Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn í Reykjavík
dagana 14. – 15. október 2004, ályktar eftirfarandi:
Í því ljósi að íslensk stjórnvöld líta í auknum mæli til þess sem ráðandi markaðsaðilum í sölu matvæla þóknast og þykir um fiskveiðistjórnun og beitingu veiðarfæra, fagnar LS lögum frá Alþingi í árslok 2003 um línuívilnun.
Þótt LS lýsi miklum vonbrigðum með útfærslu laganna er það engu að síður fagnaðarefni að eftir áralanga baráttu fyrir því að fá viðurkenningu stjórnvalda á veiðarfæri sem flestum ber saman um að sé vistvænt, náði það fram að ganga.
Þessi þróun er í fullkomnu samræmi við ályktanir LS til fjölda ára og nú, þegar ljóst er að stærsta matvöruverslunarkeðja heims hefur lagst á sveif með línuveiðum, skorar LS á yfirvöld að halda áfram á sömu braut. Fyrsta skrefið felst í því útfæra línuívilnun með þeim hætti sem lagt var upp með og leggja af útúrsnúninga á hugmyndinni.
Á austurströnd Bandaríkjanna er uppi athyglisverð þróun. Ein vinsælasta veitingahúsakeðjan á svæðinu er að stíga fyrstu skrefin í átt til samstarfs við Samtök krókaveiðimanna á norð-austur strönd Bandaríkjanna um hráefnisöflun. Fyrirtækið hyggst með þeim hætti tengja sjálfbæra veiðiaðferð og meðvitaða neytendur um umhverfismál. LS telur einsýnt að þessi hugsun muni einkenna markaðs- og neytendavitund í komandi framtíð og því fyrr sem Íslendingar gera hana að sinni, því meir mun þjóðin hagnast.
LS vill í þessu sambandi ítreka fyrri áskoranir sínar um að hrint verði í framkvæmd öflugum rannsóknum á umhverfisáhrifum veiðarfæra. Tómlætið gagnvart þessum rannsóknum gerir stöðu okkar sýnu verri meðan engin kortlagning er til af Íslandsmiðum þar sem þeim er skipt með tilliti til umhverfisáhrifa veiðarfæra.
Meðan rannsóknir sýna ekki fram á annað er það sannfæring LS að forsenda aukinna þorskveiða á Íslandsmiðum sé að draga stórlega úr notkun snurvoðar til bolfiskveiða og banna togveiðar á fiski innan 12 mílna landhelginnar.
LS harmar hvernig stjórnvöld stóðu að afnámi sóknardagakerfisins. Loforð um samráð og samvinnu innan þess ramma sem aðalfundir undanfarinna ára hafa ályktað stóðust ekki og furðulegar fullyrðingar um að frá engum yrði tekið við kvótasetningu þeirra hafa vitaskuld reynst alrangar.
Þau tímamót eru í sögu LS að félagsmenn eru nú læstir inní hlutdeildarkerfi sem ólíklegt er að breytist í náinni framtíð. LS mun þó í engu slaka á í framgangi þeirrar grundvallarhugsjónar að smábátaútgerðina ber að efla enn frekar. Hún er besta tæki stjórnvalda til margs í senn – að stuðla að vistvænum veiðum sem skila hágæða hráefni, viðhalda lífsmöguleikum minni strandbyggða og eru í senn atvinnuskapandi og arðvænar.
Öflugur smábátafloti er ávísun á kraftmikið og fjölskrúðugt mannlíf sjávarbyggðanna.