Það hefur verið beðið með nokkrum spenningi eftir fyrstu fréttum frá Nýfundnalandi varðandi upphaf grásleppuveiðanna þar. Vertíðin hófst í byrjun vikunnar, en vart höfðu menn komið netum í sjó þegar á skall snarvitlaust veður. Í örstuttu hléi notuðu veiðimenn tækifærið og drógu allt upp að nýju. Enginn var veiðin og því tefst einhverja daga til viðbótar að fá úr því skorið hvort breyting hafi orðið á ástandi grásleppustofnsins við Nýfundnaland.
Á árinu 2000 hrundu veiðarnar þar gersamlega, en hafa sigið lítillega uppá við síðan. Þær hafa þó hvergi komist nálægt því sem var fyrir hrunið, en í hálfan annan áratug veiddu Nýfundnalendingar manna mest af grásleppunni og tóku þar forystuhlutverkið af Íslendingum.
Noregur svipaður og í fyrra
Vertíðin í Noregi er lítið eitt lakari en í fyrra. Í lok átjándu viku voru komin 217 tonn af blauthrognum í land, samanborið við 235 tonn á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er því um 8%. Norges Råfisklag, sem hefur tögl og haldir í sölu- og verðlagningamálum samdi fyrir vertíðina um talsvert lægra verð en það sem þá þegar var til staðar á Íslandi. Munurinn er um 20%,eða 358 kr. kílóið af blauthrognum í Noregi á móti 452 kr. hérlendis. Nú hefur hins vegar einn kaupandi í Finnmörku hækkað verð til sinna manna umtalsvert, eða í 455 kr.
Góð veiði á Grænlandi
Engar aflatölur hafa borist frá Grænlandi, en fréttir herma að veiðin sé góð og búist við meiri veiði en í fyrra, sem þó var metár.