Krefjast lokunar Eyjafjarðar fyrir dragnótaveiðum

Hátt í fjörutíu smábátaeigendur við utanverðan Eyjafjörð hafa óskað eftir því við sjávarútvegsráðherra að hann banni dragnótaveiðar innan línu úr Gjögurtá í Landsenda. Erindið er tilkomið vegna stöðugs ágangs dragnótabáta á veiðisvæði þorskneta- og línubáta við Hvanndalabjarg og í vestanverðum Ólafsfirði. Í nokkrum tilfellum hafa dragnótabátar kastað á netatrossur og dregið þær til, skorið og slitið. Þá er vakin athygli á að dæmi er um að dragnótabátur hafi farið í net inni á Ólafsfirði þar sem dragnótaveiðar eru bannaðar. Þannig virðast þessir aðilar engu eira og hafa jafnvel gengið svo langt að hóta að fjarlægja netatrossur sem fyrir eru á veiðisvæði þorskanetabáta.
Framkoma dragnótaveiðimanna sem hér hefur verið lýst er sem betur fer óþekkt og því nauðsynlegt að ráðherra bregðist þegar við og uppræti slíka háttsemi.
Í áratugi hafa bátar lagt línu, þorska- og grásleppunet á þetta veiðisvæði án þess að verða fyrir árásum sem hér hefur verið lýst.
Í bréfinu til ráðherra er einnig vakin athygli á að það sé blekking að þessir bátar stundi hefðbundnar dragnótaveiðar, því búið er að setja gúmmískífur (gjóthoppara) í stað fótreipisins þannig að hægt er að draga nótina yfir flesta harða bletti sem ekki hefur áður verið gert.