Ályktanir frá 20. aðalfundi LS – línuívilnun verði aukin, engin þorskanet hjá krókaaflamarksbátum, skerðing aflahlutdeildar.

Línuívilnun verði aukin

Landssamband smábátaeigenda leggur til að línuívilnun verði aukin og skerði ekki aflaheimildir annarra skipa.
Línuívilnun nái til smábáta sem róa í dagróðrum, hvort sem um er að ræða handbeitningu eða trektarbeitningu.

Krókaveiðar

Landssamband smábátaeigenda vill að hvergi verði kvikað frá þeirri stefnu að aflahlutdeild smábáta í krókaaflamarkskerfi verði veidd á króka en ekki í net eins og hugmyndir hafa verið á lofti um. LS álítur að ef netaveiðar yrðu leyfðar hjá krókabátum yrði stutt í þá kröfu að krókaaflamark og aflamark yrði sameinað með stórfelldri fækkun smábáta.

Skerðing aflahlutdeildar – andstætt við fullyrðingu sjávarútvegsráðherra

Við úthlutun aflaheimilda 1. september sl. kom í ljós að hlutdeildir þeirra sem voru í krókaaflamarki á sl. fiskveiðiári og aflamarksskipa höfðu verið lækkaðar. Ástæður þessa er að sögn Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins kvótasetning sóknardagabáta. Sú skýring gengur þvert á fullyrðingar sjávarútvegsráðherra um að kvótasetning sóknardagabáta mundi ekki rýra veiðiheimildir annarra útgerðarflokka.
Landssamband smábátaeigenda lítur á það sem grafalvarlegan hlut að ekki sé hægt að treysta orðum ráðherrans.
Sjávarútvegsráðherra verði krafinn svara hvers vegna hans sjónarmið voru ekki látin ráða við kvótasetningu sóknardagabáta.