Samstaða um sjómannaafslátt rofin af LÍÚ?

Það fór ekki fram hjá landsmönnum að allt ætlaði um koll að keyra þegar alþingismenn ræddu um línuívilnun. Það kom mörgum á óvart að Landssamband smábátaeigenda skyldi lýsa andstöðu sinni við frumvarpið. Fyrir því voru þó ærnar ástæður þar sem frumvarpið var meingallað. Það gerði ráð fyrir að línuívilnun næði aðeins til dagróðrabáta þar sem beitt væri í landi, ívilnun í þorski ætti að dragast frá veiðiheimildum annarra, línuívilnunarprósenta of lág auk þess að ná aðeins til þriggja tegunda og að línuívilnun kæmi í stað byggðakvóta. (sjá nánar umsögn LS: https://smabatar.is/wp-content/uploads/documents/frettir/12-12-2003/151.shtml )
Það kom hins vegar engum á óvart að stórútgerðin mundi leggjast gegn línuívilnun. Aftur á móti sætti það nokkurri undrun að sjómannaforystan mundi styðja allar gerðir stórútgerðarinnar og það í einu og öllu. Svo mikil var eindrægnin að forysta sjómanna lét sig ekki muna um að sýna sjávarútvegsnefnd Alþingis sömu lítilsvirðingu og stórútgerðin þegar samtökin gengu út af fundi nefndarinnar. Lét nærveru forsvarsmanna Landssambands smábátaeigenda verða til þess að hunsa boð nefndarinnar um að koma sjónarmiðum sjómanna á framfæri og svara spurningum htv. nefndar. Að sögn kunnugra er það einsdæmi að aðilum sem boðið er að koma skoðunum sínum á framfæri við fastanefnd Alþingis skulu tjá sjónarmið sín með þessum hætti.

En eitt tekur við af öðru.

Sjómannaafslátturinn er enn og aftur kominn á dagskrá Alþingis og nú er dagskipunin einföld, sjómannaafsláttur skal afnuminn. Fjölmörg sjómannafélög héldu aðalfundi nú um áramótin og alls staðar kvað við sama tón, kröftug mótmæli við öllum hugmyndum um afnám sjómannaafsláttar. Landssamband smábátaeigenda tekur undir þessar ályktanir og minnir á að félagið hefur ávallt mótmælt harðlega öllum tillögum sem fram hafa komið um skerðingu á sjómannaafslætti. Í umsögn LS frá 9. apríl 2002 við frumvarpi Péturs Blöndals og Katrínar Fjeldsted um skerðingu á sjómannaafslætti segir m.a.: „Landssamband smábátaeigenda er andvígt efni þessa frumvarps og mótmælir því harðlega. Málefnið hefur margoft komið til umræðu á fundum smábátaeigenda og samþykktir gerðar. Þær hafa allar verið á einn veg“, harðorð mótmæli við öllum hugmyndum sem lúta að skerðingu á sjómannaafslætti. Í umsögninni voru taldar upp þrjár röksemdir fyrir því hvers vegna sjómenn ættu að njóta sérstaks skattaafsláttar:
„1. Á sjó er hærri slysatíðni en í öðrum starfsstéttum, tryggingar víðtækari og iðgjöld hærri. Benda má á síðustu kjarasamninga þess eðlis sem skyldar sjómanninn að vera með altryggingu á sjálfan sig.
2. Sjómenn eiga erfiðara en aðrar starfsstéttir með að aðlaga sig að öðrum störfum.
3. Sjómenn njóta ekki fulls aðgengis að opinberri þjónustu.“

Áður en leiðari Útvegsins, fréttabréfs LÍÚ, var lesinn hélt undirritaður að um ekkert málefni ríkti jafngóð samstaða hjá aðilum í sjávarútvegi og að standa vörð um sjómannaafsláttinn. Í leiðaranum kveður við annan tón. Orðrétt segir: „Megin rökin fyrir sjómannaafslætti eru þau að vegna langra fjarvista nýta sjómenn ekki þá samfélagsþjónustu, sem skattfé stendur straum af, í sama mæli og aðrir landsmenn. Það er því óeðlilegt að sjómenn á dagróðrabátum, hafnsögumenn og línubeitningamenn í landi1) njóti sjómannaafsláttar, enda á röksemdin um fjarvistir ekki við um þá.“
1) innskot öp: skilyrði að þeir séu hlutaráðnir og njóta þá sjómannaafsláttar fyrir þá daga sem þeir eru ráðnir við slík störf samkvæmt skriflegum samningi um hlutaskipti.

Skrif þessi dæma sig sjálf.

Því verður vart trúað fyrr en á reynir að LÍÚ ætli að rjúfa þá samstöðu sem ríkt hefur hjá aðilum í sjávarútvegi um að standa vörð um sjómannaafsláttinn í núverandi mynd.

Örn Pálsson framkvæmdastjóri
orn@smabatar.is

Sértæk úthlutun til krókaaflamarksbáta í ýsu