Eins og fram hefur komið notaði sjávarútvegsráðherra, Árni. M. Mathiesen nýútkomna bók Charles Clover, ritstjóra umhverfismála hjá Daily Telegraph, sem megin þráð í ávarpi sínu á aðalfundi LS 14. og 15 okt. sl.
Bókin ber titilinn “The End of the Line, how overfishing is changing the world and what we eat”.
Í bókinni fjallar höfundurinn um fiskveiðar í heiminum og hvernig nánast allt sé að fara í kalda kol á þeim vettvangi. Eða eins og segir á bókarkápu: ….með alþjóðlegum rannsóknarleiðangri Charles Clover á eyðileggingunni uppgötvum við að fiskimenn eru að fótum troða heilu vistkerfin, tortíma hagkerfum og gerandi fátækum enn erfiðara fyrir með gráðugri nútímanýlendustefnu og ósjálfbærum viðskiptaaðferðum til að koma fisk á okkar disk……
Ráðherra fór fögrum orðum um bókina og vitnaði margsinnis til hennar.
En þeir eru fleiri sem hæla Charles Clover, því á innkápu bókarinnar er að finna mikið lof frá Brendan May, en hann var þar til fyrir stuttu aðalframkvæmdastjóri MSC (Marine Stewardship Council) sem, eins og kunnugt er stundar umhverfisvottun á sjávarafurðum. MSC hefur til þessa verið sem eitur í beinum íslenskra stjórnvalda – svo vægt sé til orða tekið.
En það er fleira sem vekur athygli í þessari bók, sérstaklega í ljósi þess að hún er í náðinni hjá íslenskum stjórnvöldum. Inngangur hennar hefst á þeirri hrikalegustu myndlíkingu sem hægt er að hugsa sér á botntrollsveiðum. Þar stillir höfundurinn upp veiðimönnum á sléttum Afríku sem strengja gríðarlegt net með ógnarþungum járnvölturum í neðri strengnum á milli risastórra ökutækja. Þau þeysa um sléttuna og sópa upp öllum skepnum sem fyrir eru, ásamt því að eyðileggja gróður og slétta úr ójöfnum í landslaginu.
Þessa mynrænu samlíkingu endar hann á orðunum: Þessi afkastamikla, en mjög svo “óvalhæfa” aðferð til að drepa dýr er kölluð trollveiðar.
Í ljósi lýsingar höfundarins og þess að hann víkur aftur og aftur að botntrollinu sem skaðræðisverkfæri er það sérkennilegt hversu örlátur hann er á hólið við Íslendinga og fiskveiðistjórnunarkerfið. Engin kortlagning er til af Íslandsmiðum með tilliti til umhverfisáhrifa veiðarfæra, enda slík kortagerð ekki möguleg meðan ekki er skipulega gengið í að rannsaka þau mál.
Þá er við fyrstu sýn hvergi að finna stakt orð hjá höfundinum, í Íslandsumfjöllun hans, að notkun ólíkra veiðarfæra sé tengd sjálfbærri nýtingu. Þvert á móti heggur hann að smábátaflotanum með gamalkunnum slögurum um að “þeir veiði of mikið” og stjórnist af græðgi.
Þetta eru þó sömu fiskimennirnir og hafa reynt að koma því að í umræðunni að veiðarfæranotkun skipti máli og stemma beri stigu við togveiðum.
Nánar verður fjallað um þessa bók hér á síðunni á næstunni.