Skrifstofa LS hefur fyrir því áreiðanlegar heimildir að nokkrir grásleppuveiðimenn séu búnir að ákveða að láta ekki frá sér hrognatunnur fyrr en þeir fá viðunandi verð fyrir þær. Er þar nefnd talan 60 þúsund fyrir stykkið, en þau verð sem boðin eru nú um stundir eru talsvert lægri. Siglufjörður sker sig þó úr í þessu tilliti, en þar hafa menn fengið 60 þúsund FOB fyrir tunnuna.
Stál í stál á Nýfundnalandi
Nú standa yfir samningaviðræður milli samtaka sjómanna og kaupenda hrogna á Nýfundnalandi. Sjómenn eru þar undir miklum þrýstingi að lækka lágmarksverðið en þeir hafa ekki ljáð máls á því. Stendur allt stál í stál og hefur vertíðinni verið frestað vegna þessa.
Sögusagnir á kreiki
Eitt af því sem veiðimönnum á Nýfundnalandi er nú sagt er að þeir verði að veiða mun meira en þeir hafa gert ráð fyrir til að bæta upp lélega veiði á Íslandi og samdrátt í Noregi og Grænlandi. Á sama tíma eru íslenskir veiðimenn að heyra þá sögu að ofsaveiði sé á Grænlandi, en eftir þeim heimildum sem LS hefur frá KNAPK, samtökum veiði- og fiskimanna á Grænlandi er það ekki rétt og um samdrátt að ræða í heildina.
Þess er skemmst að minnast að í fyrra var sú saga sett af stað frá Danmörku að þar væri ævintýraleg veiði og verð snarlækkuðu á augabragði á Íslandi. Þetta var leiðrétt stuttu síðar, en óneitanlega er þetta hvimleið aðferðafræði, ekki síst í ljósi þess að í orði kveðnu a.m.k. vilja allir aðilar í þessum viðskiptum halda stöðugleika í greininni.