Á þeirri viku sem liðin er frá því Alþingi samþykkti að sóknardagabátum yrði úthlutaður kvóti í krókaaflamarki, hefur mikið verið hringt á skrifstofu LS. Flestir eru eigendur sóknardagabáta sem eru að leita upplýsinga um hversu miklar veiðiheimildir þeir muni fá. Í framhaldi af því er velt vöngum yfir því hvernig hægt verði að ná endum saman með veiðiheimildir sem eru t.d. þriðjungi lægri en aflað var á sl. ári. Þar eru nefnd atriði eins og að lækka megi útgerðarkostnað, auknir möguleikar á hærra aflaverðmæti samfara því að róa megi á hvaða tíma sem er á árinu, betri tími gefist til að vanda aflameðferð, verðmerkja veiðisvæði eftir stærð fisksins, auk fjölmargra annarra atriða. Ekki hægt að merkja neina uppgjöf í mönnum þó staða sumra sé vissulega erfið.
Þá má búast við að þeir sem eiga nú einnig línubát í krókaaflamarki muni einbeita sér að línuútgerðinni, en aðrir halda áfram á handfærum þar sem veiðiheimildir gefi vart möguleika á að hefja línuútgerð.
Í sjávarútvegsráðuneytinu er nú unnið að smíði reglugerðar sem búast má við að verði gefin út innan skamms.