Magnaðar myndir af íslenskum kóralsvæðum

Eins og greint var frá í gær hér á síðunni hélt Sigmar Örn Steingrímsson hjá Hafró fyrirlestur nú í hádeginu um rannsóknir á kóralsvæðum við strendur landsins. Góð mæting var á fundinn, hvert sæti skipað.

Óhætt er að segja að erindi Sigmars hafi verið hið fróðlegasta. Hann byrjaði á að rekja með hvaða hætti upplýsingum var safnað um líkleg kóralsvæði við landið og með hvaða hætti fjölgeislamælingar Hafró geta komið að gagni við að auðkenna líkleg búsvæði. Þá greindi hann ‘hættustig’ í ljósi staðsetningar (hvort viðkomandi svæði séu opin eða lokuð botnvörpuveiðum) og sýndi síðan stórmerkilegar ljósmyndir og myndbönd af þremur kóralblettum, teknar með hágæða myndavélum.

Fyrsta myndbandið var af Öræfagrunni, en þar er óhætt að segja að ekki hafi verið fagurt um að litast. ‘Allt í rúst’ eins og Sigmar orðaði það og myndirnar töluðu sínu máli. Djúp hleraför og tvístraður kóral hvert sem myndavélinni var beint. Eina samlíkingin sem telja verður raunhæfa er eyðimörk.

Á hinn bóginn kom það þægilega á óvart að bæði í Hornafjarðardýpi og Breiðamerkurdýpi voru mynduð svæði þar sem kórall þrífst og dafnar, með fjölbreyttu lífríki eins og kóralrif draga að sér, hvar sem er á hnettinum.

Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti hérlendis sem myndir af þessu tagi eru sýndar opinberlega og LS óskar Hafrannsóknarstofnun til hamingju með fyrsta áfangan í þessum rannsóknum. Hann er stórt skref framávið og nú geta Íslendingar sýnt hverjum sem vill að slíkt rannsóknarverkefni er nú komið af stað hérlendis.
LS hefur til tveggja áratuga hvatt til þess að slíkar rannsóknir fari fram og verið staðfastlega þeirrar skoðunar að veiðiaðferðir skipti gríðarlegu máli við nýtingu auðlindarinnar. Þessar fyrstu myndir staðfesta það svo ekki verður um villst.

Eins og fyrr sagði var þétt setinn bekkurinn á málstofunni, en það vakti óneitanlega athygli að forsvarsmenn LÍÚ sáu ekki ástæðu til að mæta.