Rúmlega 120 manns voru við setningu 20. aðalfundar LS sem hófst á Grand hótel í Reykjavík í morgun. Er þetta mesta fjölmenni sem verið hefur við setningu aðalfundar frá stofnun félagsins 1985.
Arthur Bogason, formaður LS flutti setningarræðu sem fylgir hér á eftir. Í lok hennar tilkynnti hann að Skarphéðinn Árnason frá Akranesi hafi verið gerður að heiðursfélaga LS. Skarphéðinn, sem nú stendur á áttræðu hefur starfað óslitið í stjórn félagsins frá stofnun og mætt á hvern einasta stjórnarfund þessi 19 ár.
Að lokinni ársskýrslu framkvæmdastjóra LS, Arnar Pálssonar, ávarpaði sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen fundinn og svaraði fyrirspurnum. Ræða hans og útdráttur úr fyrirspurnum og svörum munu birtast hér á síðunni svo fljótt sem kostur er.
Setningarræða formanns:
Ágætu aðalfundarfulltrúar, hæstvirtur sjávarútvegsráðherra og góðir gestir!
Ég býð ykkur velkomin á 20. aðalfund Landssambands smábátaeigenda.
Frá því við síðast söfnuðumst til aðalfundar hefur, ekki frekar en fyrri daginn ríkt lognmolla á vettvangi félagsins. Við söfnuðumst hér saman og ályktuðum í anda þess að við sæjum í megindráttum hvað framundan væri, með eðlilegum fyrirvörum. Ég fullyrði, að engan okkar grunaði hvernig veður myndu skipast.
Síðasta fiskveiðiár var gjöfult smábátaflotanum. Hann veiddi tæp 67 þúsund tonn sem er þriðji mesti afli sem hann hefur borið að landi. Enn eina ferðina setja aflabrögðin spurningamerki við aðfe232 bátar hafa nýtt sér línuívilnun.
rðafræði fiskifræðinnar og endalausar tilkynningar um þorskstofn í neyð. Fiskifræðin virðst hins vegar þeirrar undarlegu náttúru að ekki má velta við einni einustu steinvölu, hvernig sem mál eru rökstudd.
Á aðalfundinum 2003 voru tvö mál efst á baugi: annarsvegar línuívilnun og hinsvegar lágmarksfjöldi sóknardaga í viðkomandi stjórnkerfi. Við kusum til viðræðna við hæstvirtan sjávarútvegsráðherra þá sem við best treystum til að ná fram okkar markmiðum og við vorum bjartsýnir á að framundan væri lausn áralangra deiluefna. Ekki síst jókst okkur trú á þetta vegna yfirlýsinga yfirvalda sjávarútvegsmála sem drógu hvergi af sér að lýsa vilja sínum til að leiða mál til lykta.
Fyrra málið, línuívilnun, naut mikillar athygli fjölmiðla og hvað þá annarra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi. Svo yfirþyrmandi varð gauragangurinn þegar sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp um málið í desember s.l. að vart heyrðist mannsins mál í landinu um nokkuð annað. Frumvarpið var þó í skötulíki miðað við þær hugmyndir sem menn höfðu gert sér um gjörninginn. Bæði var, að hlutfallið sem línan skyldi njóta var mun lægra en vonir stóðu til en það sem til enn frekari tíðinda verður að teljast – með frumvarpinu hvetja yfirvöld til þess að menn nýti sér síður tækniframfarir við þennan veiðiskap.
Það hlýtur á hinn bóginn að hafa glatt sjávarútvegsráðherra, sem okkur, að þessi fyrsti vísir að beinni ívilnun til ákveðins veiðarfæris skyldi hitta á þetta tiltekna veiðarfæri og þá tímasetningu sem raun varð.
Aðeins fáeinum mánuðum síðar birtust auglýsingar víða í Evrópu frá stærsta fyrirtæki heims í sölu matvara – alþjóðafyrirtækinu Carrefour. Í þessum auglýsingum, sem birtust í kjölfar samninga sem gerðir voru við íslensk fyrirtæki í maí s.l. var því lýst yfir að samstarfsaðilar þeirra á Íslandi stundi eingöngu línuveiðar og þar með stuðli Carrefour að verndun náttúruauðlinda og sjálfbærri nýtingu.
Sjávarútvegsráðherra þykir tæpast verra, ef hann fundar með fulltrúum þessa risafyrirtækis að geta bent á þetta ákvæði fiskveiðilaganna.
En fleira var í pípunum á svipuðum tíma og ekki hitti það allt jafn smekklega í mark.
Þannig skilaði, aðeins mánuði síðar, nefnd nokkur, skipuð af sjávarútvegsráðherra í mars 2003, og af ókunnum ástæðum er kennd við líffræðilega stjórnun fiskveiða, af sér áfangaskýrslu. Í henni er m.a. komist er að þeirri djúpvitru niðurstöðu að rétt sé að meta hvort ekki eigi að leggja niður línuívilnun!
Línuívilunarfrumvarpið olli vonbrigðum og undrun – en allt fölnaði það í samanburði við skrílslæti Landssambands íslenskra útvegsmanna og þeirra félagsmanna. Þar sveittust menn daga og nætur við að reikna þúsundir tonna í tapaðar veiðiheimildir, jafnvel frá einstökum fyrirtækjum, í þá botnlausu hýt sem línuívilnun yrði. Allt hefur það reynst hinn argasti þvættingur. Nú, þegar komin er fram mynd af því hvernig þessi ívilnandi ákvæði laga nýtast – er þá ekki ráð fyrir þessa snillinga að koma nú fram með fyrri útreikninga og sýna svart á hvítu hversu raunsæir þeir voru?
Þótt línuívilunin sé ekki sú búbót sem vonast var til og hugmyndaflug skriffinna í þokkabót virkjað til hins ítrasta í því skyni að gera mönnum eins torvelt að nýta sér hana og mögulegt er, kemur hún sér engu að síður sumstaðar vel. Við skulum hinsvegar ekki ímynda okkur að átökum í kringum þetta fyrirkomulag sé lokið. Stórútgerðin hatast út í það og mun sæta öllum færum til að fá línuívilnun afnumda. Þar á bæ er sú skoðun ríkjandi að engu skipti hvaða veiðarfærum sé beitt til veiðanna.
Þessi afdráttarlausa afneitun gæti átt eftir að koma þessum aðilum – og þjóðinni – í koll og mér varð óneitanlega hugsað til þeirra viðbragða þegar fréttir bárust í lok síðustu viku af því að tillaga um alþjóðlegt bann við notkun botnvörpu sé til umfjöllunar hjá Sameinuðu Þjóðunum. Viðbrögðin komu reyndar strax daginn eftir og fólust m.a. í því að gefa það beinlínis til kynna að veiðar stórra togara með botnvörpu væru ekki stundaðar innan 12 mílna lögsögunnar. Ég spyr: eru ósannindi af þessu tagi fallin til að gera okkur trúverðuga á alþjóðavettvangi?
Það er óumflýjanleg staðreynd, að æ fleiri telja sig þess umkomna að fjalla um málefni hafsins og fiskveiðanna – jafnt af aðilum sem eru til þess prýðilega menntaðir sem og öðrum með fátæklegar upplýsingar og knúna af öllum öðrum hvötum en að vilja hag þeirra bestan sem byggja lifibrauð sitt á fiskveiðum. Við þetta verð ég greinilega var á sviði Alþjóðasamtaka strandveiðimanna, en stundum er líkast því að þessar sjálfskipuðu björgunarsveitir jarðarinnar sem þar knýja dyra hafi ekkert annað fyrir stafni í lífinu en að segja fiskimönnum hversu miklir skaðræðisgripir þeir séu. En það hættulegasta sem við gerum er að vanmeta afl þessa fólks.
Tillagan sem liggur fyrir Sameinuðu þjóðunum er vissulega komin frá smáríki, sem reyndar er 13 sinnum fjölmennari þjóð en Íslendingar, en uppruna tillögunnar má rekja beint til vísindasamfélagsins og umhverfissamtaka. Fyrr á þessu ári rituðu hvorki fleiri né færri en 1100 sjávarlífræðingar undir yfirlýsingu þess efnis að banna skuli notkun botnvörpunnar. Sama er að gerast á sviði CITES sem er fundur aðildarríkja Samningsins um alþjóðleg viðskipti með tegundir dýra og plantna í útrýmingarhættu. Slíkur fundur stendur nú yfir í Thailandi og þar eru að skipast fylkingar með sama hætti og verið hefur í Alþjóða hvalveiðiráðinu.
Frá því Landssamband smábátaeigenda var stofnað hefur hver einasti aðalfundur félagsins skorað á viðkomandi stofnun og stjórnvöld að haska sér í rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra. Árangurinn er harla rýr.
Einu gildir hvort hér um ræðir kæruleysi, hræðslu við niðurstöður eða “þetta reddast” hugsunarganginn, hinn geníska íslenska afgreiðslumáta. Það er snautleg staða hjá þjóð sem telur sig þess umkomna að segja öðrum fyrir verkum í stjórnun fiskveiða, að hún skuli ber af því að hafa dregið lappirnar í jafn mikilvægum þætti rannsókna á lífríki hafsins.
Það er og umhugsunarefni að þau veiðarfæri, sem trúlega er umhverfisvænust allra veiðarfæra – gildrur – eru svo gott sem óþekktar við Íslandsstrendur. Veikburða framtak þeirra sem sjá hið gríðarlega tækifæri sem í notkun þeirra fellst, ekki aðeins til veiða á hefðbundnum tegundum, heldur einnig til að hefja nýtingu á lítt eða ónýttum tegundum við landið, mæta tómlæti þegar skyggnst er bak við fagurgalann um stuðning. Ég vil nota þetta tækifæri til að skora á sjávarútvegsráðherra, að standa nú þegar að myndarlegu átaki til að innleiða gildruveiðar. Það er sannfæring mín að þar sé að finna stærsta ónýtta tækifærið í íslenskum sjávarútvegi.
Það mál sem setti mestan svip á félagsstarfið frá aðalfundi 2003 er vafalaust afdrif sóknardagakerfisins. Til fjölda ára höfðu aðalfundir skorað á sjávarútvegsráðherra að verða við þeirri kröfu LS að festa lágmarksfjölda sóknardaga í því kerfi. Þessar kröfur einkenndust af hógværð, farið var fram á 23 sólarhringa á ári fyrir 300 handfærabáta. Og eins og ég áður sagði – vegna yfirlýsinga sjávarútvegsráðherra sjálfs veit ég að bjartsýni ríkti í okkar röðum að loknum síðasta aðalfundi. Og þrátt fyrir að viðræður við ráðuneytið drægjust svo að ært hefði marga óstöðuga var það mat okkar sem að þeim stóðum af hendi LS að málinu þokaði frekar áfram og næði hugsanlega í höfn með vorinu.
En á sama tíma og við stóðum í þessum viðræðum fór okkur að berast orðrómur utan úr félaginu sjálfu, um að allt annað væri í bígerð varðandi afdrif sóknardagakerfisins. Sönnun þessa má m.a. finna á heimasíðu LS og í fjölmiðlum frá þessum tíma. Við bárum þennan orðróm ítrekað undir sjávarútvegsráðherra, sem afneitaði honum jafnharðan. Það er því vægt til orða tekið að segja að það hafi komið fullkomlega flatt uppá okkur þegar sjávarútvegsráðherra kallaði okkur til fundar við sig 10. maí sl þar sem hann kynnti okkur, munnlega, drög að frumvarpi sem hann hyggðist leggja fyrir Alþingi. Sú kynning var í megin dráttum algerlega samhljóða þeim orðrómi sem dunið hafði á okkur sem í viðræðunum stóðum.
Ég gæti sem hægast haft hér langt mál um hvað mér finnst um þessa atburðarás og það sem á eftir gekk, en ég hygg að það breyti litlu úr því sem komið er. Ég vil hinsvegar að taka eftirfarandi skýrt fram: Við sem vorum í viðræðunum við sjávarútvegsráðherra stóðum að öllum samskiptum við hann og yfirvöld af fullkomnum heilindum. Sú staða sem upp kom í kjölfar framlagningar ráðherra á frumvarpinu setti okkur í mikinn vanda. Það var engu að síður einróma niðurstaða stjórnar LS og okkar, að æðsta skylda forystu félags gagnvart félagsmönnum á hverjum tíma er að gera það besta sem hægt er, að teknu tilliti til aðstæðna. Afdrif sóknardagakerfisins var fjarri því sem við ályktuðum hér fyrir ári og mun kalla eftir svörum við spurningum sem brunnið hafa á okkur til fjölda ára. Hversu lengi höfum við t.d. ekki vonast til þess að aflamarksbátarnir okkar fengju viðunandi leiðréttingar á stöðu sinni? Hvers vegna var viðbáran alltaf sú að “þá yrði að taka af öðrum” en nú, þegar sóknardagabátarnir eru kvótasettir er því lýst yfir að “ekkert verði frá öðrum tekið”. Hefur það reynst rétt? Svari þeir sem gerst vita.
Atburðarásin í aðdraganda þess að sóknardagakerfið var afnumið hefur sannarlega ollið mér vangaveltum um tilgang félags- og réttindabaráttu og hvers við væntum af henni. Ekki er örgrannt um að atburðir síðustu daga gefi heldur betur aukna ástæðu til að huga að grundvallar-spurningum á þessu sviði.
Til hvers stofnum við með okkur félagsskap? Hvers vegna ákveðum við um baráttumál á sameiginlegum fundum, þar sem tekist er á um sjónarmið og vilji meirihlutans ákvarðar leið?
Er það ekki vegna þess að við vitum mætavel að samstaða, einurð og samvinna skilar árangri, en sundrung, baktjaldamakk og ósætti engu? Erum við ekki og með þeim gjörningi að berjast á sameiginlegum grundvelli, að fallast á að virða framgöngu heildarinnar umfram skammtímahagsmuni einstakra aðila? Finnst einhverjum líklegt, að ef LS hefði aldrei verið stofnað, að til væri smábátafloti sem veiðir hátt í tífalt það sem honum var skammtað í ársbyrjun 1984? Er líklegt, að einstaka smábátaeigendur hefðu náð slíkum árangri, þar sem “hver hefði samið fyrir sig” eins og nú heyrist víða í þjóðfélaginu?
Hvað sjávarútveginn varðar, er full ástæða fyrir félagasamtök að hafa af því áhyggjur að skipulögð aðför sé fyrir nokkru hafin gegn því félagslega kerfi sem þar hefur ríkt í áratugi. Birtingarmynd þessarar aðfarar er hin svokallaða Sólbaksdeila. Það mál hefur vakið með mér aðra spurningu sem ég held að fleiri hljóti að fara að spyrja. Í rúma tvo áratugi hefur verið sameinað, hagrætt og endurskipulagt oftar en tölu verður á komið. Þjóðin hefur setið undir endalausum mæringum á því hversu hagkvæmt og arðvænlegt kvótakerfið sé og boðskapurinn fluttur með skipulögðum hætti út um heimsbyggðina sem bergmálar til baka lofsyrði og skjall fyrir framsýni og hugvit Íslendinga. Hvernig stendur á því, eftir alla þessa sameiningu, endurskipulagningu og hagræðingu, að svo gróðavænlegt og hagkvæmt kerfi skilar ekki betri afkomu en svo – og það t.d. hjá einu rótgrónasta útgerðarfélagi landsins – að allt virðist standa og falla með því að sundra félagasamtökum sjómanna? Er árangurinn þá ekki meiri en þetta í raun, eftir rúma tvo áratugi?
En þetta þarf svosem ekki að koma á óvart. Við erum ekki ein í heiminum og getum því litið til annarrs þjóða í þessu sambandi, ásamt því að kynna okkur rannsóknir á því sviði hvernig fyrirtæki fara að haga sér, þegar þau hafa náð ákveðinni stærð. Sé litið til Bandaríkjanna er t.d. ljóst að ýmiss stórfyrirtæki hafa ekki eins mikla andstyggð á neinu eins og verkalýðs- og réttindabaráttu starfsmanna sinna. Þessi hin sömu fyrirtæki hafa jafnvel á sínum snærum deildir manna sem fara sem óðast á staðinn þar sem vart verður við tilhneigingu starfsmanna til að stofna með sér félagasamtök. Þessir aðilar taka viðkomandi einstaklinga á þessu dásamlega “hver fyrir sig” plani og þeir sem ekki gegna eru reknir. Þetta er sú framtíð sem stórfyrirtækin í sjávarútvegi eru nú að óska sér. Þegar áhöfnin á Sólbak talar um frelsi er hún í raun að kalla eftir helsi fyrir frelsi.
Og það er önnur spurning sem við verðum að glíma við þegar við stundum okkar félags- og réttindabaráttu. Hver er sú ábyrgð sem við hljótum að axla þegar við krefjumst þeirra réttinda sem við teljum okkur eiga tilkall til? Við höfum t.d. frá stofndegi LS haldið því hátt á lofti að með öflugri smábátaútgerð sé möguleiki hinna minni strandbyggða betur tryggður en ella. Það er engum vafa undirorpið að yfirvöld hafa m.a. talið þessi rök gild þá þau hafa fært til smábátaflotans veiðiheimildir og það jafnvel í stórum stíl.
Þetta nefni ég sérstaklega vegna þess að í kjölfar sameiningar sóknardagakerfisins við krókaaflamarkið komst sá kvittur umsvifalaust á kreik að sameina ætti kerfið aflamarkinu og þannig stórútgerðinni gert mögulegt að kaupa upp þessar veiðiheimildir.
Við höfum fordæmið ljóslifandi fyrir okkur. Í ársbyrjun 1991 voru yfir 1000 smábátar settir inní aflamarkið. Tæpum fjórum árum síðar voru u.þ.b. 700 smábátar horfnir í gin stórfyrirtækjanna. Það er því deginum ljósara hvað í hönd færi ef krókaaflamarkið yrði sameinað aflamarkinu. Hér berum við því mikla ábyrgð. Það er ekki okkar einkamál hvað við gerum við þær aflaheimildir sem okkur er treyst fyrir. Þær hefðu ekki komið til, ef ekki hefðu fleiri sem komu þar við sögu. Þess ber okkur að minnast.
Landssamband smábátaeigenda stendur á tímamótum. Orka og tími félagsins hefur frá stofnun undantekningalítið farið í baráttu fyrir auknum veiðiheimildum til handa smábátaflotanum. Þeirri baráttu er að sjálfsögðu ekki lokið, en þau vatnaskil blasa engu að síður við að félagsmenn eru nú læstir inní hlutdeildarkerfi og við höfum reynsluna af því hversu mikla þyngra það er undir fæti að þoka til hlutdeildum en tonnum.
Megin verkefni þessa fundar er að leggja línurnar fyrir komandi misseri, þar sem stærð og afl félagsins er virkjað, félagsmönnum til hagsbóta. Af nógu er að taka, t.d. hvað varðar aukna þjónustu og starfsemi félagsins.
Ég vil víkja að málefni sem er mjög nálægt okkur í tíma og brýnt að takast á við nú þegar, en það er staðan í grásleppuveiðunum. Heildarveiðin á liðinni vertíð fór framúr því sem góðu hófi gengdi og við vitum að sjólagið í markaðsmálum grásleppuhrogna er mjög frábrugðið því sem við eigum að venjast við Íslandsstrendur. Þar eru sumsé öldudalirnir firnalangir, meðan topparnir eru ákaflega strýtulaga. Að óbreyttu stefnir í enn einn langan öldudalinn. Nú hlýtur að vera komið að því að við reynum að takast á við þetta með skilvirkari hætti en hingað til. Við höfum á undanförnum árum náð ágætu samstarfi við systurfélög okkar í Noregi og Nýfundnalandi, en á sama tíma hefur það gerst að Grænlendingar hafa orðið gildandi í grásleppuveiðunum og svo komið að þeir hafa alla burði til að verða stærsta þjóðin í þessum veiðum. Það er öllu verra að þeir hafa jafnframt lang minnstu reynsluna af þessu undarlega sjólagi kavíarmarkaðarinns.
Á fundi stjórnar LS í sumar var samþykkt að ritað yrði erindi til félaganna í Noregi, Grænlandi og Nýfundnalandi, í því augnamiði að þessar þjóðir myndu hittast og reyna að finna leið til að veiðarnar færu ekki fram úr þoli markaðarinns. Nú þegar hafa Norðmenn og Nýfundnalendingar brugðist vel við erindinu, en enn er beðið viðbragða frá Grænlandi. Hér eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og mikilvægt að vel til takist. Fari svo, að við komum okkur saman um að “skipta á milli okkar” þeirri veiði sem æskileg er, stöndum við frammi fyrir úrlausn þess hvernig við tökum okkar hlut. Þó það sé síðara tíma mál til ákvörðunar er nauðsynlegt að hér fari fram umræða um þetta stóra mál. Grundvöllurinn fyrir ákvarðanatöku skapast þó því aðeins að allar þjóðirnar gangi samhentar til verks. Eða dettur einhverjum í hug að vænlegast sé að hver fari sínu fram án tillits til annarra?
Þessi 20. aðalfundur LS markar tímamót og á næsta ári verða liðin 20 ár frá því að félagið var stofnað, mitt í orrahríð umræðunnar um fiskveiðistjórnunina. Margir eru þeir sem lagt hafa hönd á plóginn, bæði við stofnun félagsins og svæðisfélaganna, ásamt því að berjast ötullega fyrir þeim málum sem við stöndum fyrir.
Einn er sá siður félagasamtaka að gera einstaklinga að heiðursfélögum, en það er vægt til orða tekið að LS hafi verið spart á slíkar athafnir. Nú verður hinsvegar ekki lengur undan vikist. Þegar fyrsta stjórn LS hélt sinn fyrsta fund voru aðeins tveir á þeim fundi, sem enn sitja í stjórninni. Annar er sá sem hér stendur, en hinn er hér í salnum og vitaskuld enginn annar en hraundrangurinn með gullhjartað, Strandamaðurinn, einnig kallaður Snjómaðurinn, og vinur minn Skarphéðinn Árnason. Að öllum ólöstuðum er Skarphéðinn einhver mesti strigakjaftur sem uppi hefur verið á síðari tímum og óhræddari en nokkur að standa á skoðunum sínum – svo framarlega að einhver sé á móti þeim. Það væri helber lygi að halda því fram að sá gamli hafi alltaf rekist vel í stjórn Landssambandsins. Oftar en ekki hefur hann beinlínis greitt atkvæði á móti í málum þar sem aðrir hafa verið sammála – með þeim orðum að það falli illa að hans skaphöfn að stunda hópefli á fundum. Ég tel mig muna það rétt, að eitt sinn lagði hann fram tillögu, hver hún var man ég ekki lengur, en þegar hann sá að allir voru henni sammála fór hann sjálfur í örvæntingu að tína fram mótrök gegn henni og endaði með því að draga hana til baka.
Það er vandalaust að halda langa tölu um þessa áttræðu sjókempu, sem séð hefur fleira við störf sín en ég óska nokkrum að þurfa að ganga í gegn um.
Hitt er svo annað að ökuhæfileikar hans eru mjög svo dregnir í efa, sérstaklega af þeim sem til þekkja. Af fjölmörgu er að taka, en mér finnst lýsa honum best að einn sinn er hann var að koma akandi af Ströndum norður, í kafaldsbyl og grimmdarfrosti, velti hann bílum, en þó þannig að hann kom aftur niður á hjólin, enn ökufær og á veginum. Byltan braut framrúðuna úr, en það breytti engu. Kempan ók alla leið til Akraness með bylinn og frostið í fangið.
Eftir uppþýðingu hefur Skarphéðinn verið ötull í félagsmálabaráttunni og aldrei er hann betri en þegar á reynir. Þá kemur ósvikin réttlætiskennd hans í ljós og klókindi í bland. Skarphéðinn Árnason, fyrir hönd Landssambands smábátaeigenda, vil ég þakka þér frábæra viðkynningu og samstarf og vil biðja þig að koma hingað til mín og taka við heiðurskjali frá LS, því til staðfestingar að hér með ert þú heiðursfélagi Landssambands smábátaeigenda.
Ágætu fundarmenn. Ég hef alla tíð brýnt tvö megin atriði fyrir ykkur, sem er lykillinn að árangri í réttindabaráttu og félagsmálastarfi. Ég hef hamrað á nauðsyn samstöðunnar og gildi staðfestunnar. Þessi brýning á ekkert síður við nú, nítján árum eftir stofnun Landssambands smábátaeigenda. Ég óska ykkur allra heilla í störfum ykkar á þessum aðalfundi og segi 20. aðalfund Landssambands smábátaeigenda settan.
Reykjavík 14. október 2004
Arthur Bogason, formaður