Fyrstu niðurstöður úr togararallinu gefa ekki tilefni til húrrahrópa

Hér fer útdráttur úr fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar um
stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum 2004 – togararalli. Tekið
er fram í fréttatilkynningunni að um fyrstu niðurstöður sé að ræða.

„Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (togararall) fór fram í 20. sinn dagana 1.-21. mars s.l. Fjórir togarar voru leigðir til verkefnisins: Páll Pálsson ÍS 102, Ljósafell SU 70, Brettingur NS 50 og Bjartur NK 121. Alls var togað á 541 rallstöð allt í kringum landið. Aldursgreiningu fiska og úrvinnslu gagna er ekki lokið en hér á eftir er stutt samantekt á þeim niðurstöðum sem liggja fyrir.

Hitastig
Hitastig sjávar umhverfis landið var með því hæsta sem hefur mælst frá upphafi stofnmælingarinnar árið 1985 og hefur aðeins mælst hærra árin 1996 og 2003.

Þorskur
Stofnvísitala þorsks hækkaði um 25% frá mælingunni árið 2003 sem er ekki fjarri því sem gert var ráð fyrir. Óvissan í mælingunni er hins vegar mun meiri en 2003, þar sem mikið fékkst af þorski á svæðum þar sem stöðvanetið er frekar gisið, oft nálægt jöðrum athugunarsvæðis eins og sést á 3. mynd.

Líkt og í togararalli 2003 bendir lengdardreifing þorsksins ( 2. mynd) til að árgangur 2002 sé meðalárgangur en árgangur 2001 hins vegar mjög lélegur. Árgangur 2003 virðist vera nokkuð undir meðalstærð. Mest fékkst af þorski djúpt út af Norðausturlandi og inn á Húnaflóa (3. mynd).

Holdafar þorsksins var svipað og árið 2003, þegar það var það lélegasta frá 1993, en þá hófust reglulegar vigtanir á þorski. Loðnumagn í þorskmögum var mikið fyrir norðan land en engin loðna fannst í þorskmögum á svæðinu frá Vík vestur að Ísafjarðardjúpi (4. mynd).

Ýsa
Stofnvísitala ýsu lækkaði um 5% frá árinu 2003 þegar hún var sú hæsta frá upphafi mælinga. Mæliskekkjan í stofnvísitölunni er hins vegar mun minni en árið 2003 sem skýrist af mjög jafnri útbreiðslu ýsunnar. Lengdardreifing ýsunnar bendir til að árgangur 2001 sé lélegur en árgangar 2002 og 2003 mjög stórir, einkum árgangur 2003 sem er talsvert stærri en áður hefur mælst (6. mynd).

Ýsan veiddist allt í kringum land en mest fyrir norðan og suðvestan land (7. mynd). Af árgangi 2003 fékkst mikið á Hornbanka og Kögurgrunni.

Aðrar tegundir
Vísitala steinbíts lækkaði verulega frá fyrra ári og er nú með því lægsta sem hefur sést frá upphafi rallsins. Vísitölur ufsa hækkuðu frá fyrra ári og benda eins og fyrri mælingar til að árgangur 2000 sé nokkuð sterkur. Vísitala skarkola jókst frá fyrra ári og hefur vaxið frá árinu 2001, mest vegna aukningar fyrir norðan land. Hún er þó ekki nema rúm 20% af því sem hún var í upphafi ralls. Af lýsu fékkst meira magn en áður hefur sést en magn lýsu hefur verið að aukast undanfarin ár, væntanlega vegna hækkandi sjávarhita.

Að lokum
Niðurstöður mælingarinnar sem hér eru kynntar til bráðabirgða, eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunarinnar á ástandi nytjastofna við landið. Stofnmælingin í ár gefur svipaða mynd og stofnmælingin 2003 hvað varðar hátt hitastig sjávar og verulegar breytingar á útbreiðslu fjölmargra tegunda þannig að sumar tegundir sem voru áður mest fyrir sunnan land eru nú allt í kringum land. Loðna, sem hefur verið mikilvægasta fæða botnfiska á þessum árstíma fannst hins vegar í mjög litlum mæli fyrir sunnan land.

Þessa dagana stendur yfir frekari úrvinnsla gagna svo sem aldursgreining helstu tegunda. Lokaúttekt á niðurstöðum og tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í byrjun júní.