LS í samstarf um myndatökur af hafsbotni

Á nýafstöðnum aðalfundi LS var samþykkt að ganga til samstarfs við fyrirtækið Hafmynd ehf um myndatökur af hafsbotni.
Fundurinn fól stjórn félagsins og forystumönnum að ganga til þessa verks í því skyni að árangurinn verði sem mestur fyrir LS.

Greinargerðin sem fylgdi tillögunni var eftirfarandi:

Aðalfundir LS hafa ítrekað ályktað um nauðsyn þess að hafnar verði rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra. Þessar ályktanir byggja á því grundvallarsjónarmiði að miklu skipti hverskonar veiðitækjum er beitt við nýtingu fiskimiðanna. Fram til þessa hefur verið daufheyrst við kröfum LS og rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar á þessu sviði í algeru lágmarki.
Samstarf við Hafmynd ehf, eins og getið er hér að framan, gefur LS tækifæri til að snúa orðum í athafnir. Til boða stendur að hafa frumkvæði á þessu sviði, jafnvel þótt takmarkað sé.
Nú þegar er vitað að kórallasvæði á stórum svæðum í Norður-Atlantshafi hafa verið rústuð niður með botndregnum veiðarfærum. Engar myndir eru til sem sýna ástand þessara mála hér við land og eitt af markmiðum verkefnisins væri að leiða hið rétta í ljós í þeim efnum.
Slík gögn ættu og að leiða í ljós hvort sú grundvallarskoðun smábátaeigenda eigi við rök að styðjast að máli skipti hvernig veiðarfærum er beitt til veiðanna.