Í dag birtist í Fiskifréttum eftirfarandi skoðunargrein eftir Örn Pálsson, undir fyrirsögninni „Frumskógarlögmál í ferskfisksölu “
Að undanförnu hafa átt sér stað talsverðar breytingar á útgerðarháttum. Þær eru m.a. tilkomnar vegna lægra verðs á sjávarafurðum. Sjófrystur fiskur hefur átt erfitt uppdráttar og hafa þeir sem verið hafa í þeim geira margir hverjir skipt yfir í ferskan fisk.
Til skamms tíma hafa smábátaeigendur nánast einir lagt til hráefni á ferska markaðinn. Alkunna er að markaður þessi er viðkvæmur og hefur þar af leiðandi byggst afar hægt upp. Það hefur hjálpað til að útgefnir kvótar í þorski og ýsu hafa verið svipaðir frá ári til árs, eða allt til 1. september 2002, markaðir fyrir aðrar verkunaraðferðir stöðugir og litlar sveiflur í framboði frá öðrum þjóðum. Verð hefur því verið vel viðunandi sem er undirstaða þess að kostnaðarfrekar línuveiðar skili arð.
Hvert undirboðið rekur annað
Á síðastliðnum mánuðum hefur framboð fersks fisks aukist gríðarlega. Verulegt magn kemur frá Noregi, Færeyjum og Skotlandi. Hérlendis hefur framboðið einnig aukist og nýir aðilar hafa hafið útflutning á þennan viðkvæma markað. Verðið sem þeir bjóða er nokkru lægra en hjá þeim sem þar eru fyrir.
Fiskur frá Íslandi! Skyndilega eru allir að selja ferskan fisk frá Íslandi, tveir, þrír og jafnvel fleiri aðilar að bjóða sama fiskinn til sölu. Kaupendur sem jafnan hafa kvartað yfir of háu verði eru allt í einu komnir með aðra sér við hlið og kvarta nú sáran yfir of lágu verði. Hvert undirboðið rekur annað. Er þetta nauðsynlegt? Svarið lætur ekki á sér standa: Ef ég geri það ekki, gerir það bara einhver annar!!
Þeir sem rutt hafa brautina fyrir ferskan fisk eru vitanlega argir. Þeim gremst hátterni þessara nýju aðila. Hvers vegna leita þeir ekki nýrra markaða eins og við þurftum að gera? Það sem þeir fá í andlitið er; þetta eru lögmál hins frjálsa markaðar.
Er lagasetningar þörf?
En er það svo? Nei, síður en svo. Ég tel lögmál hins frjálsa markaðar miklu merkilegri en svo að þau hafi þær afleiðingar að góður markaður breytist í lélegan vegna undirboða, eins og viðgengist hefur í sölu á ferskum fiski frá Íslandi á sl. mánuðum. Hinn frjálsi markaður lítur einnig siðalögmálum sem menn hafa því miður lítt haft í heiðri. Framkoma sem helgast af siðblindu hefur hins vegar leitt til þess að hafin er umræða um siðferði á hinum frjálsa markaði. Alltítt er að markaðurinn afgreiði hina siðlausu með skilaboðum um að þeir séu ekki á réttri braut. Þegar það hins vegar gerist að siðblindan grasserar beggja vegna borðsins er illt í efni og fátt annað hægt en grípa til reglna á grundvelli lagasetningar.
Forsætisráðherrann sýnir gula spjaldið
Nýlegt upphlaup hér í þjóðfélaginu sýnir að hægt er að ofbjóða stjórnvöldum, þótt þau séu fulltrúar hins frjálsa markaðar. Upp úr sauð hjá forsætisráðherra eins og alkunnugt er, hann gekk fram fyrir skjöldu og sýndi forystu Búnaðarbanka Kaupþings gula spjaldið. Hvort forsætisráðherra líti svo á að hið meinta agabrot á hinum frjálsa markaði knýi á um lagasetningu er erfitt að segja til um, en komið hefur fram að í Fjármálaeftirlitinu sé hafin vinna við að skoða hvort ástæða sé til að færa í letur óskráðar reglur um siðferði innan hlutafélaga. Gult spjald til forystunnar gæti því hafa þýtt rautt á öðrum sviðum. Svona verður ekki liðið og úr því markaðurinn ræður ekki við svona háttsemi verður að setja reglur með stoð í lögum til að koma í veg fyrir að slíkar uppákomur endurtaki sig.
Fordæmið úr saltfisksölunni
Mér verður nú hugsað til þess tíma þegar við bjuggum við einokun í sölu á saltfiski. Salan var á einni hendi, SÍF sá um hana og stóð sig allvel í sölumálum. Markaðurinn var traustur þar sem gríðarlegum fjármunum hafði verið varið í markaðsstarf. Kaupendum fannst það hins vegar gremjulegt að ekki væri hægt að fá fiskinn keyptan af einhverjum öðrum á Íslandi, bæði með það fyrir augum að geta keypt meira magn og að lækka kostnað við innkaup. Þróun markaðarins leiddi til þess að sala var gefin frjáls á sölu saltfisks, fjölmargir söluaðilar spruttu upp í kjölfarið og hófu samkeppni í traustu umhverfi. Margir álíta að þetta hafi leitt til þess að markaðurinn hafi stækkað og ýmsar nýjungar í verkunaraðferðum orðið til. Áhættan varð dreifðari og flestir á því að vel hafi tekist til. Við skulum þó hafa í huga að umhverfið sem saltfiskurinn var í borið saman við ferska fiskinn er gjörólíkt. Annars vegar áratuga rótgróið umhverfi og hins vegar umhverfi sem er að byggjast upp stútfullt af harðri samkeppni, þar sem enginn er annars bróðir í leik.
Stöldrum við
Það er skoðun mín að sú staða sem nú er komin upp í sölu á ferskum fiski kalli á að menn staldri við, hafi ákveðin siðalögmál í hávegum og standi saman í þeim þrengingum sem nú dynja yfir og ekki sér fyrir endann á. Ábyrgðin er mikil því það sem tekið er úr auðlindinni er sameign okkar allra sem ákveðnum aðilum er treyst til að nýta þannig að það skili landi og þjóð hámarksarði.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda.