Aðalfundur Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og fiskverkafólks 4. – 9. apríl 2004 í Lissabon

Fyrr í vikunni barst tilkynning til Landssambands smábátaeigenda um næsta aðalfund Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og fiskverkafólks (WFF – World Forum of Fish Harvesters and Fishworkers). Hann verður haldinn dagana 4. – 9. apríl 2004 og fundarstaðurinn er Lissabon í Portúgal.

Samtökin voru stofnuð í Nýju Delhi á Indlandi árið 1997 og hefur vegur þeirra stöðugt farið vaxandi. Síðasti aðalfundur var haldinn í Locktudy í Frakklandi á árinu 2000, þar sem stjórnarskrá samtakanna var endanlega staðfest.

Á síðasta ári opnaði WFF skrifstofu í Ottawa í Kanada og er framkvæmdastjóri samtakanna þar starfandi. Hann heitir Pedro Avendano og kemur frá Chile. Undirbúningur fundarins í Lissabon er hafinn af fullum krafti, sem og að fá fleiri til liðs við samtökin, en þjóðirnar eru um 30 í dag. Vonast er til að þátttökuþjóðirnar verði á bilinu 45 – 60. Þá hefur fjölmörgum samtökum og stofnunum verið boðið að sitja fundinn.

Félagsmönnum í LS býðst að vera á fundarstað, bæði við setninguna þann 4. apríl sem og á lokadeginum. Það er full ástæða til að hvetja félagsmenn til að íhuga þann möguleika að verða vitni að þessum atburði. Það er einstök upplifun að blandast í svo fjölbreyttan hóp sem þarna mætist og í raun með ólíkindum hversu auðvelt það er mönnum að ná saman þó af ólíku bergi séu brotnir.

Þeir félagsmenn sem hafa á þessu áhuga þurfa að setja sig í samband við skrifstofu LS og tilkynna það. Ef góð þátttaka skapast liggur beinast við að LS getur leitað hagstæðari verða á þeim grundvelli.