Fyrir stuttu birtist eftirfarandi grein eftir Davíð Kjartansson, smábátaeiganda í Hnífsdal, í Fréttablaðinu:
Ástæða þessa pistils eru ummæli forstjóra Samherja, Þorsteins Más Baldvinsonar, sem hann hefur viðhaft undanfarna daga. Í þeirri orrahríð sem staðið hefur langtímum saman um málefni smábátaútgerðarinnar hef ég reynt að sýna umburðarlyndi, en nú gekk algerlega fram af mér. Ummæli forstjórans bera vott um mikla málefnafátækt og lítilsvirðingu gagnvart smábátaeigendum og ég átta mig ekki á því hvert hann vill leiða umræðuna um línuívilnun. Í mínum huga er kosningaloforð nokkuð sem á að standa við þó vitaskuld sé ekkert að því að stunda gagnrýna umfjöllun á málefnalegum forsendum.
En ummæli Þorsteins slógu mig mikið og fengu mig til að setja á blað hugrenningar sjómanns sem gerir út smábát í því umhverfi sem lög gera ráð fyrir í dag, með öllum kvótakaupum og tilheyrandi.
Mig svíður mjög að sitja undir því að Þorsteinn geti leyft sér að gera lítið úr því hráefni sem smábátar færa að landi og finna því allt til foráttu eins og hann hefur nú gert. Við smábátaeigendur erum í matvælaiðnaði, rétt eins og hann. Við þurfum að borga okkar kvótaskuldir með fiskunum sem við veiðum, rétt eins og hann. Okkar hagur er að gera sem mest úr því sem við öflum og það er staðreynd að hráefnið af smábátaflotanum hefur verið notað til vinnslu á fokdýra markaði erlendis sem ekkert voru nýttir fyrir fáum árum. Er eitthvað minna um vert að viðhalda framboði á þessa markaði en þá sem Samherji er að þjónusta?
Mig langar til að benda Þorsteini á að smábátaflotinn byggðist hratt upp á Vestfjörðum í kjölfar þess að stór hluti kvótans í aflamarki fór héðan fyrir fáeinum árum. Ég ætla ekki að útlista það allt saman hér, það er liðin tíð.
Hin gjörbreytta staða sem skapaðist í kjölfarið knúði marga menn og konur til að leita allra hugsanlegra möguleika til að halda áfram að sækja sjóinn. Leiðin sem fannst og farin hefur verið – útgerð smábáta – eru langt frá því að vera gefins eins og sumir virðast álíta. Það er því óþolandi að sitja undir þeim neikvæðu og alröngu ummælum að við fáum allt fyrir ekki neitt.
Það þurfa fleiri að lifa í þessu landi en Samherji og ekki dettur mér til hugar að falla í sömu gryfju og Þorsteinn Már og reyna að finna hans stórútgerð allt til foráttu. Það væri stórt skref í rétta átt að leggja af þann hvimleiða ósið að ólmast á öðrum til að draga fram eigið ágæti.
Davíð Kjartansson
smábátaeigandi í Hnífsdal