Föstudaginn 28. maí sl birtist eftirfarandi grein í Fiskifréttum eftir Arthur Bogason, undir fyrirsögninni ‘Afarkostir’:
Landssamband smábátaeigenda hefur til margra ára barist fyrir því að fest verði í lög að sóknardögum í handfærakerfi smábáta geti ekki fækkað endalaust. Á árinu 1996, þegar samningar náðust um kerfið við þáverandi sjávarútvegsráðherra, Þorstein Pálsson, var kerfið stillt á 84 daga. þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir var ráðherrann ófáanlegur til að festa þessa ósk í lög – að sinni. þess í stað var sett inn reikniregla sem var svo harkaleg að ári síðar blasti við að dagarnir yrðu 23, en eftir þjark og þras féllst ráðherrann á að fjölga þeim í 40.
Árið á eftir áttu þeir að reiknast niður í 9, en tölunni var lyft í 23 og í nokkur ár stóð sú tala óbreytt, að undangengnum fundarhöldum með ráðherra.
„Umframkeyrslan“
Hörðustu andstæðingar þessa kerfis hafa ítrekað haldið því fram að ‘umframkeyrsla” þessara báta í fiskveiðunum skipti tugum þúsunda tonna og því væri réttast að banna þeim veiðar í allt að tvo áratugi. Þessi framsetning felur í sér þá ásökun að þetta “athæfi” sé ígildi lögbrota, svo alvarlegra að það kalli á ígildi refsinga, þyngri en lífstíðarfangelsis hérlendis.
Ég rifja þetta upp til að benda á þá staðreynd að stjórnvöld vissu mætavel, strax í upphafi, að aflinn í þessu kerfi yrði aldrei í samræmi við aflareynsluna sem að baki bjó. Sú var höfuðástæðan fyrir því að kerfið varð til því ella hefði aðeins eitt gerst: Nánast allur þessi floti hefði farið í gjaldþrot og horfið af sjónarsviðinu. Á því höfðu stjórnvöld lítinn áhuga, þótt einhverjir kunni að hafa sofið brosandi undir slíkum draumförum.
Viðurkenning stjórnvalda
Það eitt að sóknardagakerfið var sett á laggirnar var viðurkenning stjórnvalda á því að bátarnir mættu veiða umfram aflareynslu. Þessi viðurkenning hefur síðan verið staðfest árlega, allar götur síðan, því aflinn í kerfinu hefur aldrei verið nálægt hinni upphaflegu viðmiðun.
Sú framsetning andstæðinga kerfisins að þessi ‘umframkeyrsla” hafi ‘tafið fyrir” uppbyggingu þorskstofnsins er enn furðulegri. Þessir sömu aðilar minnast aldrei á þær tugþúsundir tonna sem ýmist þeir sjálfir hafa tekið sér, með allkyns innbyggðum reikniformúlum í kvótakerfinu, eða að þær stærðir sem standa “utan kerfisins” (Hafró afli, afli erlendra ríkja o.sv.frv) tefji nokkuð þar fyrir. Gullfrasinn þeirra “að fiskur sé jafndauður, hvernig sem hann er veiddur” er því ekki án undantekninga, þegar betur er að gáð.
Ekki ný aðferðafræði
Þessi aðferðafræði, að leyfa veiði umfram aflareynslu, er þekkt allt frá því kvótakerfið kom til sögunnar 1984. Allt til ársins 1991 var keyrt á tvennskonar fyrirkomulagi, þar sem sóknarmark og aflamark tókust á. Þeir sem völdu hið fyrrnefnda gátu veitt umfram aflareynsluna – og fengu umbunað fyrir það í ársbyrjun 1991. Jafnvel var dæmi um togara sem um nokkurra ára skeið var eingöngu notaður sem bæjarprýði en fékk myndarlega úthlutun vegna þessa.
Ég hygg að í gegnum tíðina hafi stjórnvöldum gengið það til að reyna með þessu að sætta ólík sjónarmið og lágmarka ófriðinn innan greinarinnar. Önnur aðferð, sem reyndar er líka jafngömul kvótakerfinu, er að gefa mönnum val milli ólíkra veiðikerfa. Sú var einmitt staðan sem ætla mætti að upp væri komin varðandi það frumvarp sem sjávarútvegsráðherra kynnti fyrir skemmstu varðandi sóknardagakerfið.
Frumvarp ráðherrans
Frumvarp ráðherrans er víðsfjarri þeirri línu sem hann var að vinna með í samvinnu við Landssamband smábátaeigenda. Á öllu því tímabili sem viðræður milli LS og hans stóðu yfir um úrlausn þessara mála, glitti aldrei í þær fyrirætlanir sem birtast í frumvarpinu – þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Ég ætla að hafa sem fæst orð um þennan aðdraganda að sinni.
Þetta var sá raunveruleiki sem LS stóð frammi fyrir í byrjun vikunnar. Sem félagasamtökum var LS því skylt að reyna til hins ítrasta að gera það skársta sem hægt væri, úr því sem komið var. Það segir sig sjálft að úr vöndu var að ráða standandi frammi fyrir tveimur afarkostum. Annars vegar að fá yfir sig lög sem myndu rústa gólflausu sóknardagakerfinu algjörlega á fáum árum og jafnframt skammta mörgum þeim smábátaeigendum sem kysu að skipta um kerfi óviðunandi krókaaflahlutdeild. Hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd að pólitískan vilja skorti til þess að bjarga dagakerfinu og reyna því að bæta krókaaflahlutdeild þessara manna frá því sem áður var áformað í frumvarpinu.
Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og íslensk stjórnvöld leggja ofurkapp á að loka fiskveiðikerfinu berast þær fréttir frá frændum vorum Færeyingum að þeir ætli sér að gefa veiðar minnstu bátanna frjálsar. Ólíkt hafast menn að.