Ályktanir frá 20. aðalfundi LS – umhverfismál, veiðarfæri, meðafli

Á 20. aðalfundi LS voru samþykktar fjölmargar ályktanir. Nú þegar hefur aðalályktun fundarins verið birt og á næstu dögum munu aðrar ályktanir líta dagsins ljós. Hér á eftir fara samþykktir sem heyra undir umhverfismál, veiðarfæri og meðafla:

Rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra

Landssamband smábátaeigenda krefst þess að rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra verði stórauknar.

Umhverfisvænar sökkur

Landssamband smábátaeigenda hvetur félagsmenn til að nota umhverfisvænar
sökkur.

Aukaafli við kolmunnaveiðar lúti sömu reglum og umframafli

Landssamband smábátaeigenda krefst þess að böndum verði komið á takmarkalausan aukaafla við veiðar á kolmunna. Á sama tíma og trillukörlum er refsað miskunnarlaust fyrir einn fisk veiddan umfram aflaheimildir, landa kolmunnaskipin þúsundum tonna af bolfiski til bræðslu.

Flotvörpuveiðar

Landssamband smábátaeigenda lýsir yfir miklum áhyggjum af veiðum með flotvörpu og krefst þess að þær verði rannsakaðar ítarlega með tilliti til seiðadráps.

Reglugerðarhólf á Breiðafirði

Landssamband smábátaeigenda gerir þá kröfu að reglugerðarhólf á Breiðafirði sem lokað hefur verið fyrir línuveiðum verði opnað. Engin rök eru fyrir því að hafa þetta hólf lokað fyrir línu en opið fyrir öðrum veiðarfærum.

Bann við botnvörpuveiðum á hrygningarsvæðum steinbíts

Landssamband smábátaeigenda skorar á sjávarútvegsráðherra að banna allar botnvörpuveiðar á hrygningarsvæðum steinbíts á tímabilinu frá 1. október til 1. febrúar og alfarið innan 12 mílna á áðurnefndum svæðum.

Veiði með dragnót

Landssamband smábátaeigenda leggur til að endurskoðaðar verði reglur um dragnótaveiðar m.t.t. breytinga sem orðið hafa á veiðarfærinu, stærð skipa sem stunda veiðarnar, veiðisvæða, fjarlægðar frá landi og samsetningu afla þegar tekið er mið af því að dragnótaveiðar voru leyfðar á nýjan leik til að nýta flatfiskinn. Það er krafa fundarins að dragnótabátar 15 m og lengri lúti sömu reglum um veiðisvæði og togarar.

Karfi, keila og langa sem meðafli

Landssamband smábátaeigenda leggur til að karfi, keila og langa teljist 20% sem meðafli í hverri veiðiferð án þess að teljast til kvóta.