Byggð á Borgarfirði ekki ógnað af utanaðkomandi aðilum.

Í haust hafa 10 bátar róið á línu frá Borgarfirði. Aflinn er allur unnin á staðnum hjá fiskverkun Karls Sveinssonar. Aflabrögð hafa verið sæmileg að sögn Kára Borgars Ásgrímssonar eiganda Hafarnarins NS. Þetta hefur hangið í 150 kg á bjóð – 420 króka línu – mest þorskur. Kári sem róið hefur frá Borgarfirði í aldarfjórðung minnist þess ekki að jafn mikið af horuðum þorski hafi verið í aflanum eins og nú. Ýsan sem fæst er hins vegar vel á sig komin og grátlegt að ekki fáist viðunandi verð fyrir hana.
Aðspurður sagðist Kári hafa áhyggjur af auknu hlutfalli horaðs þorsks í aflanum og kvaðst spyrja sig þeirrar spurningar hvort mikil aukning flottrollsskipa við veiðar á uppsjávarfiski eigi þar sök á. Veiðiráðgjöf á síld og loðnu taki ekki mið af því hversu mikið veiðarnar hafa aukist með tilkomu þeirra, það er einfaldlega drepið miklu meira en fiskifræðingar reikna með, það verður því minna æti fyrir þorskinn. Þeirra formúlur hafa ekkert breyst í gegnum árin, þær taka mið af nótaveiðum, sem Kári telur vera þá veiðiaðferð sem eigi að beita við veiðar á loðnu og síld.
Kári segir engan barlóm í þeim Borgfirðingum – næg atvinna fyrir alla og menn
horfi bjartir til vetrarins. Hann segir öfugt við mörg önnur byggðalög sem eiga allt sitt undir ákvörðunum aðila sem ekki ættu þar heima að á Borgarfirði ættu heimamenn atvinnutækin og hafi sjálfir umráðarétt yfir veiðiheimildum og nýttu þær með veiðum. Það tryggði stöðugleika í byggðarlaginu og utanaðkomandi gætu þannig ekki ógnað hinu smáa og blómlega samfélagi sem Borgarfjörður er.