Ræða framkvæmdastjóra á aðalfundi LS

Hæstvirtur ráðherra, háttvirtir alþingismenn, ágætu aðalfundarfulltrúar og gestir!
Trillukarlar hafa staðið sig vel á því ári sem liðið er frá 18. aðalfundi. Glíman við ægi hefur verið hörð en gengið stórslysalaust og við stjórnvöld hefur verið glímt eins og oft áður. Hvorutveggju eru trillukarlar vanir. Þeir telja sig vera á heimavelli. Eftirtekjuna af glímunum tveim verður jafnan deilt um. Aflabrögð nokkuð góð en afkoma slök sökum lágs verðs. Ýsan ekki nema svipur hjá sjón miðað við fyrir ári. Dæmi þar um er að útflutningsverð á ferskum flökum var í apríl á sl. ári 824 krónur kílóið, en hafði fallið niður í 644 í apríl í ár, lækkun um rúman fimmtung, það er m.ö.o. að kvótinn var minnkaður sem því nam, það sem tonnið gaf áður þurfti nú 1.280 kg. Og það var ekki eingöngu ýsan sem lækkaði heldur var þorskverð í sumar mun lægra en sumarið 2002 sem kom ofan á 10% skerðingu sóknardaga og minna af þeim gula á grunnslóð og því miklu dýrara að ná sama afla heldur en ári áður. Útkoman var því lakari en búist hafði verið við.
Það er íhugunarefni að söluaðilar skuli ekki vera undir það búnir að veiðiheimildir aukist. Í flestum tilfellum skyldu menn fagna slíku, en nú birtist það í hálfgerðri martröð. Sölumenn ráðþrota og verðlækkun staðreynd. Skyldi það sama eiga við þorskinn. Útgerðaraðilar búnir ár eftir ár að taka við smánarkvóta. Sætt sig við það því hann hlýtur að fara að braggast. En upplifa það svo að uppbygging stofnsins var kannski tilgangslaus því söluaðilar hafa ekki verið uppteknir við að finna nýja markaði fyrir væntanlega viðbót veiðiheimilda heldur hjakkað í sama farinu, afgreiða.

Blikur á lofti
Er að renna upp það augnablik að við verðum að taka ákvörðun? Ákvörðun sem er sársaukafull fyrir landsbyggðina. Stöndum við frammi fyrir því að fullvinnsla þorsks skilar okkur ekki því söluverði sem vinnslan þarf. Búið er að hagræða eins mikið og hægt er. Tækin og fiskvinnsluhúsin þau fullkomnustu í veröldinni. Mannskapurinn á heimsmælikvarða. Lífskjörin á heimsmælikvarða. Það er dýrt að lifa í slíku umhverfi.
Ógnin sem stafar af ódýru vinnuafli sem telur milljónir er gríðarleg. Ráðum við að keppa við það. Við trúum því að við séum bestir, nýtum okkur það, í ferskum fiski liggja okkar möguleikar, það ferskasta kemur frá ykkur.
Staðan er grafalvarleg, frændur okkar Norðmenn hafa nú þegar lokað 200 fiskvinnslum vegna þessa þáttar. Norsk fiskvinnsla ræður ekki við að greiða það verð sem Kínverjar bjóða.
Hvað er til ráða?
Ljóst er að miklir erfiðleikar blasa við í íslenskum sjávarútvegi ef ekkert lát verður á uppbyggingu fiskvinnslu í Kína. Ég tel að við verðum að líta á þetta sem alvarlega ógn og eigum því að gera ráðstafanir áður en það verður um seinan.
Í dag er bæði útgerð og fiskvinnsla hér rekin að hluta til á erlendu lánsfé. Til landsins streymir einnig fé sem íslenskir ríkisborgarar hafa flutt með sér hingað og ávaxta það í skjóli þess að þeir eru Íslendingar en maðurinn við hliðina á þeim hefur ekki rétt á þessum fjárfestingakosti því hann er ekki Íslendingur. Ég sé lítinn mun á þessu. Því auðvitað þurfa báðir aðilar að gangast undir íslenskar leikreglur sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum. Samkeppni sem við teljum að sé til góðs er því ekki á þessu sviði. Með lögunum sem takmarka erlenda eignaraðild að sjávarútvegi er því stuðlað að einokun sem ég tel ekki gott fyrir okkur.

Ágætu tilheyrendur
Ég gat hér í upphafi um tvær glímur trillukarla. Í þeirri síðari glíma þeir við stjórnvöld. Þar hefur þeim í tvígang ekki nægt að tryggja sér meirihluta þeirra sem setja leikreglurnar. Einum er falið það, sem fjöldinn hefur ekki, valdið. Hvað er til ráða er aftur spurt. Úr því meirihlutinn dugði þeim ekki í tvígang er rétt að athuga hvers beinir umbjóðendur valdsins eru megnugir. Þeir sem ákveða hvað skuli gert og hvað skuli ekki gert. Krafa trillukarla var samþykkt af umbjóðendum valdsins. Samþykktinni var þrykkt á pappír þar sem sameiginlegt vald ákvað hvað gera skildi. Allt geirneglt með loforðum og samþykktum. Nægir það? Skyndileg gagnárás frá minnihluta umbjóðendanna. Valdið hikar. Ástæða til að vera við öllu búinn. Tillöguflytjandinn setur sig í stellingar og minnir á loforðin – orð skulu standa -. Stuðningsmenn finna kraftinn í umbjóðendum sínum, þeir gefa út yfirlýsingar um að engan bilbug sé á þeim að finna. Þeir hafi verið kosnir til að framfylgja því sem meirihlutinn samþykkti. Enn gagnárás frá minnihlutanum, hann fyrirskipar valdinu að ganga á bak orða sinna. Þannig snúast fleiri til fylgis við trillukarla, þeir bíða nú eftir efndum kosningaloforða um línuívilnun í haust.

Aflatölur
Ég ætla að trillukarlar séu aftur að ná vopnum sínum. Aflinn hefur aukist frá því á sl. ári. Hann mjakast upp á við í heildina. Árangurinn er eftirfarandi:

Heildarafli félagsmanna í LS varð 69.328 tonn á móti 64.373 tonnum í fyrra, þar af þorskur 41.313 tonn, ýsa 10.232 tonn og steinbítur 6.640 tonn. Að viðbættum grásleppuhrognum má ætla að útflutningsverðmæti afla sem veiddur var af smábátum hafi verið um 15 milljarðar.
Alls voru 1.046 bátar sem stunduðu veiðarnar hafði fækkað um einn frá sl. fiskveiðiári.
Í aflamarkinu voru 218 bátar hafði fækkað um 26, þeir veiddu alls 7.878 tonn, þar af var þorskur 5.897 tonn. Meðaltal á hvern bát var rúm 36 tonn sem er smávægileg aukning frá sl. fiskveiðiári.
Í krókaaflamarki voru 532 bátar, hafði fjölgað um 17, en við stækkun bátana hefur verið tilhneiging til að menn hafi fært sig úr aflamarkinu yfir í krókaaflamarkið. Heildarafli þeirra varð 44.274 tonn sem er aukning um 5.606 tonn frá sl. ári, þar af var þorskur 24.401 tonn. Meðaltal á hvern bát jókst úr 75 tonnum í 83 tonn.
Í sóknardagakerfinu stunduðu 296 bátar veiðarnar. Heildaraflinn varð 11.716 tonn hafði minnkað um 1.218 tonn frá sl. fiskveiðiári. Þorskur var 94% aflans eða 11.015 tonn, hefur dregist saman um 1.462 tonn milli ára eða 11,7%. Afli á hvern bát minnkaði um 11,9%, varð tæp 40 tonn. Nýting sóknardaga var 92% en var 84% á sl. fiskveiðiári og afli á hvern veiðidag var 1.922 kg.
Heildarþorskafli allra báta í LS var 41.313 tonn, sem er minnkun um 2.813 tonn eða um 6,4%. Hlutdeild í þorski hjá okkur hefur hins vegar aldrei verið meiri, þið veidduð 24% af öllum þorski sem veiddur var á sl. fiskveiðiári.
Af 10.232 tonnum ýsuafla voru krókabátar með 9.443 tonn, aukning um 64% og nálgast nú óðum það sem hann var fiskveiðiárið 2000/2001, þ.e. síðasta ár þorskaflahámarkskerfisins 10.200 tonn. Hlutdeild krókabáta í heildarýsuaflanum var 17%.
Af 6.640 tonna steinbítsafla veiddu krókabátar 6.478 tonn sem er aukning um 888 tonn sem er aukning um 15,9% frá sl. ári. Hlutdeild þeirra í heildarsteinbítsafla minnkaði úr 41% í 38%, en hann var mestur 54% fiskveiðiárið 2000/2001.

Grásleppuveiðar
Grásleppuveiðar hófust 20. mars og var veiðitími 90 dagar. Á Faxaflóasvæðinu kusu menn að hefja veiðar 1. apríl í stað 20. apríl eins og áratuga hefð hefur verið fyrir. Tilraunin reyndist það vel að ákveðið hefur verið að leggja til að veiðitíminn verði óbreyttur. Hér á aðalfundinum eru og fleiri tillögur um breyttan veiðitíma, þar sem óskað er eftir að heimilað verði að byrja fyrr. Óskir þessar eru tilkomnar vegna óvenju hás hitastigs sjávar.

Grásleppuvertíðin gekk víðast hvar vel. Fara þarf aftur til 1997 til að finna meiri veiði, en vertíðin í ár skilaði um 13.000 tunnum. Best var veiðin í utanverðum Eyjafirði og austur í Skjálfanda vestanverðan. Mest aflaðist á Bakkafirði, en þar var saltað í 1.100 tunnur og á Húsavík 990 tunnur.
Í upphafi vertíðar gaf landssambandið út lágmarksviðmiðunarverð 888 Evrur eða um 70 þús. krónur fyrir hverja fulluppsaltaða tunnu. Ekki var annað að heyra á framleiðendum en þeir tækju verðinu vel. Það kom því mjög á óvart þegar 2 framleiðendur, Vignir Jónsson og ORA tóku upp á því að tilkynna mönnum um verðlækkun aftur í tímann. Verðlækkun án tilefnis sögðu grásleppuveiðimenn um 10 þúsund á tunnu. Viðbrögð voru afar hörð og lýsir ályktun sem veiðimenn í Stykkishólmi sendu frá sér vel ástandinu:

„Fjölmennur fundur grásleppuveiðimanna í Stykkishólmi haldinn í Stykkishólmi 2. maí 2003 skorar á alla grásleppuveiðimenn að hunsa tilboð íslenskra framleiðenda um verðlækkun á hrognum. Í upphafi vertíðar buðu allir íslenskir framleiðendur verð sem almenn samstaða var um meðal grásleppuveiðimanna að væri viðunandi.
Frá því vertíð hófst hefur ekkert það gerst í grásleppuveiðunum, hvorki hérlendis né erlendis, sem réttlætir framangreinda verðlækkun. Fundurinn fordæmir því harðlega þau vinnubrögð íslenskra framleiðenda að dreifa ósönnum fullyrðingum um veiðar og verð í nágrannalöndunum í því skyni að ná niður verði á hrognum til íslenskra grásleppuveiðimanna.
Fram kom á fundinum að veiðarnar eru í jafnvægi og verð á hrognum í samkeppnislöndum okkar í samræmi við viðmiðunarverð hér.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur amk einn íslenskur kaupandi grásleppuhrogna tilkynnt viðskiptavinum sínum um að verðlækkunin skuli ná til hrogna sem hann hefur þegar fengið afhent. Fyrir marga veiðimenn jafngildir það verðfellingu allrar veiði vertíðarinnar.
Samstaða skapaðist á fundinum að leita allra leiða til að fá viðunandi verð fyrir framleiðslu vertíðarinnar.
Kaus fundurinn starfshóp til að vinna málinu brautargengi.“

Auk ályktana frá grásleppuveiðimönnum átaldi stjórn LS harðlega framkomu framleiðenda á grásleppuvertíðinni um að dreifa ósönnum fullyrðingum um verð og veiði annarra þjóða til að réttlæta verðlækkun á miðri vertíð.
Óljóst er hvaða áhrif þessi uppákoma hefur til langframa, en ljóst er að veiðimenn sem heyrðu frasann, að þeir greiddu hæsta verð, munu hugsa sig um tvisvar áður en ákvörðun er tekin um framtíðarviðskipti við þessa aðila. Frá veiðimönnum heyrist einnig að þeir hafi nú hafið viðskipti við erlendan aðila sem gæti þróast í framtíðarviðskipti.

Þegar borinn er saman útflutningur fyrstu 8 mánuði þessa árs miðað við í fyrra, hefur útflutningur saltaðra hrogna stóraukist úr 4.400 tunnum í 7.000 tunnur, eða um 60%.

Ágætu fundarmenn
Allt útlit er fyrir að góður markaður sé fyrir grásleppuhrogn á næstu vertíð. Heimsveiðin var innan þeirra marka sem kaupendur óskuðu eftir að kaupa og mikil spenna var hjá þeim að ná síðustu tunnunum. Það má því búast við einhverri hækkun en reynslan sýnir okkur að best er að fara varlega í þeim efnum.

Línuívilnun
Aðalfundur 2002 samþykkti að barist skyldi fyrir línuívilnun. Þá hafði málið verið í sterkri umræðu frá nóvember 2001. Umræðu var beitt fyrir sveitarstjórnarkosningar og ekki annað að sjá en mönnum hugnaðist hún ansi vel. Jafnvel var ég á tímabili farinn að sjá möguleika á að hún yrði tekin til umræðu á Alþingi vorið 2002. Það var staðfest frá sjávarútvegsráðuneytinu að breyta þyrfti lögum til að koma henni í framkvæmd. Mér fannst það með ólíkindum hvað þingmenn voru strax jákvæðir og mat það svo að þarna værum við að njóta ávaxtanna af öflugum málflutningi og framsetningu veturinn 2001 þegar þorskaflahámarkið var afnumið og aukategundir kvótasettar. Greinilegt var að menn höfðu fullan hug á að bæta mönnum upp það áfall og þá væri línuívilnun kjörin til þess. Engum kvóta úthlutað, heldur fengju menn ívilnun eingöngu með veiðum. Það kom mér á óvart á þessum tíma hvað lítið heyrðist í andstæðingum línuívilnunar. Ég jafnvel hélt á tímabili að þeir væru engir, en annað átti nú eftir að koma í ljós.Málið mallaði hægt og bítandi, mikil samstaða á aðalfundi LS og á aðalfundum svæðisfélaganna. Við gátum óáreittir undirbúið jarðveginn. Sveitarfélög tóku undir og samþykktu stuðning. Þegar hér var komið sögu var runninn upp janúar 2003. Stefnan hafði verið tekin á flokksþing Framsóknarflokksins. Þar rann málið í gegn, en áður höfðu stjórnarandstöðuflokkarnir lýst miklum velvilja við málefnið. Á þeirri stundu aðeins einn þröskuldur eftir, Sjálfstæðisflokkurinn. Guðmundur Halldórsson boðaði komu sína á landsfund Sjálfstæðisflokksins. Ég fann það strax að Guðmundur var í banastuði. Við skeggræddum málið fram og til baka og veltum fyrir okkur hinum og þessum þáttum sem komið gætu upp á landsfundinum. Þó ég hafi ekki verið á landsfundinum fékk ég stöðugar fréttir af gangi mála og óneitanlega var spenningurinn mikill þegar ég hlustaði á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Sá gamli – eldhuginn að vestan – formaður Eldingar Guðmundur Halldórsson stóð uppi sem sigurvegari. Meira að segja engar breytingar gerðar á tillögunni, hún fór orðrétt í gegn ásamt greinargerð. Guðmundur hafðu kærar þakkir fyrir þinn einstaka dugnað og kraft sem ég er viss um að gæti jafnvel látið letingja iða í skyninu yfir að fá að vinna. Segja má að á þessum tímapunkti hafi verið búið að samþykkja að koma línuívilnun á.
Nú fór stór risi að rumska.
Hvað er eiginlega búið að gera?
Þaggað var niður í honum.
Kosningarnar fóru fram, málefnasamningur samþykktur og línuívilnun að sjálfsögðu þar inni. Nú fór að æsast leikurinn, risinn var vaknaður. Passlega, allt um garð gengið, en við það að uppgötva slíkt rann á hann berserksgangur þar sem hann hefur grenjað ógurlega.Einhverjir kikkna í hnjáliðunum, en flestir segja sem svo; um línuívilnun var kosið,
henni var lofað og
við það verður staðið.

Góðir fundarmenn!
Þó línuívilnun sé vís, verðum við að fylgja málinu á leiðarenda sem vonandi næst innan fárra vikna.

Sóknardagakerfið
Skilaboð 18. aðalfundar um sóknardagakerfið voru mjög skýr. Berjast skyldi fyrir 23 daga gólfi var aðal krafan. Augljóst var að áður en komið yrði að því máli þurfti að tryggja að sókn yrði áfram mæld í klukkustundum. Aflinn hafði aukist, en þegar betur var að gáð kom í ljós að aðalástæður þess voru meiri fiskur á grunnslóð og stækkun og breytingar sem voru gerðar á bátunum. Þeim breytt úr rólegri trillu í fullkomið atvinnutæki. Eftir nokkrar viðræður ákvað ráðherra að leggja ekki til breytingar, klukkustundarkerfið er því orðið fast í sessi.
Ákveðið var að afla upplýsinga um færeyska sóknardagakerfið. Þar gilda mjög stífar reglur varðandi stækkun skipa og vélaafl. Mál þróuðust nú þannig að ráðherra var ekki til umræðu um gólf öðru vísi en hann hefði tryggingu fyrir því að sóknin ykist ekki. Tillögu um afnám nýtingarstuðuls var hann ekki tilbúinn að ræða, slíkt mundi leiða til sóknaraukningar. Hann taldi afnám reglu um fjölgun daga við minnkun báta hafa virkað, en meira þyrfti að gera. Velt var vöngum yfir málinu, bátarnir krufðir til mergjar. Við þessar aðstæður var byrjað að skoða hvort fylgni væri milli fjölgun hestafla og afla. Í ljós kom að það var línulegt samband, þeim mun meira afli, því fleiri hestöfl. Á þessum tímapunkti var greinilegt að ráðherra var áhugasamur um að finna lausn á málinu. Á fjölmörgum fundum í ráðuneytinu voru búnar til töflur sem gengu út á að aflaukningu yrði að greiða fyrir með fækkun daga.
Á öllum stigum viðræðnanna var auk kröfunnar um gólf, krafa um færslu ónýttra sóknardaga milli ára og að heimilt væri að nýta sóknareiningar allt árið. Þá var gerð krafa um að óheimilt yrði að hafa fleiri handfærarúllur um borð en 5. Um miðjan febrúar fannst okkur málin vera að ganga upp. Það kom því afarmikið á óvart að ráðherra tilkynnti að hann hefði ákveðið að leggja ekki fram frumvarp um sóknardaga sem innihéldi framangreint. Þrátt fyrir þrýsting frá formanni sjávarútvegsnefndar þingsins og meirihluta nefndarinnar var ráðherranum ekki snúið.
Þarna beið meirihlutinn sem studdi okkar mál öðru sinni lægri hlut.
Ég sendi stjórn LS minnisblað um málefnið 18. mars þar sem ítarlega var gerð grein fyrir stöðu mála.
Auk þessa sem hér hefur verið upptalið var farið með tillögu inn á Landsfund Sjálfstæðisflokksins, bréfi dreift á valda menn fyrir kosningar ofl.
Í júlí samþykkti stjórn LS eftirfarandi:
„Stjórn LS styður heilshugar hugmyndir viðræðunefndar LS frá sl. vetri um veiðifyrirkomulag sóknardagabáta.
Stjórnin lýsir furðu sinni á að hstv. sjávarútvegsráðherra hafi ekki treyst sér til að vinna hugmyndunum brautargengi á Alþingi, þannig að sóknardagar yrðu ekki færri en 23 og hemill settur á aflaukningu véla og fjölda veiðitækja.“
Ágætu fundarmenn
Í þessum farvegi er málið. Brýnt er að gera aðra atlögu að ráðherra.

Hugmyndir um breytt fyrirkomulag á skipaskoðun.
Með bréfi forsætisráðherra til ríkisstjórnar í október 2000 var lagður grunnur að því markmiði að færa skipaskoðanir til skoðunarstofa sem starfa á almennum markaði – einkavæðing. Í vor sl. voru samþykkt á Alþingi lög um eftirlit með skipum þar sem Siglingastofnun var heimilað að fela öðrum skoðun skipa og gefa út starfsleyfi þeim til handa. Gert er ráð fyrir færslu skipaskoðunar frá Siglingastofnun til einkaaðila verði 1. janúar nk.
Á öllum stigum þessa máls hefur ræðumaður lýst efasemdum með þessa aðgerð, talið og telur hana hafa í för með sér stóraukinn kostnað fyrir smábátaeigendur og að öryggi þeirra verði skert með því að færa það frá aðilum sem hafa áratugalanga reynslu í að skoða smábáta og fylgjast með því að þar sé fyllsta öryggis gætt. Þá var það einnig gagnrýnt að með breytingunum væri verið að leggja auka skatt á útgerð í hinum dreifðu byggðum. Í dag er sama skoðunargjald fyrir alla, óháð því hvort þeir búa á Raufarhöfn eða Reykjavík. Með fyrirhuguðum breytingum er þessum hugsunarhætti kastað fyrir róða. Ekki lengur samræmt gjald án tillits til búsetu heldur tvö gjöld annað frá hinu opinbera og hitt frá einkaaðilum þar sem gjaldtaka er í réttu hlutfalli við fjarlægð frá skoðunarmanni og þeim sem þjónustuna veitir.
Gjaldtaka Siglingastofnunar vegna eftirlits verður aðskilin, annars vegar skattur á eigendur skipa og hins vegar innheimt gjöld fyrir lögboðið eftirlit sem stofnunin veitir. Auk þessa bætist svo við kostnaður við skoðun frá einkareknum skoðunarstofum. Varlega áætlað geri ég ráð fyrir að þessar breytingar leiði af sér 100% hækkun eða kringum 40 milljóna aukakostnað fyrir smábátaeigendur.
Fyrirhuguðum breytingum mótmæli ég harðlega, smábátaeigendur segja nei við því að greiða 40 milljónir fyrir að fara úr þjónustu þeirra aðila sem hafa mestu og bestu þekkingu á öryggismálum þeirra. Þeir segja nei við því að greiða 40 milljónir í hagræðingu fyrir aðra. Hagræðingu sem skilar ekki betri þjónustu, bættu öryggi eða lægri gjöldum.

Góðir fundarmenn!
Rétt er að benda á að aðrar þjóðir hafa ekki farið þá leið sem stjórnvöld leggja hér til. Í Noregi er byggt á samstarfi bátseiganda og þjónustuaðila í heimabyggð. Þeir bera í sameiningu ábyrgð á öryggi bátsins. Aðhald frá hinu opinbera er framkvæmt með skyndiskoðunum. Fyrir aðalfundinum liggja tillögur varðandi þetta málefni. Mín skoðun er sú að farsælast sé að Siglingastofnun sinni áfram skipaskoðun og ef áhugi er fyrir hendi hjá einkareknum skoðunarstofum geta þær komið að málinu á samkeppnisgrunni en ekki að þeim sé réttur pakkinn.
Að síðustu varðandi þennan lið er rétt að geta þess að smábátaeigendur eru ekki á flæðiskeri í þessu máli því með þeim á skerinu er LÍÚ sem mótmælir einnig fyrirhuguðum breytingum, þá efa ég ekki að fleiri hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eigi einnig eftir að mótmæla breytingunum.

Góðir tilheyrendur
Annað er það málefni sem á mér brennur og brýnt er að gera hér nokkur skil. Það eins og skipaskoðunin er tilkomin vegna nýrra laga, lög um hafnir. Þar er enn ein tugaprósenta hækkunin á ferðinni. Aflagjald sem verið hefur 1,03% af aflaverðmæti hækkar í 1,28% að lágmarki og 1,92% að hámarki. Sé farinn millivegurinn 1,6% mun kostnaður smábáta aukast um 50 milljónir á ársgrundvelli. Þessir tveir þættir sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni eru því upp á 90 milljónir.

Við undirbúning hafnalaga sendi LS, LÍÚ og SÍK sameiginlega athugasemd við skýrslu hafnalaganefndar, en með hliðsjón af henni var frumvarpið samið. Í athugasemd samtakanna segir m.a. að þau telji „ekki nægjanlega gætt að hagsmunum neytenda hafnanna og á það sérstaklega við um aðila sem hafa byggt upp umfangsmikla og dýra aðstöðu við hafnir og eiga ekki raunverulegan kost á öðru en kaupa þjónustu viðkomandi hafnar. Þar verður ekki um raunverulega samkeppni að ræða heldur einokun hafnanna.“. Þegar frumvarpið var til meðferðar hjá samgöngunefnd Alþingis sendi LS inn athugasemd þar var m.a. atriða eftirfarandi: „sökum smæðar sinnar er ekki raunhæft að smábátaeigendur geti flutt sig milli hafna og þannig stuðlað að virkri samkeppni hvað varðar gjaldtöku.“
Nú eru lögin staðreynd og því brýnt að smábátaeigendur undir merkjum sinna félaga ræði við hafnaryfirvöld um gjaldskrána. Flestir hafa haldið að tímar tugaprósenta hækkunar væri liðin en hér hef ég gert grein fyrir tveimur þeirra sem brýnt er að mótmæla harðlega.

Starfsemin
Það aðalfundarár sem nú kveður hefur í engu verið eftirbátur viðburðaríkra ára í starfi félagsins. Hér verður drepið á nokkur þessara málefna.

Tekin var í notkun heimasíða hjá félaginu smabatar.is Gríðarlegur áhugi er fyrir síðunni sem marka má af því að á sl. 4 mánuðum hafa heimsóknir á síðuna verið 15.500 eða 129 á dag. Reynt er að hafa eina nýja frétt á hverjum degi og eru fréttir á síðunni nú orðnar 80 talsins. Greinilegt að smábátaeigendum þykir þessi miðlun góð og vonandi að hún eflist enn frekar.

Í júní sl. var gefinn út bæklingurinn: Öryggi smábáta á fiskveiðum. Bæklingnum er dreift meðal smábátaeigenda. Þá er hafin taka á kvikmynd um Öryggi smábáta og er stefnt að því að hún verði tilbúin fyrir áramót. Hún verður sett á DVD diska og send félagsmönnum, einnig verður myndin aðgengileg á heimasíðu Siglingastofnunar.

Á árinu hafa verið gerðar endurbætur á STK kerfinu, settir hafa verið í langbylgjumastrið á Gufunesi og stöðvar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli. Þessar aðgerðir hafa orðið til að styrkja kerfið enn frekar. Ég mæli hér örugglega fyrir munn nánast allra smábátaeigenda með því að lýsa ánægju minni með STK kerfið sem hefur leitt öryggi smábátaeigenda mörg skref fram á við.
Stjórn LS hélt 4 fundi á árinu, þar af einn í Færeyjum á sl. sumri. Á fundunum var tekið á brýnum málum, ályktanir samþykktar og línur lagðar fyrir málefni í vinnslu. Þakka ég stjórninni fyrir afargott samstarf.

Ekki verður hér skilið við öðru vísi en að þakka fjölmörgum smábátaeigendum og stuðningsmönnum þeirra fyrir að leggja málstaðnum öflugt lið, bæði með greinarskrifum, samtölum við rétta aðila og öðrum aðgerðum, sérstaklega Vestfirðingum og má þar nefna auk formanns Eldingar, Snorra Sturluson og Óðinn Gestsson, þeim þakka ég fyrir þeirra framlag sem hefur verið afar dýrmætt.

Aflinn
Eins og áður var frá greint jókst afli smábáta frá sl. ári sem er mikið fagnaðarefni.
Guðmundur Einarsson Bolungarvík sló öllum við hvað varðar aflabrögð, dró alls 849 tonn inn fyrir borðstokkinn á Guðmundi Einarssyni ÍS. Guðmundur toppar þar sinn fyrri árangur, til hamingju Guðmundur.
Aflahæstur í aflamarkinu var Askur GK, þar sem Jens Óskarsson frá Grindavík ræður ríkjum, afli Asks var 266 tonn.
Í sóknardagakerfinu varð aflakóngur Vigfús Vigfússon á Höfn á bát sínum Örkinni SF. Handfærin gáfu 134 tonn.

Til hamingju allir.

Ágætu þingfulltrúar og gestir
Aðalfundur fær nú það vandasama hlutverk að marka braut næsta árs þar sem ég veit að vandað verður til allra verka. Mikið starf bíður fulltrúanna þar sem ályktanir eru alls 178.

Auk þess sem ég hef hér tæpt á vil ég vísa til kaflans um ítarefni sem er í möppunum ykkar og annarra gagna sem þar er að finna og svo að sjálfsögðu heimasíðu LS. Þá mun ég eins og endranær fylgjast með störfum nefnda hér á fundinum og svara fyrirspurnum.

Samstarfsfólki mínu á skrifstofu LS, Oddbjörgu og Arthuri, þakka ég fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.
Aðalfundarfulltrúar verið velkomnir til 19. aðalfundar Landssambands smábátaeigenda.

Að þessu mæltu lýk ég máli mínu.

Takk fyrir.