með sambærilegum hætti. Þetta á vitaskuld eftir að hafa mikil áhrif á Íslandi og það mun sannast sem endranær að fyrstur kemur, fyrstur fær. Því fyrr sem Íslendingar bregðast við, því betra. Framundan eru nýjir tímar með nýrri hugsun. Mótspil okkar hlýtur að felast í gæðum hins ferska fisks og þar mun leika stórt hlutverk nýjasta flutninga- og geymslutækni.Hér mun smábátaflotinn enn á ný sanna kosti sína og getu.
Þegar talað er um nýja hugsun kemur mér í huga sú gagnrýni sem sérstaklega Vestfirðingar hafa legið undir, að þeir hafi ekki “spilað með kerfinu” – með öðrum orðum – ekki spilað með þeirri nýju hugsun sem kvótakerfið væntanlega var í því sambandi. Nú er uppi ný staða varðandi stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landisins, Brim. Skyndilega eru stór byggðalög að upplifa tilfinninguna sem íbúar smærri strandbyggðanna hafa búið við í á annan áratug – óttann við að aflaheimildirnar hverfi þeim úr skauti. Það væri óneitanlega fróðlegt að fylgjast með málflutningi þessara gagnrýnenda ef t.d. LS myndi nú safna nokkur hundruð fjársterkum trillukörlum, bjóða í krafti þeirra í Útgerðarfélag Akureyringa, loka fyrirtækinu og brjóta það í frumeindir og dreifa aflaheimildunum til kaupendanna. Skyldu þeir fá hrós fyrir að “spila með kerfinu”?

Aðalfundir LS frá stofnun eiga ýmislegt sameiginlegt, og eitt af því er að allir hafa þeir skorað á stjórnvöld og Hafrannsóknarstofnun að hrinda af stað rannsóknarverkefni varðandi umhverfisáhrif veiðarfæra. Það er skemmst frá því að segja að ekki hefur okkur orðið að ósk okkar. Á alþjóðavettvangi eru stjórnvöld og ýmsir aðrir hvergi bangin að kynna Ísland til sögunnar sem forystuþjóð í nýtingu auðlinda hafsins og hika hvergi við að hvetja aðra til að taka okkur til fyrirmyndar. Sú staðreynd, að við skulum hafa gert jafn lítið í að rannsaka áhrif veiðarfæranna á vistkerfi hafsins er hins vegar ekki kynnt til sögunnar. Hér er um meginmál að ræða og LS hefur haft sérstöðu meðal hagsmunasamtaka hérlendis í að krefjast þess að slíkar rannsóknir hefjist.
Eitt af því sem þessi aðalfundur þarf að taka afstöðu til er hvort LS eigi að taka stórt skref til frumkvæðis í þessu máli. Tækninni fleygir fram og nú eru smíðaðir hérlendis litlir mannlausir kafbátar sem hægt er að senda niður á óradýpi og láta mynda hafsbotninn og það sem fyrir er. Landssambandinu býðst nú samstarf við fyrirtækið sem smíðar þessa báta og eitt af því sem aðalfundurinn þarf að taka afstöðu til er þetta samstarf. Verði ákveðið að taka þetta skref hverfum við frá orðum til athafna. Í fyrramálið munu aðilar frá þessu fyrirtæki, Hafmynd, kynna tækið og möguleika þess og ég hvet ykkur til að fræðast um málið.

Það líður senn að því að barátta smábátaeigenda hafi staðið í tvo áratugi. Á þeim tíma hefur það og gerst að við höfum tekið fullan þátt í stofnun Samtaka strandveiðimanna í Norður-Atlantshafi og Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og fiskverkafólks. Það er sannarlega ánægjulegt að geta sagt að allt þetta starf er lifandi og mun skila okkur fram á veginn. Barátta okkar hefur skilað árangri og mun halda því áfram. En það gerist þó aðeins að við nýtum aflið sem í félaginu býr, afl samstöðunnar. Síðustu misserin hefur verið gerð harðari hríð að LS en trúlega nokkru sinni, jafnvel hafa andstæðingar okkar farið í “maður á mann” aðferðina til að reyna að kljúfa okkur innanfrá. Við ykkur segi ég: Látum ekki hagga okkur. Við erum enn að glíma við erfið mál og í raun þess eðlis að til skammar er fyrir velmegandi þjóð. Smábátaútgerðin hefur verið brjóstvörn hinna minni strandbyggða og ábyrgð okkar er mikil í þeim efnum. Járnið er hert í eldi og við skulum láta eldinn sem á okkur brennur herða okkur sem aldrei fyrr.

Í einum kafla snilldarverks Steinbecks, Þrúgum reiðinnar, lýsir hann fegurð og frjósemi vorsins í Kaliforníu og hvernig ávextir jarðarinnar þroskuðust og prýddu dalinn. Og hann lýsir því hvernig eigendur auðlindanna létu frekar eyðileggja ríkulega uppskeruna með markvissum hætti en að gefa hana til bjargar mannslífum.
Vorið á Íslandi eru líka fagurt og ávextir hafsins þroskast og eru til prýði. Ef auðlindir hafsins verða þeim færðar sem engan skilning hafa á mannlífi veiðimannaþjóðarinnar mun það sama gerast og í Kaliforníu forðum:
“Í sálum fólksins taka þrúgur reiðinnar að vaxa og dafna og verða þungar, verða þungar og reiðubúnar til uppskeru”.

Arthur Bogason