Aðalfundur LS – ræða Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra

Hæstvirtur ráðherra, háttvirtir alþingismenn!
ágætu aðalfundarfulltrúar og gestir!
Á aðalfundum svæðisfélaga LS nú í haust hef ég skynjað hálfgert eymdarhljóð í ykkur ágætu félagsmenn. Allt hefur hækkað nema fiskverðið, og það ekki einu sinni staðið í stað, heldur lækkað og til að bæta gráu ofan á svart hefur afli á hverja veiðieiningu einnig minnkað. Þegar skoðaðar eru sölutölur áAdalf03.jpg fiskmörkuðum fyrir þremur árum og þær bornar saman við það sem er í dag, blasir raunveruleikinn við.
Frá fiskmörkuðunum:
2. vika september 2001, slægð ýsa, hæsta verð 290, meðalverð 176 kr/kg.
Sami tími 2004, slægð ýsa, hæsta verð 172, meðalverð 101 kr/kg.
Verðið nú aðeins rétt rúmur helmingur af því sem það var 2001.
Ungur maður sem haslaði sér völl í smábátaútgerðinni 2000. Keypti sér þorskkvóta, gekk vel í aukategundunum, þær kvótasettar. Aflaheimildir auknar með kaupum á ýsu og steinbít. Fiskverðið og firnagóður afli gaf vissu um að það var rétt ákvörðun að skella sér í trilluútgerðina. Fullur bjartsýni sýndist honum hann gæti staðið við allar skulbindingar.
En nú rúmu árið síðar: Ég næ varla endum saman þó ég rói einn, beiti allt sjálfur og kaupi nánast enga vinnu mér til aðstoðar. Örn, ætlar LS ekki að krefjast þess að veiðikerfi krókaaflamarksbáta verði breytt þannig að þeir geti fengið sérveiðileyfi sem heimili veiðar í net.
Ég færist undan að skella á hann, neiinu – þetta er of erfitt til að það sé sanngjarnt. Nú, hvaða heimild hef ég svo sem til þess. Aðalfundi er ætlað að móta stefnuna.
Ég hughreisti eldhugann. Allt stenst í þínum plönum, þú fiskar vel, hefur hagkvæmnina í fyrirrúmi, en fiskverðið er eitthvað sem fæstir ráða við. Nú þá er einnig kominn línuívilnun, þú bjargar þér.
Hann kveður mig lítur um öxl og segir: „hvernig var það átti línuívilnunin ekki að vera 20%!

Fjölmörg verkefni bíða þessa aðalfundar. Eitt af þeim hef ég komið hér inn á. Ályktanir frá svæðisfélögum eru ólíkar um það mál, allt frá því að hafa krókaaflamarkskerfið óbreytt, til þess að óskað verði eftir að það verði opnað upp á gátt, heimilað verði að stækka bátana og þeir fái að veiða í þau veiðarfæri sem eigendur þeirra telja hagkvæmast hverju sinni.
Ég er ekki í vafa um að aðalfundur finnur bestu leiðina, það er venjan að menn tala sig að samkomulagi.

Línuívilnun

Á síðasta aðalfundi var mikið rætt um línuívilnun enda málið í brennidepli. Var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, ný lokið stórfundi á Ísafirði og þrýst úr öllum áttum á hstv. sjávarútvegsráðherra að vinda sér í málið og ljúka því. Á tímabili virtist hann ekki á þeim buxunum að leggja fram frumvarp um línuívilnun. Það dróst og það dróst. Allt þar sem að framan er talið ásamt gríðarlegum þrýstingi einstakra stjórnarþingmanna varð þó til þess að hann varð að láta undan síga. Línuívilnun kom til framkvæmda 1. febrúar sl. í ýsu og steinbít og í þorski 1. september. Ljóður var þó á framkvæmd hennar. Svo mikill að vart verður annað sagt en LS hafi aðeins náð fyrsta hluta hennar. Kannski tveimur af þrem þar sem línuívilnun er jú staðreynd. Prósenta þarf að hækka, línuívilnun þarf að ná til allra dagróðrabáta, verði ekki dregin frá öðrum og nái til allra kvótabundinna tegunda. Það er því ærið starf framundan.

Góðir fundarmenn!
Ég er sannfærður um að það hefði verið farsælla fyrir hstv. sjávarútvegsráðherra að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem LS lagði til. Ég er einnig viss um að þegar línuívilnun kemur næst á dagskrá Alþingis verða umræður með nokkrum öðrum hætti en fyrir réttu ári. Rætt verður um línuívilnun sem fiskveiðistjórnunaraðferð sem umbunar vistvænum veiðum, þannig styrkir það fiskveiðistjórnunarkerfið þar sem hægt verður með sanni að halda því fram að það sé innbyggt í kerfið að ívilna vistvænum veiðum. Kerfið beinlínis hvetur til þess að fleiri stundi þess háttar veiðiskap.

Þar sem ég er nú farinn að segja fyrir um ókomna atburði ætla ég einnig að leyfa mér að spá því að innan fárra ára verða fiskifræðingar farnir að leggja til að besta leiðin til að byggja upp þorskstofninn sé að draga úr notkun á botndregnum veiðarfærum við veiðar á þorski. Þau á fyrst og fremst að nota við veiðar á tegundum sem nást ekki með kyrrstæðum veiðarfærum.

Á fundum svæðisfélaganna hafa margir rekið upp stór augu þegar greint hefur verið frá því hversu mikið er búið að nýta línuívilnun 1. tímabils. Nú þegar það er hálfnað hefur aðeins verið nýtt rúmur fimmtungur, 224 tonn af þeim 0-0-1 tonnum af þorski sem gert er ráð fyrir. Það skildi þó aldrei vera að viðmiðunaraflinn hafi verið ákveðinn með tilliti til þess að línuívilnun næði til allra dagróðrabáta þar sem beitt væri eða stokkað upp í landi.
Hvað sem því líður hvet ég ykkur góðir aðalfundarfulltrúar að nota fundinn til að skjóta tillögu okkar til umræðu á Alþingi þar sem þess verður krafist að framkvæmd línuívilnunar verði leiðrétt. Hún gildi fyrir „dagróðarbáta þar sem lína er beitt eða stokkuð upp í landi“. Einnig, eða færi gefst að hún nái til allra dagróðrabáta. Búið er að taka frá þorsk, ýsu og steinbít til þessa og því best að nýta að fullu til veiða með umhverfisvænum veiðarfærum samtímis því að hinar dreifðu byggðir fengju sinn skerf.

Sóknardagakerfið

Annað stórmál sem rekið var af LS á aðalfundarárinu var framtíð sóknardagabáta. Allir sáu að það gat ekki gengið að dögum mundi fækka um 10% á hverju ári. Viðræður sóknardaganefndar LS og sjávarútvegsráðherra hófust vart að neinu marki fyrr en í mars sl. Þá hafði að vísu farið fram nokkur vinna sem miðaði að því að viðhalda sóknardagakerfinu. Koma í veg fyrir aflaaukningu um leið og lágmarksdagafjöldi yrði tryggður.
17. febrúar varð ég fyrst var við að sóknardaganefnd LS var ekki ein á ferð varðandi málefni sóknardagabáta. Símtal þennan dag – ræddum málefni sóknardagabáta. „Söluferli sem hófst í sl. viku var vegna frétta af kvótasetningu.“ sagði viðmælandi minn.
19. febrúar fékk ég svo annað símtal frá eiganda sóknardagabáts. Hann sagðist hafa undir höndum áskorun til sjávarútvegsráðherra um að kvótasetja sóknardagabáta. Leggja upp með að miða við 3 sl. ár og tvö bestu. Fá 80% að þessum tveim bestu árum. Fyrirhugað að setja bréf af stað. Eftir að hafa lesið bréfið fyrir mig, trúði hann mér fyrir því að hann væri niðurbrotinn vegna þessara hugmynda. Það væri verið að kljúfa samstöðuna, mikið og stórt skref afturábak.
Því miður var þetta staðreynd. Eftir á að hyggja sá ég að viðræðurnar voru ekki með sama áhuganum og verið höfðu ári fyrr, það er rétt fyrir kosningar. Þingmenn sem lýstu því yfir að flokkurinn vildi „breytingar án kollsteypu. Spurðu á kosningafundum, Hvað viljum við gera? Svar til eigenda sóknardagabáta. Setja gólf fyrir dagabáta í krókakerfinu.“ Þessir aðilar höfðu nú sett þessa ræðu í vasann og saumað kyrfilega fyrir. Stuðningur fór þverrandi við kröfu LS um gólf.
Forysta LS ákvað að funda með félagsmönnum í mars og greina frá breyttri stöðu. Einhugur var á fundunum, halda áfram viðræðum, reyna að leysa málið með því að setja gólf.
Áfram var reynt, yfirlýsing frá viðmælendum sóknardaganefndar – um loforð fyrir 6 – 0-0-7 tonna aflaviðmiðun til kvóta – fjarstæða. Reynt var til þrautar.
Lausnin opinberuð, val um kvótasetningu eða sóknardagakerfi með gólfi. Því miður reyndist það ekki rétt. Aðeins annar kosturinn vænlegur – kvótasetningin. Fundur í stjórn LS. Skilaboðin skýr reyna að ná fram jafngildum kostum. Verði slíkt ekki hægt, einhenda sér í að ná eins miklum aflaheimildum til kvóta og hægt væri.
Sú leið farin. Frumvarp sjávarútvegsráðherra gerði ráð fyrir að 0-8-8 tonn kæmu í hlut sóknardagabáta. Við 2. umræðu á Alþingi Íslendinga hafði þessi tala verið hækkuð í 0-8-9 tonn eða um 10%.
Meðalþorskafli sóknardagabáta sem myndaði grunn var 9-0-11 tonn. Í tillögum ráðherra var gert ráð fyrir að 80% yrði skipt milli bátana eða 0-8-8 tonnum, niðurstaðan varð hins vegar 89%. Það þýddi þó ekki að einstaka bátar sem úthlutað var meiru en 15 tonnum fengju 89% af betra árinu. Því þegar búið var að leggja saman aflann þegar betra viðmiðunarárið var valið var sú tala samtals 2-4-13 tonn. Frumvarp ráðherra gerði því ráð fyrir að einstaka bátar fengju 66% af betra árinu. Það hækkaði svo í 73% í meðförum sjávarútvegsnefndar.
Við útfærslu á hinu nýja krókaaflamarki sóknardagabáta var haft að leiðarljósi að ná sem flestum upp fyrir 30 tonn. Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra voru 135 bátar eða 46% bátanna með veiðiheimildir yfir 30 tonnum, en eftir breytingar sem gerðar voru á frumvarpinum með tilstuðlan LS fjölgaði þeim um 51, urðu 186 eða nálægt tveir af hverjum þremur með meira en 30 tonn.
Ágætu fundarmenn!
Það er vissa mín að úr þeim spilum, sem forysta LS var allt í einu komin með á hendurnar, hafi verið spilað eins vel og hægt var. Það merki ég á viðbrögðum ykkar við kvótasetningunni. Menn bærilega sáttir. Það er von mín að hið nýja veiðikerfi fyrrverandi sóknardagamanna megi verða þeim gjöfult og verða til að efla útgerð viðkomandi.
Óhemju skrif liggja frá þessum tíma. Nokkur þeirra er að finna aftast í aðalfundarmöppunni undir kaflanum ítarefni og bendi ég mönnum á þau til frekari upplýsinga.

Grásleppumál

Ég hefi nú vikið að þeim tveimur málum sem hvað fyrirferðamest hafa verið hjá LS á sl. ári. Inn á milli hafa fjölmargir aðrir þættir komið við sögu.
Grásleppuvertíðin hófst 5. mars, fyrr en nokkru sinni. Söluhorfur voru góðar og lágmarksverð sem LS gaf út hélt nánast út vertíðina. Aflinn endaði í 2-8-11 tunnum, mest veitt á Vopnafirði 0-1-1 tunnur eða 10% af veiðinni.
Það er ljóst að heildarveiðin í heiminum fór fram úr því sem æskilegt var. Á Nýfundnalandi endaði veiðin í 15 þús tunnum eða 50% umfram meðalveiði sl. 10 ára, Noregur var með 0-9-4 tunnur, Grænland 10 þús. tunnur 50% umfram meðaltal sl. 10 ára og í Danmörku skilaði veiðin aðeins 200 tunnum. Heildarveiðin varð því 42 þús. tunnur, sem er 0-0-7 tunnum umfram það sem æskilegt var til að stöðugleiki héldist áfram á markaðinum.

Hér á undan greindi ég frá því að útgefið verð hefði haldist nánast út vertíðina. Því miður er vertíðinni ekki lokið þó veiðum hafi verið hætt 7. ágúst. Enn eru óseldar rúmlega 400 tunnur og eru söluhorfur á þeim ekki góðar og þreifingarverð vart hærra en 50 þúsund. Þá er ekki ólíklegt að einhver hundruð tunna séu óseld í Nýfundnalandi. Það blasir því við að erfiðlega getur reynst að hefja næstu vertíð.
Svæðisfélög LS eru meðvituð um ástandið og hafa lýst yfir vilja sínum um að stytta komandi vertíð til að draga úr veiði í því skyni að koma jafnvægi á markaðinn.
Mikið er í húfi því á sl. ári voru útflutningsverðmæti grásleppukaviars og saltaðra grásleppuhrogna 8-3-1 milljónir, hafði aukist um 44% milli ára. Á fyrstu 7 mánuðum þessa árs hefur útflutningur dregist lítilsháttar saman, en góðu fréttirnar eru hins vegar þær að verð hefur hækkað lítilsháttar.
Þegar er undirbúningur hafinn fyrir komandi vertíð. Viðræður við hinar veiðiþjóðirnar standa yfir. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um það ástand sem nú er og allir taki þátt í draga úr veiði.
Eins og undanfarin 16 ár mun LS gangast fyrir fundi um stöðu grásleppuhrognamarkaðarins í fyrstu viku febrúar. Að þeim fundi loknun ætti staðan á markaðinum að liggja fyrir.
Skilaboðin nú eru skýr, grásleppuveiðimenn búið ykkur undir samdrátt í veiðum á grásleppu og mikla óvissu um verð á næstu vertíð.

Öryggismál

Landssamband smábátaeigenda hefur reynt eftir fremsta megni að vera vakandi yfir því sem bætt gæti öryggi félagsmanna við fiskveiðar. Í upphafi setti félagið sér þau markmið að enginn færi í róður nema báturinn væri með fullgilt haffæriskírteini, áhöfnin með þau réttindi sem krafist væri og áhöfnin að fullu slysa- og líftryggð. Öll þessi atriði eru í höfn.
Á undanförnum 10 árum hefur átt sér stað bylting í smíði smábáta. Bátarnir einstaklega góðir sjóbátar, búnir nýjustu tækjum, margir þeirra afar hraðskreiðir. Allt þetta hefur stuðlað að bættu öryggi félagsmanna.
Nú eru allir smábátar búnir sjálfvirku tilkynningakerfi þannig að vitað er um staðsetningu hvers og eins sem er afar mikilvægt ef eitthvað kemur fyrir. Nýverið var ákveðið að gúmmíbjörgunarbátar skildu verða í öllum smábátum en slíkt tók ekki til báta með sumarhaffæri.
Þá hefur verið gefinn út bæklingur um Öryggi smábáta á fiskveiðum og hér frammi má sjá það allra nýjasta sem er 26 mín. löng mynd um sama efni.
Ekki verður hér látið staðar numið öðru vísi en minnst sé á og þakkað fyrir stórbætta veðurþjónustu. Dufl og sjóveðurspá komið í Textavarpið og veðurfregnalestur aftur kominn kl hálffimm á morgnanna.
Þrátt fyrir allt þar sem framan er talið, verður aldrei hægt að reikna hið óútreiknanlega út.

Björgunarafrek

23. janúar sl. hvolfdi Sigurvini GK-61 í innsiglingunni í Grindavík. Tveir mennAdalf04.jpg voru um borð. Úr landi sáu menn skipbrotsmennina berjast fyrir lífi sínu í sjónum en fengu ekkert að gert. Björgunarsveit þeirra Grindvíkinga – Þorbjörninn brást fljótt við kalli. Tveir björgunarbátar voru sjósettir Oddur Gíslason og slöngubáturinn Hjalti Freyr. Þriggja manna áhöfn Hjalta Freys er hér meðal okkar í dag. Sjónarvottar eru sammála um að við björgunina hafi engu mátt muna. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þremenningar yfir að ráða mikilli reynslu í björgunarsveitinni, þar liggur að baki mikil þjálfun hérlendis og erlendis. Þetta, ásamt hugdirfsku og hetjuskap gerði það að verkum að þeir gátu klárað verkefnið sem þeim var falið. Báðum mönnunum var bjargað við verstu aðstæður.
Ég bið þá Björn Óskar Andrésson, Hlyn Sæberg Helgason og Vilhjálm Jóhann Lárusson að koma hér upp veita viðtöku heiðursskjali frá Landssambandi smábátaeigenda fyrir frábært björgunarafrek.
Þá bið ég formann Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, Daníel Gest Tryggvason, að koma hér upp og veit viðtöku heiðursskjali frá Landssambandi smábátaeigenda ásamt 100 þúsund króna viðurkenningu til stuðnings því frábæra og mikilvæga starfi sem sveitin gegnir. Ég vona að þessi viðurkenning verði öðrum hvatning. Hafið þökk fyrir.

Norræn björgunarmiðstöð

Á fundi stjórnar LS 10. júlí 2003 var eftirfarandi samþykkt:
„Stjórn LS beinir því til stjórnvalda að fresta öllum ákvörðunum um smíði varðskips, en þess í stað að einbeita sér að því að efla þyrlukost Landhelgisgæslunnar með kaupum á nýrri þyrlu. Í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir í samstarfi Landhelgisgæslunnar og varnarliðslins ber að hraða þessari vinnu eins mikið og kostur er.“

Ég sé ástæðu til að vinna áfram með þessa samþykkt. Óvissa er um veru þyrlusveitar varnarliðsins og mitt mat er að við eigum ekki að treysta algjörlega á veru hennar hér. Mín skoðun er sú að stjórnvöld hefji nú þegar viðræður við granna okkar Færeyinga, Dani, Norðmenn, Hjaltlendinga og Grænlendinga um stofnun sameiginlegrar björgunarmiðstöðvar við N-Atlantshaf með aðsetur hér á landi. Ég tel þetta málefni afarbrýnt og þjóðirnar væru vel í stakk búnar að standa myndarlega að þessu verkefni þannig að öryggi sjómanna væri sem best tryggt.

Afli smábáta

Þá er komið að þeim kafla ræðu minnar er fjallar um afrek félagsmanna á sl. fiskveiðiári. Á því ári lönduðu alls 9-0-1 smábátar 6-9-66 tonni eða 64 tonn að meðaltali á hvern bát. Aflinn var samansettur af 38 tegundum. Fjórar tegundir skipuðu sér hins vegar í sérflokk voru 96% af heildaraflanum. Mest var af þorski 64% (6-6-42 tonn), ýsa var 20% (0-4-13), steinbítur 7% (0-9-4) og ufsi 5% (9-1-3 tonn). Það skal tekið fram að grásleppa er utan þessar aflatalna þar sem afli á hvern bát er ekki kunnur.
Í einstökum útgerðarflokkum, var þorskur 93% af afla sóknardagabáta, 73% hjá aflamarksbátum og 56% hjá krókaaflamarksbátum. Hlutur ýsunnar í afla krókaaflamarksbáta var 26% og steinbítur 9%, þá var ýsa 10% af afla aflamarksbáta.

Aflahæstu bátarnir í hverjum útgerðarflokki voru:
Aflamark: Maron GK 522 með 259 tonn
Krókaaflamark: Guðmundur Einarsson ÍS 155 með 1-0-1 tonn
Sóknardagakerfi: Örkin SF 21 aflahæst með 120 tonn

Aflakóngurinn okkar Guðmundur Einarsson hefur nú yfirgefið smábátaútgerðina sem skipstjóri, hann stjórnar nú línubátnum Einari Hálfdáns og vil ég við þetta tækifæri þakka honum sérstaklega hans framlag til eflingar smábátaútgerðarinnar og óska honum góðs gengis á nýjum starfsvettvangi.

Kjarasamningar

Góðir fundarmenn! Kjaradeila Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf og sjómannasamtakanna hefur heltekið flesta fréttamiðla landsins á síðustu vikum. Engan þarf að undra það þar sem um grafalvarlegt mál er að ræða.
Útgerðarmaður Sólbaks hefur látið að því liggja að úreltir kjarasamningar LÍÚ og Sjómannasamtakanna hefti stórlega framfarir í greininni. Hann bendir máli sínu til stuðnings á útgerð smábáta. Þar séu ekki kjarasamningar í gangi, enda hafi smábátaútgerðin lagað sig afar vel að öllum aðstæðum, tekið í gagnið nýjustu tækni og sé framarlega á sínu sviði. Það sem snýr að hátæknivæddum smábátaflota eru ekki ýkjur, en það er rangt hjá útgerðarmanninum að ekki séu í gangi kjarasamningar hjá smábátaeigendum. Á sl. árum hefur verið unnið að gerð þeirra og árangurinn sá að 11 útgerðir í Bolungavík hafa gert kjarasamning við Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur og fjölmargar útgerðir hafa notað hann sem viðmiðun. Kjaradeilur hafa ekki verið tíðar hjá smábátaeigendum. Ástæður þess er að mestu leiti raktar til nálægðar áhafnarinnar. Nánast án undantekninga eru ekki fleiri en 2 um borð, oftast eigandinn og hásetinn. Allir sjómenn hvort sem þeir eru á bátum minni en 12 brl. eða stærri falla undir sjómannalögin. Þar er réttarstaða sjómannsins að nokkru tryggð.

www.smabatar.is

Heimasíða Landssambands smábátaeigenda smabatar.is hefur jafnt og þétt sótt í sig veðrið. Við upphaf síðasta aðalfundar voru að meðaltali 129 heimsóknir á dag. Á tímabilinu milli aðalfunda voru heimsóknirnar 1-7-115 sem segir okkur að fjöldi á hverjum degi er að meðaltali 317 sem er aukning upp á 150%. Alls hafa verið ritaðar 223 fréttir á heimasíðuna á tímabilinu, en reynt er að birta eina frétt á hverjum virkum degi. Greinilegt að smábátaeigendum þykir þessi miðlun góð og vonandi að hún eflist enn frekar.

Stjórn LS hélt 4 fundi á árinu. Á fundunum var tekið á brýnum málum, ályktanir samþykktar og línur lagðar fyrir málefni í vinnslu. Sérstaklega skal minnst á fund stjórnarinnar 18. maí sl. þegar rætt var um afar erfiða stöðu sem upp var komin í málefnum sóknardagabáta. Stjórnin leysti það farsællega og sendi skýr skilaboð um hvernig skildi tekið á því erfiða máli. Þakka ég stjórninni fyrir afargott samstarf.

Ekki verður hér skilið við öðru vísi en að þakka sóknardaganefnd LS fyrir hennar ágæta framlag. Nefndin starfaði við erfið skilyrði, en stóð sig að mínu mati með prýði.

Þá þakka ég grásleppunefnd LS fyrir samstarfið. Eins og að framan er getið auðnaðist nefndinni að ákveða verð fyrir vertíðina sem var leiðandi, viðhélt stöðugleika sem skilaði veiðimönnum og vonandi framleiðendum einnig góðri afkomu.

Ágætu þingfulltrúar og gestir
Aðalfundur fær nú það vandasama hlutverk að marka braut næsta árs þar sem ég veit að vandað verður til allra verka. Mikið starf bíður fulltrúanna þar sem ályktanir eru alls 98, en voru 178 í fyrra, sem segir kannski allt til um það hvað fækkun veiðikerfa hefur að segja fyrir starfsemi LS.

Að lokum vil ég óska félagsmönnum til hamingju með nýtt skrifstofuhúsnæði, sem LS festi kaup á 5. október sl. Starfsemin flytur í hið nýja húsnæði að Hverfisgötu 105 í næsta mánuði.

Auk þess sem ég hef hér tæpt á vil ég vísa til kaflans um ítarefni sem er í möppunum ykkar og annarra gagna sem þar er að finna og svo að sjálfsögðu heimasíðu LS. Þá mun ég fylgjast með störfum nefnda hér á fundinum og svara fyrirspurnum og verða mönnum innanhandar.

Samstarfsfólki mínu á skrifstofu LS, Oddbjörgu og Arthuri, þakka ég fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.
Aðalfundarfulltrúar verið velkomnir til 20. aðalfundar Landssambands smábátaeigenda.

Að þessu mæltu lýk ég máli mínu.

Takk fyrir.