Óvönduð vinnubrögð ritstjóra umhverfismála Daily Telegraph

Eins og sagt var fyrir stuttu hér á síðunni verður haldið áfram að fjalla um bókina “The End of the Line” eftir Charles Clover, ritstjóra umhverfismála hjá Daily Telegraph. Eitt af því sem fram hefur komið um höfundinn er að hann hafi þrisvar sinnum unnið til bresku umhverfis- og fjölmiðlaverðlaunanna, British Environment and Media Awards. Það er því forvitnilegt að kanna hver stendur að þessum verðlaunum. Lesendum eru hæg heimatökin, slóðin er þessi:
http://www.wwf.org.uk/bemas/index.asp

Það er sem sé WWF – World Wide Fund, öflugustu umhverfissamtök heims sem eiga heiðurinn að þessum verðlaunum. Eitt afsprengja WWF er MSC – Marine Stewardship Council, umhverfisvottunarfyrirtækið umdeilda.

Charles Clover eyðir talsverðu púðri í að útlista íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og aðdraganda þess. Þeir sem sæmilega kunnugir eru þessari sögu hafa ekki lesið lengi þegar þeir fara að rekast á furðulegar staðreyndavillur sem hæglega mátti sneiða hjá með því að fá kunnugan til að lesa yfir textann. Sumar þeirra eru minniháttar, en þegar saman er dregið sýna þær flaustursleg vinnubrögð, ekki síst af hendi aðila sem tekinn er alvarlega af samtökum eins og WWF og íslenskrum stjórnvöldum.
Vitaskuld vaknar sú spurning hvað á að eltast við bókarskrif út í heimi, en gallinn er sá að séu engar athugasemdir gerðar er þögn sama og samþykki.

Hér eru nokkur dæmi úr bókinni (Athugasemdir LS í svigum):

1. Höfundur segir: “Aukingin í 209 þúsund tonn (fyrir fiskveiðiárið 4-20-2003) var í takt við tillögur vísindamanna”.

Hið rétta er að Hafró lagði til 180 þúsund tonn, en vegna aflareglunnar neyddist stofnunin til að reikna 209 þúsund tonn. Þetta kemur skýrt fram í Fjölriti Hafró nr. 97, bls. 7 og 13:
http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/fjolr.htm

2. Höf. segir að eftir síðasta þorskastríð (lauk 6-5-19) hafi Íslendingar sjálfir tekið til við rányrkjuna sem flotar Breta og Þjóðverja stunduðu, með frystitogurum, byggðum í Bretlandi.

Hið rétta er að fyrsti frystitogarinn kom ekki til Íslands fyrr en 1982 og fjölgun þeirra hófst ekki fyrr en eftir að kvótakerfið var lögfest. Það var hinsvegar skuttogaravæðingin sem hófst uppúr 1970 og lauk seint á áttunda áratugnum. Trúlega var aðeins einn (hugsanlega tveir) þeirra byggður í Bretlandi (Skotlandi) og það löngu fyrir þorskastríðið (Ýmir HF 343 – einhver skuggalegasti drulludallur sem sést hefur við Ísland). Að því best er vitað var enginn frystitogaranna sem komu síðar til sögunnar smíðaður á Bretlandseyjum.

3. Höf. heldur því fram að allir togarar fiskveiðiflotans taki þátt í togararallinu.

Hið rétta er að tala þeirra hefur verið 5 og á árinu 2004 voru þeir 4.

4. Höf. segir að samkvæmt íslenskum lögum megi aðeins veiða árlega 25% úr hrygningarstofni(!) þorsksins.

Þetta er kolrangt og honum hefði mátt vera það ljóst með örlítilli skoðun á skýrslum Hafró. Þar kvartar stofnunin sáran yfir því að ævinlega sé veitt meira en aflareglan segir til um. Við skoðun er einnig ljóst að veiðar smábátaflotans eiga þar aðeins lítinn hluta að máli, en af umfjöllun hans má hæglega ráða að þeir einir séu “sekir” í þeim efnum.

5. Höf. kemst svo að orði að “allt frá skarkola til makríls” sé kvótasett og gerir makrílnum svo hátt undir höfði að fella hann undir einn af 16 mikilvægustu fiskistofnunum innan lögsögunnar.

Það er vart annað hægt en að skella uppúr yfir þessu með makrílinn. Samkvæmt aflatölum Fiskistofu (http://www.fiskistofa.is/bbt/excel.php) hefur einu tonni verið landað af makríl á Íslandi frá september 2000 til dagsins í dag.

6. Höf. heldur því fram að “sé einhver hluti íslenska kerfisins stjórnlaus sé það…. (sóknardagakerfið). Strandveiðimennirnir hafi gerst gráðugir og grafi undan sjálfbærni kerfisins”.

Það virðist hafa farið fullkomlega framhjá höfundinum að bátarnir í sóknardagakerfinu máttu veiða 21 sólarhring á því árinu sem hann var staddur hér – og það á tímabilinu 1. apríl – 31. október (þeim bannaðar veiðar utan þess tímabils). Þá máttu þeir eingöngu nota handfæri og stærð þeirra takmörkuð við 6 brt. Þá var hin hræðilega “ofveiði” þeirra á rólinu í kringum 1% af áætlunum Hafró undanfarin ár á stærð þorskstofnsins.

Fjölmargar aðrar staðhæfingar í bókinni eru annað hvort beinlínis rangar eða mjög umdeildar. Hér skal þó staðar numið í bili, en LS mun innan skamms senda bréf bæði til WWF og Daily Telegraph um bókina.

Raufarhöfn – trillurnar fiska vel og ekkert atvinnuleysi”