Ágætur fundur með Grænlendingum

Í byrjun vikunnar barst LS bréf frá KNAPK (Samtök veiðimanna og fiskimanna á Grænlandi). Í bréfinu koma fram fyrstu viðbrögð Grænlendinga við hugmynd LS sem varpað var til systurfélaganna við Atlantshafið í ágúst sl. þess eðlis að félögin tækju sig saman um að stemma grásleppuveiðarnar sem næst þörf markaðarins, strax á næstu vertíð.
Skemmst er frá því að segja að viðbrögð Grænlendinga eru mjög jákvæð og hafa þeir nú þegar í undirbúningi takmarkanir á veiðunum á komandi vertíð, en þær hafa hingað til engar verið.

Í framhaldi gafst tækifæri til að hitta forsvarsmenn KNAPK, þá Tønnes Berthelsen framkvæmdastjóra og formanninn Leif Fontaine, í London sl. miðvikudag. Forgöngu um fundinn hafði Orri Vigfússon, en eins og kunnugt er hafa grænlenskir fiskimenn notið styrkja frá þróundarsjóði NASF (Verndarsjóði villtra laxastofna í N-Atlantshafi) og KNAPK til nýjunga í fiskveiðum. Þetta hefur m.a. leitt til gríðarlegrar sóknar í grásleppuveiðum Grænlendinga. Markmið fundarins var að ræða þessi mál enn frekar og þar með undirbúa sameiginlegan fund félaganna við Atlantshafið sem haldinn verður í tengslum við hinn árlega LUROMA fund, sem haldinn verður hinn 4. febrúar 2005 í London.

Á fundinum velti Orri Vigfússon upp hugmyndum varðandi markaðsmál sem skoðaðar verða á næstunni. Þar er ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, því það hefur reynst þrautin þyngri að stækka markaðinn fyrir grásleppuhrogn.

Fyrir nokkru höfðu LS borist jákvæð viðbröð Norðmanna og Nýfundnalendinga við málaleitan LS þannig að nú, með viðbrögðum Grænlendinga, hefur skapast grundvöllur fyrir sameiginlegu átaki félagasamtakanna í málinu. Hvernig til tekst er vitskuld vonlaust um að spá og árangurinn mun byggja að stærstum hluta á skilningi veiðimanna sjálfra.

Alþingi – fyrirspurn um veiðar og verkun grásleppu.”