Fundur boðaður í sjávarútvegsnefnd Alþingis

Fram kemur á heimasíðu Alþingis að fundur verður haldinn í sjávarútvegsnefnd Alþingis í dag kl. 8.30. Á dagskrá fundarins er mál nr. 875 umgengni um nytjastofna sjávar og önnur mál. Fastlega má búast við að málefni sóknardagabáta beri á góma hjá nefndinni, en tæp vika er liðin frá því frestur til að skila umsögnum um það mál var úti.

Í frumvarpi til laga um umgengni um nytjastofna er í 1. gr. frumvarpsins lagt til að ráðherra verði heimilað með reglugerð að afla úr stofnum sem halda sig að hluta í efnahagslögsögu Íslands sé landað erlendis, enda sé eftirlit með löndun afla og vigtun hans talið fullnægjandi.
Í 2. gr. er eftirfarandi lagt til: „Ákveði ráðherra á grundvelli laga um stjórn fiskveiða að fiskur undir tiltekinni stærð eða þyngd teljist aðeins að hluta með í aflamarki skal hann setja reglur um hvernig að frágangi hans um borð í veiðiskipi og vigtun skuli staðið.“

Umsögn LS um frumvarpið var eftirfarandi:
„Í 1. gr. er gert ráð fyrir að koma til móts við þær útgerðir sem að hluta til nýta sínar veiðiheimildir utan efnahagslögsögu Íslands.
LS telur að í athugasemdum við greinina þurfi að koma fram hversu mikið magn þetta hefði verið á undanförnum 3 árum, sundurliðað eftir tegundum, hefði heimildin verið fyrir hendi á þeim tíma. Þannig væri hægt að glöggva sig á hversu mikið umfang þetta er, en með þeim upplýsingum sem koma fram í frumvarpinu er ekki um slíkt að ræða.
Þar til þessar upplýsingar liggja fyrir treystir LS sér ekki til að taka afstöðu til 1. greinar frumvarpsins.

Í 2. gr. er lagt til að skilgreiningu á undirmálsfiski verði breytt þannig að auk þess að miða hann við tiltekna lengd verði einnig heimilt að miða við þyngd hans.
Það er líkt og í 1. gr. þannig að hægt sé að taka afstöðu til frumvarpsgreinarinnar vantar upplýsingar um hvaða ástæður liggja að baki breytingunni. Einnig að sýnt verði með tölum hversu mikið magn er um að ræða hefði greinin komið til framkvæmda 1. september 2002.“

Fundur í Snæfelli – líflegar umræður um sóknardagakerfið”