Norskir strandveiðimenn ómyrkir í máli

Í fréttatilkynningu frá Norges Kystfiskarlag, Samtökum norskra strandveiðimanna, undir fyrirsögninni „Skemmdarverk togveiða verður að stöðva“ eru þau afar ómyrk í máli. Tilkynninguna sendu samtökin frá sér í kjölfar þáttarins um brottkast sem sýndur var í norska sjónvarpinu nú fyrir skemmstu og birtist hér þýdd orðrétt:

„Togveiðar með þeim hætti sem þær eru stundaðar í dag eru bein ógnun við fiskistofnana og lífsafkomu strandbyggðanna. Þessa glæpastarfsemi verður að stöðva undir eins, segir Geir-Olaf Sörensen framkvæmdastjóri samtaka norskra strandveiðimanna. Hann vill meina að stjórnvöld verði að hafa kjark í sér til að taka frumkvæði að algjörri umbyltingu á norskri fiskveiðistefnu. Samtök norskra strandveiðimanna krefjast þess tafarlaust að fá vitneskju um til hvaða aðgerða sjávarútvegsráðuneytið hyggst grípa til að stöðva þessa glæpastarfsemi.

Norska ríkissjónvarpið NRK 1 sýndi þriðjudaginn 17. 2. 2004 í fréttaþættinum Brennpunkt, þátt sem bar heitið “Veiðarnar og þögnin”. Í þættinum voru færðar sönnur á það brottkast smáfisks sem tog- og úthafsveiðiflotinn stundar, eftir að hafa sópað hafsbotninn með stórtækum veiðarfærum sínum.

Samtök norskra strandveiðimanna eru þeirrar skoðunar að togveiðar Norðmanna sem og annarra séu stundaðar með þeim hætti að þær séu beinlínis ógnun við fiskistofna og þau byggðarlög sem byggja afkomu sína á auðlindum hafsins.
-Við erum stöðugt að sjá umfjallanir í fjölmiðlum sem færa sönnur á það hvernig miklu magni smáfisks er ýmist kastað eða spúlað fyrir borð. Það eru dæmi þess að menn leggi gúmmímottur í trollin til að smáfiskurinn sleppi ekki í gegn auk þess sem sumir veiða á löglegan hátt með svo smáum möskvum að ekkert sem kemur í trollið sleppur út, ekki einu sinni smáseiði. Menn kasta sérstaklega til að auka “meðafla”. Ef ekki tekst að stöðva þessa eyðileggingu auðlindanna verður með öllu að banna togveiðarfæri. Þetta sagði Geir-Olaf Sörensen er hann var inntur álits á efni þáttarins.

Samtök norskra strandveiðimanna vilja algjöra stefnubreytingu í norskum sjávarútvegi til að tryggja afkomu fiskistofna og komandi kynslóða í sjávarbyggðunum.

Í áraraðir hefur á kerfisbundinn hátt verið fækkað í strandveiðiflotanum á þeim forsendum að það sé nauðsynlegt til verndunar nytjastofna. Á grundvelli ákvörðunar Stórþingsins er þegar byrjað að rífa strandveiðibáta sem stundað hafa umhverfisvænar veiðar. Eins og kringumstæðurnar eru í dag upplifa norskir strandveiðimenn að þeim sé nánast ókleift að stunda sína vinnu. Að mati Sörensen er þetta röng pólitík.
-Norðmenn ættu að hafa þor til að vera fyrirmynd annarra í fiskveiðum, með því að byggja upp sjálfbærar veiðar samkvæmt hefðbundnum vistvænum veiðiaðferðum hagkvæmra strandveiðibáta, jafnframt því sem togveiðar og aðrar veiðiaðferðir sem hreinlega hafa skemmdarverk í för með sér verði háðar mun strangari skilyrðum en raunin er í dag.

Það er einkar sársaukafullt að horfa upp á hvernig þjarmað er að strandveiðiflotanum með ströngum reglugerðum varðandi veiðistjórnun og samsetningu flotans auk þess sem mönnum er þröngvað til hálfgerðrar sjálfseyðingar flotans sem kostuð er með úreldingargjaldi úr eigin vasa um leið og fiski er fleygt í stórum stíl, segir Sörensen.“