Norskir smábátaeigendur í mál við ríkið

Það er víðar en á Íslandi sem ósætti ríkir um gildandi leikreglur um aðgengið að fiskimiðunum og stjórnun veiðanna. Öllum eru kunnug málaferli hérlendis þar sem reynt hefur á lögin um stjórn fiskveiða og hvort þau samræmist stjórnarskránni. Öruggt má telja að íslenskir dómstólar eiga eftir að glíma enn frekar við mál af því tagi í náinni framtíð.

Í Noregi deila menn ekki síður um leikreglurnar í fiskveiðunum og fyrir skömmu var norska ríkinu stefnt af tveimur smábátaeigendum í Norður – Noregi. Málatilbúnaðurinn og rökin minna mjög á það sem gengið hefur á hérlendis.

Skírskotað í gömul lög

Smábátaeigendurnir telja sér gróflega mismunað hvað varðar réttinn til fiskveiðanna og benda máli sínu til stuðnings á klásúlur í norskum lögum um réttinn til fiskveiða, en þeim lögum er haldið sér og ekki í samkrulli við lög um fiskveiðistjórnun. Í þessum lögum mun standa að rétturinn til fiskveiðanna sé almennur réttur og hafi strax til forna, eða í lögum síðan 1775, verið skilgreindur sem ‘ytri almenningur’.

Fram til ársins 1990 var rétturinn til að taka þátt í fiskveiðunum ekki takmarkaður, nema hvað fjöldi togara hefur verið takmarkaður um áratuga skeið.
Ef sótt var um leyfi til hefðbundinna strandveiða með handfæri, línu eða netum, fékkst leyfið. Þeir sem leyfin fengu máttu veiða tiltekið magn og var það ákveðið með tilliti til lengdar bátanna. Þessir kvótar voru með öllu óframseljanlegir.

Tvískipt kerfi frá 1990 – aflamark og sóknarmark

Árið 1990 var byrjað að takmarka fjölda leyfanna og nýtt tvískipt kerfi tekið upp fyrir strandveiðiflotann.
Annars vegar er um að ræða fastan kvóta sem taka má hvenær sem er á árinu (‘Grúppa 1′). Kvótarnir eru sem fyrr miðaðir við lengd bátanna og mátti t.d.’grúppan’ upp að 7 metra lengd veiða 18 – 20 tonn af þorski á síðasta ári. Alls veiða um 3000 bátar undir þessu fyrirkomulagi.

Hins vegar er heildar ‘pottur’ þar sem hver veiðir sem hann getur meðan potturinn endist (‘Grúppa 2’).
Í þessum flota hefur stanslaust fjölgað, vegna skilyrðanna sem sett voru í upphafi fyrir því að komast í Grúppu 1. Þau voru þess eðlis að á einu af árunum 1987 – 1989 þurftu bátarnir að hafa veitt tiltekið magn af þorski til að sleppa þar inn. Þeir sem ekki uppfylltu þær kröfur fóru sjálfkrafa í Grúppu 2.

Ekki hægt að neita um aðgang

Vegna ákvæðanna í lögunum um réttinn til fiskveiðanna, þar sem m.a. segir að hafi einstaklingur verið sjómaður í 2 ár af síðustu 5 er ekki hægt að neita honum um leyfi í Grúppu 2. Þetta þýðir að stöðugt þrengir að þeim sem þar eru fyrir og svo komið að 5000 bátar hafa heildarpott nú um stundir uppá 0-7-13 tonn af þorski eða 2,7 tonn á bát.

Smábátaeigendurnir, sem báðir eru atvinnumenn, annar síðan 1956, hinn síðan 1994 eru báðir í Grúppu 2. Þeir hafa árangurslaust sótt um leyfi til sjávarútvegsráðuneytisins að fá leyfi í Grúppu 1 þar sem möguleikar þeirra á að halda úti bátunum hafa nánast orðið að engu. Ekki bætir úr skák að í upphafi þessa tvískipta kerfis voru ekki takmarkanir á ýsu- og ufsaveiðum, en þær veiðar hafa nú að auki verið settar undir sama fyrirkomulagið og þorskurinn.

Eins og sagði í upphafi er hér margt sem minnir á atburðarásina hérlendis. Það er lögfræðistofa í Bergen sem rekur málið fyrir hönd smábátaeigendanna og eftir því sem næst verður komist hefur norska ríkið hvað eftir annað beðið um frest í málinu.