Í hinu norska Fiskeribladet birtist í dag frétt um ástand grásleppustofnsins við Noreg og haft eftir þarlendum fiskifræðingum að stofn grásleppunnar sé nú í sögulegu lágmarki. Reyndar hafa þeir haldið fram hræðilegu ástandi stofnsins til fjölda ára.
Þessar stóryrtu fullyrðingar eru í meira lagi athyglisverðar, ekki síst í ljósi þess að ‘rannsóknir’ norskra fiskifræðinga á grásleppunni takmarkast við að safna tölum frá 7 – 8 grásleppubátum á ári, þ.e. um netafjölda og fjölda veiddra fiska. Á grundvelli þessara ‘víðtæku’ rannsókna fullyrða þeir um ástand stofnsins og leggja til niðurskurð á veiðiheimildum. Norska strandlengjan er u.þ.b. 22 þúsund km og stór hluti hennar veiðisvæði grásleppunnar.
Veiðimenn ósammála
Það vantar mikið uppá að norskir veiðimenn séu sammála þessu áliti fiskifræðinga. Veiðin við vesturströndina á síðustu vertíð var með eðlilegum hætti, en austast, við rússnesku landamærin, var hún hinsvegar dræm. Rétt eins og við Ísland þekkist að veiði getur verið mjög misjöfn milli svæða.
Alrangar veiðitölur fiskifræðinga
En það er fleira athyglisvert við þessa frétt. Þar eru tíundaðar tölur um grásleppuveiðina í Noregi, en þær eru fullkomlega á skjön við tölur Norges Råfisklag, sem haldið hefur rammlega utan um landaðan afla til fjölda ára, sem og framboð á heimsmarkaði. Í fréttinni segir að veiðin síðustu 3 – 4 ár hafi verið á bilinu 8 – 10 þúsund tunnur, en raunin er að hún hefur verið mjög stöðug á þessu tímabili, í kringum 5 þúsund tunnur.
Í ljósi þess að fiskifræðingarnir halda að veiðin sé helmingi meiri en hún raunverulega er, segja þeir æskilegast að skera niður veiðina um allt að 80%, en leggja þó ‘aðeins’ til niðurskurð í um 4000 tunnur, sem er ekki fjarri veiðinni undanfarin ár. Vonandi eru norskir fiskifræðingar í skárra sambandi við raunveruleikann hvað varðar aðra fiskistofna en grásleppuna.
Kvótinn skorinn um 10%
Fyrir sjávarútvegsráðherra Noregs liggur tillaga um að skerða kvóta norskra grásleppukarla um 10%, úr 2000 lítrum á leyfi í 1800 lítra. Sennilegt er talið að ráðherrann samþykki niðurskurðinn. Engin tillaga er um heildarkvóta nú, frekar en áður.
Áður en þessi tíðindi bárust höfðu samtök norskra strandveiðimanna lýst fullum vilja til að taka þátt í að draga úr veiðinni á komandi vertíð vegna lakrar stöðu á markaðinum eftir mikla veiði á þessu ári. Norskur veiðimaður sem talað var við sagði kaldhæðnilegt hvernig þetta tvennt hittist á: ‘Að lesa þessar tillögur er svipað og maður sæi mann með bundið fyrir augun taka þátt í pílukasti og hann myndi aulast til að hitta í miðjuna’.