Málefni aflamarksbáta

Á aðalfundi LS voru starfandi 5 nefndir sem unnu úr tillögum svæðisfélaganna. Ein þessara nefnda fjallaði sérstaklega um málefni aflamarksbáta og samþykkti aðalfundurinn eftirfarandi:

Byggðakvóti verði unnin í heimabyggð
Aðalfundur LS krefst þess að haldið verði áfram fullum þrýstingi á alþingismenn og ráðherra um að tryggja áframhaldandi úthlutun byggðakvóta, jafnframt því sem við mótun úthlutunarreglna verði hvergi slegið af því sjónarmiði að þær aflaheimildir sem úthlutað er, verði unnar í heimabyggð.

Jöfnunarsjóði verði úthlutað varanlega
Aðalfundur LS krefst þess að haldið verði áfram fullum þrýstingi á alþingismenn og ráðherra um að styðja við bakið á þeim aðilum sem gera út smábáta í aflamarkskerfi með því að úthluta jöfnunarsjóðnum varanlega sem aflahlutdeild og tryggja með því áframhaldandi tilvist þessara báta.

Reglugerð um merkingu veiðarfæra verði í laga- og reglugerðarbók
Aðalfundur LS gerir þá kröfu að eftirleiðis verði reglugerð um merkingu veiðarfæra að finna meðal annarra laga og reglugerða um stjórn fiskveiða, sem veiðiréttarhöfum er sent um hver kvótaáramót.
Greinargerð.
Hér fyrr á árum var ávallt send reglugerð um merkingu kyrrstæðra veiðarfæra. Síðan var þessu hætt. Nú eru komnir inn í atvinnuveginn nýir menn, sem ekki vita um þessa reglugerð.
Komið hefur í ljós að skipstjóri á netabát var sektaður um 400,000 kr. vegna ómerktra netadreka. Fundurinn lítur svo á að veiðarfæri skulu ávallt vel merkt, og til þess að svo megi vera þurfa allir viðkomandi að hafa reglugerð um merkingar.

Notkun stórra möskva í þorskanetum
Aðalfundur LS beinir þeim tilmælum til sjávarútvegsráðherra að þess verði krafist að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er í takmörkun á notkun stórra möskva við netaveiðar.
Bann við notkun veiðarfæra, svo sem stórra möskva í þorskanetum, þarf að vera stutt vönduðum rannsóknum sem gefa skýrar niðurstöður.

Netaveiðar á kola
Aðalfundur LS skorar á stjórnvöld að leyfa frjálsar kolaveiðar í net á svæði norðan línu réttvísandi vestur af Öndverðarnesi að línu 64,30, Hvalnes.

Lagfæring á aflamarksstöðu smábáta
Aðalfundur LS samþykkir að fela formanni og framkvæmdastjóra félagsins að beita sér fyrir lagfæringu á aflamarksstöðu smábáta á aflamarki.
Greinargerð.
Staða smábáta á aflamarki er mjög slæm og ef ekkert verður gert til að laga stöðu þeirra þá hverfa þeir úr rekstri þar sem grundvöllur fyrir rekstri þeirra er mjög erfiður.