Aðalfundur Kletts – Pétur Sigurðsson endurkjörinn formaður

Félagsmenn í Kletti fjölmenntu á aðalfund félagsins sem haldinn var sl. sunnudag. Fundurinn var líflegur og afar efnismikill. Klettur fundur.jpg Fundarmenn þóttu sýna einstakt fundarþrek, þar sem fundurinn stóð í 9 klukkustundir. Fjölmargar ályktanir voru samþykktar og fengu flestar þeirra ítarlega umræðu.
Grásleppumál voru að vanda nokkuð fyrirferðamikil. Fram kom í erindi framkvæmdastjóra LS að þó veiðin hjá íslenskum grásleppuveiðimönnum hefði dregist saman um 900 tunnur milli ára hefði heildarveiðin í heiminum aukist um 20%. Þar sem markaður fyrir grásleppuhrogn væri afar viðkvæmur yrði að draga verulega úr veiðum á komandi vertíð til að endurheimta jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.

Helstu ályktanir sem fundurinn samþykkti að beina til aðalfundar LS voru:
Veiðitími á grásleppuvertíð yrði styttur um 10 daga.
Að ekki væri æskilegt að krókaaflamarksbátar fengju netaveiðileyfi.
Að línuívilnun yrði aukin og næði einnig til allra dagróðrabáta.
Að veiðiheimildir til jöfnunar hjá aflamarksbátum yrðu gerðar varanlegar.
Að smábátum á aflamarki yrði tryggður lágmarkskvóti, sambærilegt og gert var við kvótasetningu sóknardagabáta.

Á fundinum bar það til tíðinda að Sigurður Jóhannsson var gerður að heiðursfélaga í Kletti. Myndin hér til hliðar er tekin þegar Pétur Sigurðsson formaður Kletts afhendir Sigurði heiðursskjalið.Klettur heidur.jpg

Stjórn Kletts var öll endurkjörinn, en hana skipa:
Pétur Sigurðsson Árskógssandi formaður
Júlíus Bessason Húsavík ritari
Þröstur Jóhannsson Hrísey gjaldkeri
Þórður Ólafsson Grenivík varaformaður
Sæmundur Ólason Grímsey meðstjórnandi