Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út eftirfarandi reglugerð:
Reglugerð
um línuívilnun.
1. gr.
Frá og með 1. febrúar 2004 til og með 31. ágúst 2004 má við línuveiðar dagróðrabáta í einstökum ferðum landa 16% umfram þann afla í ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Heimild þessi er bundin eftirfarandi skilyrðum:
1. Að línan sé beitt í landi og ekki séu önnur veiðarfæri um borð í bátnum.
2. Að bátur komi til löndunar í höfn þeirri þar sem línan var tekin um borð innan 24 klukkustunda frá því að haldið var til veiða úr þeirri höfn.
3. Að sjálfvirkt tilkynningarkerfi bátsins sé virkt.
4. Að skipstjóri tilkynni um upphaf og lok veiðiferðar skv. 2. gr.
5. Að við skráningu afla í löndunarhöfn, í aflaupplýsingarkerfið Lóðs, komi fram, að veiðarfæri í tiltekinni veiðiferð hafi verið landbeitt lína samkvæmt upplýsingum skipstjóra.
2. gr.
Skipstjóri skal tilkynna Fiskistofu um upphaf veiðiferðar áður en lagt er úr höfn. Telst veiðiferð hafin þegar tilkynning er send. Skipstjóri skal einnig tilkynna Fiskistofu þegar komið er til hafnar til löndunar. Tilkynningar skal senda í gegnum Símalínu, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu. Í tilkynningu skal koma fram frá hvaða höfn bátur rær sbr. 2. tl. 1. gr.
Línuívilnun reiknast aðeins á þann afla sem endanlega er vigtaður hér á landi samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 8-19-522, um vigtun sjávarafla, með síðari breytingum.
3. gr.
Sjávarútvegsráðherra getur ákveðið hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar og að frá og með ákveðnum degi skuli afli í þessum tegundum reiknast að fullu til aflamarks.
4. gr.
Reglugerð þessi er gefin út með stoð í 10. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, sbr. lög nr. 147, 20. desember 2003 til að öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda 1. febrúar 2004.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 12. janúar 2004.
Árni M. Mathiesen / Jón B. Jónsson
Reglugerð um línuveiðar felld úr gildi”