Áhyggjuefni hversu lítið mælist af loðnu

Mælingar Hafrannsóknastofnunar á stærð loðnustofnsins í nóvember skiluðu ekki tilætluðum árangri. Aðeins mældist einn tíundi hluti þess magns af stórri loðnu, sem við hefði mátt búast og einn tuttugasti hluti venjulegs fjölda smáloðnu á þessum árstíma eins og fram kemur í fréttatilkynningu Hafró.
Í samræðum við smábátaeigendur vegna þessa máls, hafa komið fram miklar áhyggjur vegna þessa og því hefur verið velt upp hvort ekki sé ástæða til að fara varlega. Bent hefur verið á að undanfarin ár hafa loðnuveiðar með nót ekki gengið vel og nokkur ár séu frá því að tekist hafi að skila á land þeirri síld sem heimilt hefur verið að veiða. Flestir telja að undir slíkum kringumstæðum eigi tafarlaust að banna allar veiðar með flottroll innan 50 sjómílna og benda á að Norðmenn banna veiðarfærið alfarið í sinni lögsögu.
Eins og komið hefur fram ályktaði aðalfundur LS 2002 eftirfarandi um flottrollsveiðar:

„Aðalfundur LS lýsir áhyggjum vegna stóraukinnar notkunar flottrolls við síld- og kolmunnaveiðar. Það sjá allir sem þora að vera heiðarlegir að þessi stóru troll sem dregin eru heilu og hálfu sólarhringana, veiða ýmislegt annað en síld og kolmunna.
Það er undarlegt meðan stjórnendur fiskveiða á Íslandi telja sig vera að byggja upp fiskistofna, fái þessar veiðar að viðgangast athugasemdalaust. Allir þeir sem gætu breytt þessu brjálæði, loka augunum og þykjast ekkert vita. Þetta má ekki einu sinni ræða.
Fundurinn krefst þess að allar flottrollsveiðar innan 50 mílna verði bannaðar þangað til sannað verði opinberlega með rökum að ekki séu árlega tugir eða hundruð tonna af þorskseiðum og fleiri tegundum fiska sett í bræðslu eða dælt hökkuðu í sjóinn.
Þetta þolir enga bið.“

Viðmælendur heimasíðunnar benda á að nýting og umgengni um loðnustofninn séu ekki einkamál útgerða loðnuskipa. Loðnan er ein aðalfæða þorsksins og við hátt hitastig sjávar eins og nú er vaxi hann hraðar og þurfi því meira að éta. Niðurstöður Hafró á mælingu á stærð loðnustofnsins er því grafalvarlegur hlutur sem ekki má meðhöndla með því að sletta í góm og fullyrða að veiðistofninn sé miklu stærri en þessar mælingar gefi til kynna. Spurt er hvers vegna þá þessar mælingar?