Óánægja með fyrirhugaðar breytingar á skipaskoðun

Á 19. aðalfundi LS áttu sér stað miklar umræður um fyrirhugaða breytingu á skipaskoðun. Af því tilefni samþykkti fundurinn eftirfarandi:

„Aðalfundur LS beinir því til stjórnar LS að fylgjast náið með þeim breytingum sem eru að verða á skoðunarfyrirkomulagi smábáta og mótmæla öllum tilburðum til hækkunar á þeim kostnaði sem þessum skoðunum fylgir. Minnt skal á að markmið breytinganna er að lækka kostnað með hagræðingu.“

Stjórn LS fundaði um málið að loknum aðalfundi 17. október og samþykkti eftirfarandi:

„Stjórn Landssambands smábátaeigenda mótmælir harðlega fyrirhuguðum flutningi skipaskoðunar frá Siglingastofnun. Upplýsingar benda á einn veg til þess að árlegur kostnaður smábátaeigenda við fyrirhugaða breytingu mun verða um 40 milljónir, auk óvissu um framkvæmd og gæði skoðunar. LS skorar á samgönguráðherra að falla frá því að færa skipaskoðun með handafli frá Siglingastofnun heldur að láta samkeppnina sjá til að neytendur hafi val á því hvort þeir kjósa að leita annað með skoðun báta sinna. Minnt skal á að hér er um öryggismál að ræða þar sem menn með áratugareynslu hafa framkvæmt skoðanir og farist það vel úr hendi. Ábyrgð þeirra sem ákveða breytingu þar á er því afar mikil.“

Samþykktir þessar hafa verið sendar til hstv. samgönguráðherra og lagðar fram í Siglingaráði.

Ljóst er að allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eru því fylgjandi að skora á samgönguráðherra að taka þetta mál allt til endurskoðunar og vinna að lausn þess í samvinnu við hagsmunaaðila.